Hundrað amerískir bílar, settir saman af Íslendingum, og það á Mýrdalssandi! Er þetta ekki alveg með ólíkindum? Er þetta einhver della sem blaðamanni datt í hug að hrella lesendur Bílabloggs með? Nei, alls ekki lesendur góðir. Þetta er dagsatt.
Fyrir áttatíu árum síðan, í aftakaveðri, strandaði gríðarstórt belgískt flutningaskip á Mýrdalssandi. Á meðal þess sem skipið flutti voru hundrað bifreiðar, ósamsettar. Sagan af björgun áhafnar, bílanna allra og skipsins sjálfs er mögnuð og verður hún rifjuð upp hér.
Það var í lok febrúarmánaðar árið 1941 sem fárviðri gekk yfir Suðvesturland. Veðurofsinn var slíkur að bátar brotnuðu og sukku í Reykjavíkurhöfn, í Keflavíkurhöfn losnuðu bátar og brotnuðu í spón og þannig var það á fleiri stöðum. Athugið að hér er aðeins átt við báta bundna við bryggju. Svo voru það bátar og skip sem ekki höfðu komist að landi fyrir óveðrið og fengu ófáir sjómenn að finna fyrir ógnarkrafti ægis og harkalegum löðrungum kára þessa tvo sólarhringa þegar veðrið var hvað verst.
Já, á tveimur sólarhringum strönduðu eða sukku tíu íslenskir bátar, fjögur erlend skip strönduðu, sjö menn fórust en tugum var bjargað.
Ekkert símasamband
Fyrstu fréttir af öllum ósköpunum bárust seint og illa því á meðal þess sem skemmdist í illviðrinu voru símalínur en „staurar brotnuðu og þræðir slitnuðu eða flæktust saman“ sagði á forsíðu Tímans laugardaginn 1. mars 1941. „Var talsímasamband mjög lélegt í gær, og aðeins fáir staðir, sem hægt var að ná til. […] Mjög miklar skemmdir urðu á línunni meðfram Esjunni og ollu þær því, að eigi var hægt að tala til Vesturlandsins eða Norðurlandsins. Suðurlandslínan var rofin í Landeyjum,“ sagði þar.
Verður vikið nánar að áhrifum sambandsleysisins síðar en fyrst þurfum við að koma skipinu okkar, og bílunum 100, inn í þessa sögu.
Skipalestin sem tvístraðist
Skipalest, HX 109, sem var á leið frá N-Ameríku til Bretlands, lenti í óveðrinu um 70 til 80 sjóm. suður af Vestmannaeyjum og fengu mörg skipanna á sig brotsjó. Skipin 36, sem skipalestinni tilheyrðu, dreifðust mjög í þessu forráðsveðri. Mörg drógust aftur úr og það sem verst var; nokkur skip urðu hreinlega viðskila við lestina.
Þar kemur okkar skip til sögunnar: Belgíska flutningaskipið Persier, 8200 smálestir, var í skipalestinni. Það var í þjónustu breska hersins í þessari örlagaríku ferð.
Það var á leið frá Baltimore í Bandaríkjunum til Bretlands og var farmurinn 100 bílar og einhver ósköp af hrájárni. Skipverjar voru 44 talsins; tuttugu og sjö Belgar, fimmtán Bretar, Norðmaður og Rússi.
Skipstjórinn, hinn belgíski Jacques Heusers, stóð vaktina þegar veðrið skall á. Atburðarásin mun hafa verið einhvern veginn svona, samkvæmt grein sem birtist í 8.-9. tölublaði Samvinnunnar árið 1952:
„Stóð hann [Heusers] á stjórnpalli, er veðrið skall á, enda þurfti að gæta hinnar mestu varúðar til að rekast ekki á önnur skip í lestinni. Þegar dimma tók, versnaði veðrið enn, og gekk sjór yfir skipið. Brotnaði björgunarbátur og aðrar skemmdir urðu á skipinu. Þegar birti, reyndist Persier hafa misst af skipalestinni, og tók Heusers þann kost að leita hafnar í Reykjavík til að fá þar nýjan björgunarbát og ef til vill komast í skipalest til Englands.“
Hvorki komst Persier til Reykjavíkur né í aðra skipalest. Í afleitu skyggninu gekk Heusers illa að átta sig á landinu.
„Gengu yfir byljir, svo að sandarnir á suðurströndinni urðu alhvítir, og gerði það enn erfiðara að greina ströndina. Þó var versti veðurofsinn liðinn hjá. Ekki vissu skipsmenn nákvæmlega, hvar þeir voru eða hversu nálægt landi þeir væru – fyrr en skipið strandaði.“
„Andspænis þessum ofsa erum við smáir“
Undirrituð rakst á hreint út sagt magnaða grein eftir Heusers sjálfan. Lýsingar hans á sjóferðinni og strandinu eru of rosalegar til að hafa þær ekki með hér. Skal því gripið niður í vel valdar línur úr greininni:
„Loftpípur þeytast út í buskann, segldúkar feykjast burt í henglum, skrúfa aflagast, sjóir á bæði borð […]. Við bölvum þessu Íslandi óspart. Dögum saman hefir skipið þolað þung áföll. Það er lamað. Óveðrið hefir brotið alt, beygt öldustokkinn, molað bátana. Andspænis þessum ofsa erum við smáir. Við stöndum á skjóllausum stjórnpalli skipsins, lamdir, kaldir, barðir í andlitið af haglinu, með sviða í augum og reynum að teygja dauðastríð hins hjálparvana skips.
Ísdrönglar sem rifna af köðlum, fljúga hjá höfðum okkar eins og fallbyssukúlur. Ægilegt hafrót, risavaxnar öldur, hyldýpis öldudalir[…].
Óveðrasamt land með strendur þaktar skipsflökum, viðsjála strauma og kletta, sem rugla áttavita.
Sleppum við lifandi?“
Skilaboð í flösku
Það gerði hann; Jacques Heusers slapp lifandi og allir um borð lifðu. Enginn slasaðist. Persier, hið gríðarmikla skip, strandaði á Dynskógafjöru, skammt austan við mörk Hjörleifshöfðafjöru, nánast í útfalli Blautukvíslar. Fyrir þá sem ekki eru kunnugir þar um slóðir þá er strandstaðurinn við Kötlutanga á Mýrdalssandi. Eða til að einfalda þetta rosalega: Ekki mjög langt frá Vík í Mýrdal!
Varðskipið Ægir var við Vestmannaeyjar að morgni föstudagsins 28. febrúar og hafði það verið við leit. Breska skipið Empire Tiger hafði orðið viðskila við skipalestina, rétt eins og Persier, Richmond Hill og Holmelea. Þýskur kafbátur sökkti Holmelea og björguðust tíu af þeim 38 mönnum sem um borð voru. Áhafnarmeðlimir á Baldri komu þeim til bjargar. Empire Tiger sökk og fórust þeir 34 sem um borð voru en Richmond Hill fékk fylgd varðskips til Reykjavíkur.
En aftur að belgíska flutningaskipinu Persier!
Varðskipinu Ægi barst tilkynning um strand Persier um hádegisbil og greindi Guðmundur Guðjónsson, stýrimaður á Ægi, frá að þeir hafi komið á strandstað undir kvöld. „Það var þegar sýnilegt, að björgun frá sjó var ókleif, því að veður var hið versta og mjög mikill sjór. Ég sendi því strax skeyti til sýslumannsins í Vík og bað um aðstoð til björgunar, en fékk fljótt það svar, að síminn austur væri bilaður, og því ekki hægt að koma boðum þá leið,“ sagði Guðmundur í viðtali sem birtist tæplega hálfu ári síðar í Sjómanninum.
Þetta var sem sagt alveg grábölvað! Guðmundur sendi skeyti til Skipaútgerðarinnar og hélt í þá von að björgun frá landi myndi vera möguleg. „[Við lýstum] strandstaðinn og upp í loftið með ljóskösturum okkar, til að reyna að gefa mönnum í landi merki um að þarna væru menn í lífsháska.“
Rétt fyrir miðnætti voru björgunarmenn komnir á staðinn. Þeir höfðu séð ljósin og þannig fundið strandstaðinn. Flestir björgunarmanna ferðuðust á hestbaki en björgunartæki voru flutt á bílum að Kerlingardalsá og yfir hana á einhvers konar ísspöng.
„Línubyssu var þegar komið fyrir og eftir tvær tilraunir tókst að ná sambandi við skipshöfnina. Boð var sent í flösku eftir línunni og þannig ræddu björgunarmenn við skipstjóra,“ sagði Guðmundur.
Flöskuskeyti hefur öðlast nýja merkingu í mínum huga! Maður bara gapir, glápir á tölvuskjáinn, lítur á farsímann og snjallúrið sitt og hugsar: „Ekki nema það þó! Samskipti með flöskupósti og línu! Þetta er magnað!“
Sameiginleg ákvörðun skipstjóra og björgunarmanna var sú að skipverjum yrði komið í land morguninn eftir og gekk það vel. Var björgunarstóll notaður og mönnunum 44 komið til Víkur þar sem heimafólk tók vel á móti þeim.
Hús reist á sandi og bílar settir saman
Tíu dagar liðu þar til farið var á strandstað í þeim tilgangi að meta hvort og þá hvernig hægt væri að bjarga einhverju. Ef ekki skipinu sjálfu þá einhverjum hluta farmsins. Töldu menn góðar líkur á að bjarga mætti einhverju og þeir bjartsýnustu eygðu möguleika á að bjarga illa förnu skipinu síðar.
„Þar sem talið var ógjörningur að reyna björgun skipsins að svo stöddu, var talað um að bíða þar til búið væri að losa farminn úr skipinu og veður batnaði með vorinu,“ greindi Árni Eyjólfur Valdimarsson (1922-2001) frá en hann var skipherra á Ægi þegar Persier strandaði. Árni hélt dagbók og er umfjöllunin sem vísað er í hér að ofan byggð á dagbókarfærslum hans.
Já, menn áttuðu sig fljótt á að ekki væri vitglóra í að svo mikið sem reyna að losa skipið fyrr en búið væri að tæma hlunkinn.
6000 tonn af járni eru jú 6000 tonn! Og þungt pundið í 100 ökutækjum.
Hvort einhver hefði trúað því þá að þremur mánuðum síðar næðist skipið á flot, er ekki gott að segja. En þannig fór það nú samt og tók það Ægi 36 klukkustundir að draga Persier til Reykjavíkur. Þeir sem vilja lesa meira um sjóferð þá er bent á hlekkinn hér að ofan sem vísar á grein skipherrans Árna.
„Neðst í öllum lestum var hrájárn í stöngum, samtals 6000 smálestir, en efst í lestunum 100 bifreiðar. […] Lá því fyrst fyrir að koma bifreiðunum í land, og var byrjað að lyfta bómum og undirbúa losunina,“ sagði í áðurnefndri grein í Samvinnunni (hlekkur er framarlega í grein þessari).
Guðmundi Guðjónssyni, stýrimanni á Ægi, var falið að skipuleggja verkið og til að gera mjög langa sögu töluvert styttri þá er hér skautað framhjá nokkrum tækniatriðum og eftir stendur þetta:
Notast var við öflugar dælur og sjó dælt úr skipinu, skýli reist fyrir mannskapinn uppi á sandi og við þau grafið um tvo metra niður „og settir „Davíðar“ í holurnar; í þá voru settar keðjur, en ofan á allt settir „plankar“ og síðan meiri festa og loks mokað ofan á. Vírstrengur var nú festur í fram siglu skipsins við reiðann og hinn endi hans síðan í festarnar á landi. Vírinn var svo strengdur með „talíum“, en „blökk“ var látin ganga eftir honum. Þann 15. marz var þessum undirbúningi lokið og var nú byrjað að losa úr skipinu,“ útskýrði Guðmundur fyrir blaðamanni Sjómannsins.
Hafi einhver haldið að um nokkurra daga verk hafi verið að ræða þá skal tekið fram að svo var nú ekki. Nei, einum og hálfum mánuði síðar, þann 23. apríl, var búið að bjarga öllum bílunum úr Persier. Og var mjög sniðugt hvernig það var gert!
Hundrað menn hlýtur að þurfa til að koma hundrað ósamsettum bílum úr strönduðu skipi á Mýrdalssandi, ekki satt? Ja, alla vega voru karlarnir, í mestu umsvifunum, hundrað talsins og komu þeir víða að; úr Mýrdal, Álftaveri, Skaftártungu og Reykjavík.
Gunnar Magnússon frá Reynisdal greindi frá í Lesbók Morgunblaðsins haustið 1961, að mönnunum hafi verið „búið afdrep í landi úr seglum og timbri, sem sótt var um borð í skipið, en þrír menn höfðust við í tjaldi, sá er þetta ritar og með honum þeir Sigurjón á Bólstað og Andrés í Kerlingardal.“ Þannig var aðbúnaðurinn til að byrja með en batnaði er frá leið.
Áfram heldur Gunnar og hér kemur það skemmtilegasta, að mati undirritaðrar!
„Flokkur bifvélavirkja var sendur frá Reykjavík til þess að setja bílana saman, og var Nikulás Steingrímsson (Bíla-Lási) fyrir þeim. Var nú byrjað að bjarga bílunum. Þeir voru allir í kössum og raðað þannig niður, að í einum kassa voru tvær grindur með áföstum hreyflum og „hásingum“, en tvö stýrishús í öðrum kassa. Þetta voru 3 tonna G.M.C.-bílar og 5 og 2 tonna Dodge-bílar. Var nú byrjað að draga dótið í hleypiblökk upp að vírstrengnum og ég látinn fara með í hvert skifti til þess að krækja yfir í „kraftlínuna“. Mun ég hafa farið um 500 slíkar ferðir upp á strenginn og gat hver orðið hin síðasta, ef illa hefði farið. En það gekk allt slysalaust.
