Árið 1905 var merkileg nýjung kynnt í blaðinu Reykjavík. Það var „reiðhjól með hreyfivél“ eða svokallað bifhjól.
Í júlímánuði það ár voru slík hjól auglýst til sölu. Voru kostir þeirra tíundaðir og þóttu þeir nú ekki lítilfjörlegir!
Bara 19 mínútur milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar
„Hjól þessi þarf ekki að stíga: eru svo fljót í ferðum, að farið hefur verið á þeim á 19 mínútum milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar,“ sagði í auglýsingunni sem Þorkell Þ. Clementz ritaði sumarið 1905, eða fyrir rúmlega 116 árum síðan.
Þetta sagði þó ekki alla söguna, enda fátt annað að miða við á þessum tíma en fákinn fjórfætta. Þess vegna var nauðsynlegt að koma með dæmi til samanburðar:
„Til samanburðar skal þess getið, að bifreið Thomsens (mótorvagninn) fer á c.a. 2 klst. suður að Hraunsholti, ¾ leiðarinnar, og fær hún þó nú eftir vagnstjóraskiftin að njóta afls síns í fullum mæli: sbr. auglýsingu í 34. tbl. „Reykjavíkur“ bls. 134.“
Auglýsingin sem vísað var til er þessi hér:
Eins og segir þarna þá var orðið allt annað að ferðast með vagninum;
„Afl hans kemur nú að fullum notum, en vagnstjórinn, sem var í fyrra, kunni ekki með hann að fara.“
Forsíðumyndin er af einni af fyrstu bifreiðunum í eigu Hafnfirðinga. Var hún af gerðinni Overland. Myndin birtist í jólablaði Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1966 og er myndatextinn eftirfarandi: „Magnús Magnússon í Skuld er við stýrið. Við hlið hans er Böðvar Böðvarsson, bakari. Aftur í eru börn Böðvars, Elísabet kaupkona og Jónas skipstjóri, en í miðið Ingibjörg Ögmundsdóttir, símstjóri. Myndin er tekin í Hafnarfirði.“
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein