Hann var stórkostlegur tónlistarmaður, bítillinn John Lennon. Ekki þarf að hafa mörg orð um þau áhrif sem hann og félagar hans í Bítlunum höfðu á söguna. Hins vegar var hann víst ekki góður bílstjóri. Sé hann dæmdur af verkum sínum, þ.e. klessuverkum í umferðinni, þá er ljóst að hæfileikar hans voru víðsfjarri bílstýrinu.
Að sumra mati hefði hann hreinlega ekki átt að koma nálægt bílum, en komum að því síðar!
Síðastur til að öðlast ökuréttindi
Lennon var næstelstur hljómsveitarmeðlima; fæddur 9. október 1940. Hann var þó síðastur þeirra til að ná bílprófinu. Tuttugu og fjögurra ára gamall náði hann prófinu en það var í febrúar árið 1965; rétt áður en upptökur hófust á plötunni Help! Nánar tiltekið að morgni sama dags og upptökur hófust, þann 15. febrúar svo við séum nákvæm.
Lennon hafði ákaflega lítinn áhuga á flestu aksturstengdu og ef til vill má tengja það hörmulegu slysi sem varð nokkrum árum fyrr: Sumarið 1958 var móðir hans, Julia Lennon, á leið heim frá vinafólki. Hún var fótgangandi. Lögreglumaður á frívakt ók á hana og hún lést samstundis. Ökumaðurinn, Eric Clague, hefur lýst þessu hörmulega slysi sem martröð. Martröð sem hefur ásótt hann allar götur síðan.
Fjörutíu ár liðu þar til Clague greindi frá því að hann væri sá sem olli slysinu (hlekkur hér að ofan). Kannski ekki að furða að þetta hafi sótt á manninn þar sem hann stakk af og sagði ekki múkk.
Julia Lennon var rúmlega fertug (44) þegar hún lést og hafði dauði hennar mikil áhrif á hinn unga John, sem var á átjánda ári þegar þessi ósköp áttu sér stað.
Best að hafa bílstjóra
Þrátt fyrir allt tók John Lennon bílprófið og að sjálfsögðu var fjallað um það í blöðunum ytra. Hvort fréttin væri sú að hann hefði „náð“ prófinu eða að hann væri kominn með ökuréttindi er ekki ljóst en þó er þess getið á einhverjum stöðum að þetta hafi verið fyrsta og eina atlaga hans við bílpófið.
Sjálfur sagðist hann ekki hafa verið spenntur fyrir þessum áfanga í lífinu: „Ég hef ekki haft fyrir þessu fyrr [að taka bílpróf] því ég hafði lítinn áhuga á að aka bíl. En þegar ég sá að hinir náðu bílprófinu ákvað ég að best væri að drífa í þessu svo ég yrði ekki einn eftir,“ á hann að hafa sagt skömmu eftir áfangann.
Lennon kunni best við að hafa einkabílstjóra og ók sjaldan sjálfur. Raunar var það mat vina og ættingja hans að það fyrirkomulag væri sennilega best því Lennon var víst hrikalega lélegur bílstjóri og sá þar að auki illa. Þrátt fyrir gleraugun.
Eins ótrúlegt og það nú er dó unnusti Juliu Lennon líka í bílslysi, tíu mánuðum eftir að John Lennon öðlaðist ökuréttindin, á því herrans ári 1965. Það var því sannarlega margt ömurlegt tengt ökutækjum í þessari fjölskyldu.
Fékk ökuréttindi 1965 – Hætti að aka 1969
John Lennon ók bíl í síðasta skipti sumarið 1969. Þá var það fullreynt og ljóst að hann ætti ekki að koma nálægt akstri. Hann áttaði sig á því eftir fjögur ár en eins og við vitum of vel þá svigna götur heimsins undan bílstjórum sem mættu fylgja fordæmi Lennons heitins og hætta að aka. Akstur er nefnilega ekki á allra færi!
Atvikið sem leiddi til þessarar ákvörðunar átti sér stað í Skotlandi. Hann var á ferðalagi með konu sinni, Yoko Ono, Julian, syni Lennons af fyrra hjónabandi og Kyoko, dóttur Yoko. Þau voru á leiðinni til Stan Parker, frænda Lennons, sem bjó í Durness í norðvesturhluta Skosku hálandanna.
Þegar Stan „frænda“ varð ljóst að Lennon ætlaði að aka sjálfur (ekki einkabílstjóri hans) brá honum í brún: „Ég dró stórlega í efa að John réði við að aka eftir einbreiðum og hlykkjóttum vegunum [sveitavegunum norðan Inverness]. Hann var skelfilegur bílstjóri og sjóndapur,“ sagði Stan í viðtali við Daily Record fyrir nokkrum árum þar sem umrætt ferðalag var rifjað upp.
Hann var sannarlega sjóndapur! Nærsýnn með -8,25 á hægra auga og -7,50 á því vinstra. Þessar tölur kannast undirrituð allt of vel við því áður en ég fór í „viðgerð“, þ.e. laser, var ástandið svona. Mínus átta komma leiðindi.
Þau komust ekki langt eftir hlykkjóttum sveitavegunum því Lennon ók bílnum, Austin Maxi, út í skurð og var fjölskyldan flutt með sjúkrabíl á sjúkrahúsið í Golspie. Þar var gert að sárum þeirra.
„Ætlir þú að lenda í árekstri…“
…„skaltu koma því í kring að það gerist í Skosku hálöndunum,“ sagði spaugarinn John Lennon við fréttamenn. „Sjúkrahúsin þar eru nefnilega svo fín.“ Fjölmiðlar fjölluðu töluvert um slysið en sauma þurfti nokkra skurði: 17 spor í andliti Lennons, en Yoko slapp með 14 spor. Börnin tvö slösuðust minna.
Þau höfðu, í upphafi, leigt Austin Mini og ætluðu á honum til Durness. Ferðalagið er langt, rúmir 1100 kílómetrar og vegirnir, eins og fram hefur komið, skrautlegir. Fjölskyldan komst varla fyrir í þessum míkró-bíl þegar farangrinum hafði verið troðið inn í hann.
Bílstjórinn, Lennon, kom þó í veg fyrir að þau þyrftu að kúldrast lengi í smælkinu: Hann stútaði gírkassanum snöggt og örugglega í blábyrjun ferðarinnar. Alls kostar óvanur að aka þó hann hefði tekið bílpróf fjórum árum fyrr.
Þá fengu þau fyrrnefndan Austin Maxi og var það bíllinn sem endaði í klessu ofan í skurði.
Best að hvíla Rolls-inn bara
Stan frænda Lennons var fyrirmunað að skilja nokkuð í ákvörðunum síns elskaða en hvatvísa frænda:
„Ég sagði við hann: Hvað ertu að gera á þessu gamla Maxi-skrifli? Þú átt Rolls og ert með einkabílstjóra en svo kemurðu á eldgamalli blikkdós! Þú hlýtur að vera orðinn gjörsamlega klikk,“ sagði Stan í fyrrnefndu viðtali sem í heild má lesa hér.
Þannig fór um bílferð þá! Bílferðina sem varð sú síðasta með John Lennon við stýrið. Skynsamur maður, hann Lennon. Mættu aðrir slappir bílstjórar taka hann til fyrirmyndar. Taki þeir það til sín sem…hóst hóst….
[Birtist fyrst í júlí 2021]
Fleiri tónelskir bílasafnarar eða bílelskir tónasafnarar:
Alveg Gaga bílasafnari
Gleymdi að hann keypti eðalvagn
Söngvari Metallica kemur á óvart!
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
?
Umræður um þessa grein