Hlemmur in memoriam
Eins og flestum ætti að vera kunnugt um núna hafa borgaryfirvöld í Reykjavík, sem heldur eru á móti bílaumferð, ákveðið að leggja hana alfarið af á því svæði í Reykjavík sem kallast Hlemmur, og þar á í framtíðinni aðeins að vera umferð þeirra sem fara ferða sinna „gangandi og hugsanlega hjólandi“!
En fáir staðir á Reykjavíkursvæðinu geta kallast „hjarta akandi umferðar“ eins og Hlemmur hefur verið um langt árabil.
Þar byggðust upp stór bílaumboð og varahlutaverslanir. Og, ef við förum enn lengra aftur í tímann; þarna var „miðpunktur“ strætó um árabil, leigubílastöð og bensínstöð.
Ef við förum aðeins legra aftur í tímann þá var þetta staðurinn þar sem lagt var upp í langferðir á hestum jafnt austur sem norður um land, og þegar ferðir á hestvögnum komu til sögunnar þá var þetta upphafsstaður allra slíkra ferða, og einnig þegar bílferðir komu til sögunnar.
Rétt í nágrenni við Hlemminn var rekin greiðasala fyrir þessa ferðalanga, í fyrsta húsinu sem var reist við Hlemm árið 1904. Árið 1904 var eitt fyrsta húsið byggt við Hlemm, við mót Hverfisgötu og Laugavegar, Hverfisgata 125.
Í skýrslu sem Reykjavíkurborg lét gera fyrir nokkrum árum um Hlemm segir svo: „Húsbyggjandinn Guðmundur Hávarðsson kallaði húsið Norðurpólinn og rak þar veitingaþjónustu fyrir ferðamenn. Hlemmtorg eða Hlemmur er fleyglaga svæði sem markast af mótum Laugavegar og Hverfisgötu. Við sjálf gatnamótin til móts við Hverfisgötu 125, Norðurpólinn, var byggð steinsteypt vatnsþró árið 1912. Þessi þró var ein af þremur sem bæjarstjórnin lét byggja í kjölfar lagningar vatnsveitunnar árið 1909.“
Norðurpóllinn var einhvers konar áningarstaður fyrir fólk sem var að koma inn til borgarinnar. Þar gat það fengið sér að borða og mun væntanlega geta það aftur þegar húsið rís hér á ný við Hlemm í kjölfar þess að Hlemmur verður gerður „bíllaus“.
Í júní 1910 lauk þýska fyrirtækið Carl Francke í Brimum byggingu gasstöðvarinnar við Hlemm. Fyrsta september sama ár var kveikt á 207 götuljóskerjum og um 200 heimili tengdust gasveitunni. Reykjavík var þá orðin uppljómuð borg og húsmæður losnuðu við óþrifalegar kolaeldavélar.
Starfsemi tengd bílum yfirtekur Hlemm
Þarfasti þjónninn fékk lífsnauðsynlega brynningu í vatnsþrónni á Hlemmi, á sama tíma var arftaki hestsins að taka sér bólfestu við Hlemmtorg sem á skömmum tíma varð miðpunktur bílvæðingar þjóðarinnar með stórfyrirtækin Egil Vilhjálmsson við suðurhlið og Svein Egilsson við vesturhlið Hlemmtorgs.
Árið 1919 kom til bæjarins Vestur-Íslendingur, Reykvíkingur sem hafði flutt til Bandaríkjanna árið 1910. Hann hét fullu nafni Sigursveinn Egilsson og var 29 ára gamall. Sigursveinn gekk undir nafninu Sveinn vestra og ætlaði ekki að dveljast lengi á Íslandi í heimsókn sinni. Hann var útskrifaður vélfræðingur frá Chicago og kom brátt í ljós að mikil eftirspurn var að myndast í bænum eftir tækniþekkingu hans. Bróðir Sveins var Jón Egilsson aðalbókari og gjaldkeri gasstöðvarinnar.
Sveinn fékk tímabundið inni í koksgeymslu gasstöðvarinnar til þess að setja saman nýjan Chevrolet, bíl Þorsteins lyfsala í Reykjavíkurapóteki. Í kjölfarið fylgdu endalaus verkefni. Sveinn afréð að fara ekki aftur utan heldur setjast að í Reykjavík.
Strax um haustið sótti Jón, bróðir Sveins, um lóð fyrir steinsteypt einlyft hús fyrir vinnuvélastofu í Elsumýrarbletti þeim er liggur austast næst hinu fyrirhugaða torgi við Hlemm. Viku seinna fékkst leyfi til byggingar á lóðunum nr. 118 við Hverfisgötu og nr. 99 við Laugaveg sem urðu að lóðinni Hlemmur 4.
?
Frá árinu 1928 var hætt að kalla lóðina Hlemm 4, heldur Laugaveg 105 og Hverfisgötu 116. Árið 1991 var síðan samþykkt að aðalinngangurinn frá Hlemmtorgi inn í húsið yrði merktur sem Hlemmur 1 og inngangur frá Hverfisgötu yrði merktur Hlemmur 3. Inngangurinn frá horni Laugavegs og Hlemms var áfram Laugavegur 105.
Og enn bættist í starfsemi tengdri bílum
Við suðurhlið Hlemmtorgs fór af stað árið 1932 sambærileg starfsemi og við vesturhlið torgsins. Egill Vilhjálmsson hóf byggingu fyrsta hluta byggingarsamstæðu árið 1932 sem að lokum myndaði samfellda heild frá Rauðarárstíg yfir á Snorrabraut. Árið 1953 lauk fyrirtækið byggingu húss á hornlóðinni Snorrabraut/Laugavegur 114. Þorleifur Eyjólfsson húsameistari teiknaði fyrsta áfangann, Rauðarástíg 6-14/ Laugaveg 118b, Aðalsteinn Richter arkitekt teiknaði síðar hækkun og breytingar á þeim hluta. Gunnlaugur Halldórsson arkitekt teiknaði aðra hluta samstæðunnar, það er að segja Laugaveg 114, 116 og 118.
Þannig höfðu þessi tvö bifreiðaumboð um miðja öldina reist tvö af stærstu húsum höfuðborgarinnar gatna á milli við Hlemmtorg. Fyrirtækið Egill Vilhjálmsson sá um árabil um smíði yfirbygginga á strætisvögnum bæjarins auk smíði svokallaðra Egilshúsa sem voru aðallega smíðuð á Willis jeppa. Bílasmiðju Egils Vilhjálmssonar við Hlemmtorg mátti um tíma kalla bílaverksmiðju. Árið 1940 urðu 108 Dodge bílar á leið til Svíþjóðar innlyksa í Englandi. Bifreiðaeinkasala ríkisins flutti bílana til landsins og fól verkstæði Egils Vilhjálmssonar samsetningu bílanna.
Stætó á Hlemmi
Fyrsta ferð hlutafélagsins Strætisvagna Reykjavíkur hf. var farin 31. október árið 1931. Endastöð vagns á leið númer eitt var við vatnsþróna á Hlemmi. Árið 1944 keyptu bæjaryfirvöld hlutafélagið.
Hlemmur varð síðan aðaltengistöð strætisvagna um langt árabil og á endanum var byggt þar stórt „þjónustuhús“ fyrir strætó og farþega vagnanna, sem nýttist vel, en endaði svo sem „mathöll“ en strætófarþegar áttu þar ekki lengur skjól.
Í fyrrgreindi skýrslu Reykjavíkurborgar má lesa þetta: „Á vissan hátt hélt Hlemmur sinni stöðu frekar en Lækjartorg þar sem lykilpunktur almenningssamgangna hafði áður flust frá Lækjartorgi yfir á Hlemmtorg. Í kjölfarið hafði Áningarstaður SVR verið reistur á Hlemmtorgi árið 1977, mannvirki sem tekur yfir stóran hluta torgrýmisins á milli Rauðarárstígs og húss Sveins Egilssonar. Upphaflega tók Hlemmur á móti þeim sem komu af landsbygginni til höfuðborgarinnar. Síðar þegar stór hluti landsbyggðarinnar hafði flutt í úthverfi höfuðborgarinnar þá var það Hlemmur sem bauð íbúa úthverfanna velkomna til bæjarins. Skýlið á Hlemmtorgi hefur öðlast sess í sögu bæjarins og þjóðarvitundinni.“
En nú er senn Snorrabúð stekkur!
Nú er greinilegt að hlutverki Hlemms í þjónustu við bíla og umferð er að ljúka. Borgarstjórinn hefur lýst því fjálglega að núna eigi að snúa á annan og betri veg að mati þeirra sem ráða borginni.
Í viðtali Ríkisútvarpsins við borgarstjóra kemur fram að fyrstu framkvæmdir við nýja Hlemmtorgið eru hafnar en gert er ráð fyrir að Hlemmur verði með öllu bíllaus á næstu þremur árum. Einkabíllinn fær að víkja fyrir almenningssamgöngum, gangandi og hjólandi vegfarendum. Borgarstjóri segir að markmiðið með nýju torgi sé að breyta því í mannlífsmiðpunkt í borginni.
„Um er að ræða fyrstu áfanga framkvæmda við að innleiða nýtt deiliskipulag fyrir Hlemm sem var samþykkt í byrjun árs 2020. Ekki verður opnað fyrir almenna bílaumferð um Rauðarárstíg aftur en þar er meðal annars gert ráð fyrir bekkjum og leiksvæði. Áætluð verklok á þessum fyrsta áfanga eru næsta vor,“ segir á vef RÚV.
Borgarstjóri sagði ennfremur að torgið muni „iða af lífi“ að framkvæmdum loknum. „Þetta er endanleg andlitslyfting á þessu svæði sem byrjaði með endurskipulagningu opnun mathallarinnar. Nú á að fara að taka torgsvæðið í gegn hér í áföngum og auðvitað koma fyrir Borgarlínunni og mörgu skemmtilegu, leiksvæðum í raun fyrir alla aldurshópa og gera þetta að mannlífsmiðju í borginni. Hús verða endurgerð og komið fyrir svæðinu, svið verður sett upp og önnur stórskemmtileg áform.“
Einkabílarnir víkja
„Einkabílarnir víkja. Það gerist í áföngum núna næstu þrjú sumur. Það þarf að vanda þessa áfangaskiptingu vegna þess að það er heilmikil starfsemi hér og mjög mikið í gangi. Þannig við byrjum við Rauðarárstíginn annars vegar og Snorrabrautina hins vegar svo gerist þetta stig af stigi. Það var ekkert vit í því að umbreyta torginu og umbreyta því svo aftur vegna Borgarlínu heldur mun þetta allt haldast í hendur,“ sagði borgarstjóri í viðtalinu.
Tengdar greinar:
Athafnamaðurinn Egill Vilhjálmsson
Þegar umferðarljósin komu til Íslands
Fjallabílstjórinn Páll Arason
Bílakóngurinn Steindór átti flesta bíla í einkaeigu á Íslandi
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein