Hinn fyrsti ameríski Suðurskautsbíll
Löngu áður en Íslendingar fullkomnuðu útlit jeppa eins og Toyota Landcruiser með því að lyfta þeim upp á 44“ dekk og gefa þeim breiða kanta, reyndi Bandaríkjamaður að nafni Thomas Poulter að smíða hinn fullkomna bíl fyrir Suðurheimskautið. Sá bíll tókst ekki jafn vel og t.d. Toyota Hilux eða Hyundai Santa Fe jepparnir sem Arctic Trucks hafa smíðað undanfarin ár.
Thomas Poulter fæddist 3. mars 1897 og var prófessor í eðlisfræði við Iowa Wesleyan háskólann. Hann hafði farið í leiðangur til Suðurskautsins á árunum 1933 til 1935 og næstum látið lífið í þeim leiðangri. Það var því einlægur ásetningur hans að farið skyldi betur tækjum búinn í næsta leiðangur sem fara átti 1939 til Suðurskautsins.
Thomas Poulter nældi sér því í 150.000 dali og ákvað að smíða færanlega vinnuaðstöðu sem myndi hjálpa vísindamönnunum að ferðast örugglega um Suðurskautið.
8. ágúst 1939 hófst smíði bílsins og stóð hún yfir í ellefu vikur. Mörgæs 1 var nafnið sem farartækið fékk og varð hún 17 metra löng, rúmlega sex metra breið og náði tæplega fimm metra hæð. Hún vigtaði 34 tonn og komst 8.000 kílómetra á tanknum, enda með 9.500 lítra eldsneytistank.
Umhverfissinnar geta samt glaðst yfir því að Mörgæsin var Hybrid. Knúin tveim Cummins 150 hestafla, sex sílindra, ellefu lítra dísilvélum sem snéru tveim rafölum sem sáu síðan fjórum 75 hestafla rafmagnsmóturum í hverju hjóli fyrir orku.
Talið er að þetta hafi verið í fyrsta sinn sem hybrid kerfi sem þetta var notað til að knýja áfram ökutæki í þessum stærðarflokki, en þetta er mjög algengt í dag fyrir stórar vörubifreiðar sem notaðar eru í námum. Þessi upsetning hjálpaði til við að auka rými innan í Mörgæsinni. Hægt var að stýra öllum hjólum, hámarkshraðinn var um 50km/klst og átti að vera hægt að klífa 35% halla.
Um borð í Mörgæsinni var að finna stjórnrými, viðgerðaverkstæði, eldhús (sem var einnig notað sem myrkraherbergi), matargeymslu, eldsneytistank og geymslu fyrir tvö varadekk. Mörgæsin var þannig búin að hægt var að láta hana leggjast alveg niður á ísinn og þannig draga hjólin upp í þartilgerð rými. Þar lék síðan útblástur vélarinnar um dekkin og hélt þeim heitum til að varna því að gúmmíið eyðilagðist í frostinu.
Þetta gerði það líka að verkum að hægt var að fleyta Mörgæsinni yfir sprungur allt að fimm metra breiðar, þó að það fæli í sér flókna verkferla með yfir 20 skrefum.
Ofan á mörgæsinni mátti síðan koma fyrir lítilli fimm sæta Beechcraft flugvél og þannig útvíkka gífurlega svæðið sem hægt væri að rannsaka. Kælivökvi vélarinnar var notaður til að veita hita um allt tækið og vísindamennirnir sögðu að þrátt fyrir gífurlega kulda utandyra var aðeins nauðsynlegt að sofa með teppi um nætur. Rafhlöður voru einnig um borð sem gátu séð ljósum og búnaði fyrir orku ef slökkt var á vélunum.
24. október 1939 lagði bifreiðin svo af stað í 1.640 km ferðalag frá Chicago til Boston þar sem skip beið eftir að taka hana til Suðurskautsins.
Á leiðinni fór eitthvað úrskeiðis með stýribúnaðinn og endaði Mörgæsin út í á. Leiðangursmenn létu það ekkert á sig fá og héldu ótrauðir áfram. Snemma í janúar 1940 kom leiðangurinn í land í Litlu Ameríku við Hvalaflóa á Suðurskautinu. Hafist var handa við að byggja bryggju eða einskonar timburbrú fyrir Mörgæsina. Hún hinsvegar braut hana en komst þó í land við mikinn fögnuð leiðangursmanna. Sá fögnuður varði hinsvegar ekki lengi þegar í ljós kom að Mörgæsin dreif hvorki lönd né strönd í snjó.
Hún var of þung og með of lítið afl í hverju hjóli. Dekkin stóru voru mjúk og algerlega án nokkurs munsturs, enda höfðu þau verið hönnuð fyrir stór farartæki ætluð til að aka um mýrar.
Ýmsar aðferðir voru reyndar við að koma bílnum áfram, þar á meðal að setja varadekkin utaná framdekkin og útbúa keðjur um þau aftari. Þetta hjálpaði lítið en fljótt komust leiðangursmenn að því að afturábak gekk mun betur að komast yfir vegleysurnar. Það lengsta sem Mörgæsin komst með þessu móti voru 148 kílómetrar. Í ljós kom seinna að Mörgæsin hafði aldrei verið prófuð í snjó, aðeins í sandöldum Indíanaríkis.
Það var því deginum ljósara að bifreiðin gæti aldrei komið vísindamönnunum af ísbreiðunni þar sem þeir komu í land, hvað þá alla leið á Suðurpólinn. Þeir reyndu þó eftir fremsta megni að nota tækið og bökkuðu því vítt og breitt um ísbreiðuna. Einu farartækin sem voru í boði fyrir utan hina bakkandi Mörgæs voru jú hundasleðar og flugvélin góða sem mörgæsin bar á bakinu. Flugvélin varð hins vegar fyrir því óláni að mótorinn gaf sig og þurfti hún að fara aftur til Bandaríkjanna til viðgerðar.
Snemma árs 1941 var ákveðið að bifreiðin skyldi vera kyrr þar sem hún væri og var henni breytt í fasta rannsóknastöð, þvert á upphaflegan tilgang.
Þegar seinni heimsstyrjöldin braust svo út voru vísindamennirnir kallaðir heim og yfirgáfu þeir Mörgæsina þar sem hún lá föst í sínum sporum. Þeir skildu eftir háar stangir úr bambus til að merkja hvar bifreiðin væri. Bifreiðin fannst svo aftur árið 1946 þegar bandaríski sjóherinn snéri aftur til Suðurskautsins.
Þeir settu bifreiðina í gang og stóð í skýrslum frá þeim að aðeins hafði þurft að setja loft í dekkin og smá fikt við vélarnar til að hún færi í gang (Cummins vélar greinilega).
Það var svo ekki fyrr en árið 1958 að næsti leiðangur alþjóðlegra vísindamanna fann Mörgæsina þar sem hún lá undir þykkri snjóbreiðu og aðeins stangirnar stóru náðu uppúr. Eftir að hafa grafið niður að bílnum sáu leiðangursmenn hana í algjörlega sama ástandi og hún hafði verið skilin eftir, sígarettustubbar og allt. Bifreiðin hafði haldist vatnsþétt allan þennan tíma. Eftir að hafa skoðað sig um og ákveðið að öruggt væri að Mörgæsin væri ekkert á förum, yfirgáfu þeir hana og er það í síðasta sinn sem hún sást.
Það þykir líklegt að Mörgæsin sé ennþá einhvers staðar falin undir ísnum, eða komin á hafsbotn þar sem ísinn skríður stanslaust fram í sjó.
Ef þú ert því í hugleiðingum um að næla þér í 17 metra bifreið á 120“ dekkjum þá er ein til. Þú verður bara að finna hana og koma henni heilli heim. Nú eða þú getur bara fengið þér Hilux á 44“ dekkjum breyttum af Arctic Trucks, hann kemst eflaust meira en 148km á snjó.
Byggt á grein frá TheDrive og rannsóknum blaðamanns.
Umræður um þessa grein