Fyrst voru nokkrir bílar settir saman á strandstað, en síðan var reist skýli úr kössunum uppi í Hafursey og þeim sem eftir voru ekið þangað og þar settir saman.“
Þannig að stundum er bara víst í lagi að reisa „hús“ á sandi og „keyra kassabíl“.
Heusers skipstjóri varð uppveðraður þegar hann kom að Hafursey og sá þessi mannvirki og lagði til „við samferðamenn sína, að staðurinn yrði þareftir kallaður „Persier Town“, en ekki er vitað, hvort nafnið hefur haldizt.“
Sandspyrna árið 1941
Hundrað amerískir bílar, settir saman af Íslendingum, og það á Mýrdalssandi að vetri til! Já, þetta er nú alveg ótrúlegt. Ótrúlegt en satt. Maður getur rétt ímyndað sér stemninguna á sandinum! Örugglega gríðarlega erfið vinna að koma bílunum saman en alveg örugglega hrikalega gaman.
Það getur maður skynjað sterklega, til dæmis við lestur greinar Gunnars Magnússonar frá Reynisdal:
„Þarna urðu margir menn bílstjórar án þess að hafa mikið fyrir því að afla sér réttinda, og var Dynskógasandur óspart notaður til æfinga, og þeystu þar fram og aftur þeir sem höfðu gaman af að „taka í stýrið“.
Einn bíll var stöðugt í flutningum milli strandstaðar og byggða, til þess að sækja mjólk og önnur matvæli, og með honum fóru sumir verkamenn heim um helgar.“
Sjáið fyrir ykkur karlana: Blússandi eftir sandinum og svo skutlað heim í helgarfrí á splunkunýjum kagga! Þetta getur ekki hafa verið leiðinlegt!
Horngrýtis járngrýtið!
Þá er tímabært að fjalla um eitthvað leiðinlegt til að jafna þetta út. Nei, afsakið öll. Svona má víst ekki skrifa en sannleikskorn er þó í þessu. Þannig var að þegar bílarnir höfðu verið settir saman og þeir afgreiddir, kom að járninu. Munum að þyngsti hluti farmsins var eftir: 6000 lestir af hrájárni. Hvað varð um það? Þeirri spurningu svaraði stýrimaðurinn af Ægi, Guðmundur Guðjónsson, oft og mörgum sinnum. Meðal annars fyrir rétti:
„Þar sem auðséð var, að það myndi taka fleiri mánuði að losa það [járnið] allt saman á sama hátt og bifreiðarnar, þ.e. bjarga því upp á sandinn, var ákveðið að kasta því fyrir borð.“
Æji, já. Þessi ákvörðun, að henda rúmlega 5000 tonnum af járni í sjóinn, átti heldur betur eftir að draga dilk á eftir sér. Áratug eftir að Persier strandaði hófust flókin og alveg hrútleiðinleg málaferli vegna járnsins. Svo leiðinleg að ég ætla barasta hreint ekki að fjalla nánar um þau en þeir sem vilja meiri leiðindi smelli hér!
Í lokin má geta þess að þegar björgun hins mikla skips, Persier, virtist lokið þann 17. maí 1941 gerðist nokkuð óheppilegt: Skipið var flutt í fjöruna við Klepp þar sem ætlunin var að gera við það. „En þar var því lagt þannig, að það stóð aðeins á fram- og afturenda, en holt var undir miðju skipinu. Fór svo að það þoldi ekki þungann og brotnaði!“
Verðmæti skipsins hrapaði úr 2.577.500 krónum í 115.000 krónur.
Einhvern veginn tókst mönnum að tjasla skipinu saman og var það svo dregið alla leið til Bretlands. Segir alnetið að snemma árs 1943 hafi skipið siglt á nýjan leik en sokkið skömmu síðar undan ströndum Normandí. Um sannleiksgildi þeirrar sögu veit ég ekki. Enda er það önnur saga.
Heusers, blessaður, skipstjórinn knái sem íbúar á Vík báru svo vel söguna (en það má ráða af þeim greinum sem vísað hefur verið í) að manni var farið að þykja virkilega vænt um karlinn… Já, það fór illa fyrir honum. Eftir margra mánaða dvöl á Íslandi gerðist hann skipstjóri á stóru olíuskipi. Skipinu var sökkt í stríðinu úti fyrir ströndum Mið-Afríku og fórst Heusers með skipi sínu.
Þetta var nú sagan af ótrúlegri björgun áhafnar, risaskips og hundrað bíla. Hafið þið, lesendur góðir, eitthvað bitastætt sem við þetta má bæta, þá má senda tölvupóst á netfangið malin@bilablogg.is.
Góðar stundir.
Umræður um þessa grein