Þeir sem eldri eru en tvævetur muna án efa eftir lögregluforingjanum geðþekka: Hinum þýska Stephan Derrick. Derrick og félagi hans, Harry Klein, áttu athyglina óskipta í stofum landsmanna vikulega, klukkutíma í senn árum saman. Ríkissjónvarpið sýndi þættina á þriðjudagskvöldum (í minningunni alla vega) og nutu þeir mikilla vinsælda hér á landi og víðar, til dæmis í Kína og Ástralíu! Þættirnir um Derrick voru sýndir í yfir 100 löndum og segir það nú sína sögu.
Þessir þýsku þættir voru framleiddir frá árinu 1974 til 1998 og samtals urðu þeir 281 talsins og má til gamans geta að sé horft á þá alla í beit tekur það ekki nema tæpar tvær vikur. Tólf sólarhringa samfleytt!
Þáttaraðirnar urðu 25 og var sögusviðið yfirleitt í eða í námunda við München í Þýskalandi. Þeir Horst Tappert og Fritz Wepper léku Derrick og Klein, sem voru ljómandi huggulegir náungar og komu alla jafna vel fyrir. Einkalíf virtist hvorugur eiga, enda var vinnan líf þeirra og yndi.
Sjálf var ég óttalegt peð þegar ég fór að laumast fram til að kanna hvað foreldrar mínir væru að horfa á í imbakassanum. Ekki var nú allt í Derrick-þáttunum við hæfi barna en man ég þó að mér fannst æðislega gaman að sjá karlana sem hlupu stöðugt inn og út úr bílum og óku oft gasalega hratt. Svo voru svo margir fínir bílar í þáttunum sem maður hafði aldrei séð hér á landi! Ætli greinarhöfundur hafi ekki verið um fjögurra ára þegar „Nasabíllinn“ kom til sögunnar. Grillið á BMW fyrir langalöngu minnti barnið á tvær nasir og því augljóst að hér var um „Nasabíl“ að ræða og voru margir slíkir í þáttunum um hann Derrick.
Gaman er að geta þess að barnið, sem nú er stórt barn, flutti „Nasabíl“ inn frá söguslóðum Derricks fyrir sextán árum síðan og á þann bíl enn. Nóg um það og áfram með smjörið!
BMW, Rolex og gátan er ráðin!
Derrick bar alla jafna úr af gerðinni Rolex: Annars vegar Rolex Day Date gullúr og hins vegar Rolex GMT-Master. Hvort tveggja hinir virðulegustu gripir og ekki við öðru að búast af þýskri rannsóknarlöggu en að hún viti upp á hár hvað tímanum líður. Annað væri bara kjánalegt. Raunar var það nú svo að Horst Tappert gekk með Rolex dagsdaglega og þegar hann „var“ Derrick fylgdi úrið einfaldlega með.
Nú, það er ekki nóg að vita hvað tímanum líður heldur þarf líka að hafa áreiðanlegt ökutæki tiltækt. BMW 5-serían var áberandi í fyrstu þáttaröðunum, þ.e. sem farartæki þeirra Derricks og Kleins. Síðar var það sjöan og í þessu myndbandi má til dæmis sjá ljómandi fallegan E38 og undir hljómar titillagið góða:
Ýmsar gerðir BMW voru notaðar í þáttunum á þessu tuttugu og fjögurra ára tímabili sem þeir ná yfir og auðvitað voru tegundirnar mun fleiri en BMW og verður farið nánar yfir það seinna í þessari grein. En stöldrum nú aðeins við BMW.
Það er engin tilviljun að BMW var áberandi í þáttunum því bílaframleiðandinn gerði samkomulag við framleiðendurna á sínum tíma. Það kom meðal annars fram í stórskemmtilegu viðtali sem Arthúr Björgvin Bollason tók við Tappert og aðra sem komu að gerð þáttanna.
Díllinn og bíllinn
Þeir voru nokkrir, íslensku blaðamennirnir, sem ræddu við leikarann Horst Tappert þegar hann var sem vinsælastur meðal íslenskra sjónvarpsáhorfenda. Arthúr Björgvin hitti hann nokkrum sinnum og í nóvember 1987 fékk hann að fylgjast með upptökum á Derrick í heilan dag. Úr því varð löng og góð grein sem birtist í Þjóðlífi þann 1. desember sama ár og bar hún yfirskriftina Dagur í lífi Derricks.
Segir þar meðal annars, svo ég leyfi mér að vitna beint í greinina: „Þegar við höfðum stjáklað í kringum villuna um stund, rennur svartur BMW uppað útidyrunum. Sjálfur Derrick lögregluforingi smeygir sér fimlega út úr bílnum. Hann gengur brosandi til mín og réttir mér höndina,“ segir Arthúr frá en þarna voru þeir staddir á tökustað, við gríðarstórt einbýlishús við Starnbergvatn í Bæjaralandi, um 70 kílómetra frá München.
Arthúr var mjög sniðugur og notaði tækifærið þegar verið var að púðra Derrick og gaf sig á tal við bílstjóra BMW-sins sem minnst var á hér að ofan.
„Það kemur í ljós að bíllinn er í eigu BMW-verksmiðjanna í München. Bílstjórinn fræðir mig á því, að verksmiðjurnar láti Horst Tappert bifreið og einkabílstjóra í té meðan á tökum þáttanna stendur. Í staðinn er merki fyrirtækisins látið koma fyrir í þáttunum, svo „lítið“ beri á,“ skrifaði Arthúr Björgvin Bollason og greindi jafnframt frá því að það væri mjög algengt að fyrirtæki styrktu vinsæla sjónvarpsþætti með þessu móti.
Fleiri glæsivagnar á tökustað
Það er eiginlega ekki hægt að láta þar við sitja hvað greinina snertir því blaðamaður sá svo marga flotta bíla þennan nóvemberdag í München á því herrans ári 1987. Gríp ég því aftur niður í Þjóðlíf:
„En það eru fleiri glæsivagnar fyrir framan villuna við Starnbergvatnið þennan dag. Á hlaðinu stendur einnig gljáfægður Bentley. Eftir dálitla stund er Bentleynum ekið burt og rennilegum Porsché komið fyrir við útidyrnar í hans stað. Mér leikur forvitni á að vita, hvaða hlutverki þessir glæsivagnar gegna,“ segir þar.
Já, þetta hefur verið dýrðlegur dagur hjá blaðamanni og hann spurði réttu spurninganna. Það gera góðir blaðamenn. Til að fá svör hafði hann uppi á manni sem var á vappi í garðinum við villuna.
„[Hann] upplýsir mig um það, að auk þessara tveggja hafi fjölskyldan í húsinu tvo fararskjóta til umráða, Benz og Ferrari. Húsráðandinn á staðnum reynist þó ekki vera bílasali, eins og ætla mætti, heldur efnaður verksmiðjueigandi,“ skrifar Arthúr.
Þetta svarar reyndar ýmsum spurningum því hér er um að ræða raunverulegt heimili efnafólks og þannig gekk þetta sjálfsagt oft fyrir sig í þáttunum; Fólkið lánaði húsin sín, með listaverkum og öllu sem því fylgdi, og sjónvarpsliðið fékk að athafna sig þar og setti væntanlega hið daglega líf úr skorðum um stund. Hver einn og einasti Derrick-þáttur var tekinn upp á 15 dögum en væntanlega var reynt að þjappa tökum innanhúss vel saman til að valda sem minnstu ónæði. Þegar blaðamaður spjallaði við heimasætuna „á bænum“ eins og hann orðar það kom eftirfarandi fram:
„Þegar við förum að spjalla saman kemur í ljós, að faðir hennar hafi verið tregur til að lána sjónvarpsliðinu húsið sitt. Dótturinni tókst hins vegar að telja honum hughvarf, enda hefur hún í hyggju að leggja fyrir sig leiklist og var því að sjálfsögðu spennt að sjá, hvernig slíkir þættir yrðu til.“
Reyndar þurfti að taka sum atriðin upp margsinnis og því farnar að renna á heimasætuna tvær grímur og leiklistardraumurinn ekki sveipaður sama ljóma eftir þennan tökudag.
„Hver veit,“ skrifar Arthúr, „nema þessi kynni af allri þeirri nákvæmnisvinnu, sem fylgir slíkri þáttagerð, leiði til þess að heimasætan í villunni við Starnbergvatn gefi alla leiklistardrauma upp á bátinn.“ Greinina í heild má lesa hér.
Harry á hlaupum
Oftast ók Derrick bíl þeirra félaga en Harry Klein var líka liðtækur bílstjóri og virtist ekki neitt stórbrotið skipulag á því hvor ók í hvert skiptið. Enda voru mennirnir eiginlega alltaf að flýta sér og enginn tími til að karpa um hvor mætti „stýra“. Þó er afskaplega fræg setning nokkur sem fyrirsögn þessarar greinar er vísun í og mætti þýða um það bil svona:
„Harry! Hafðu bílinn kláran“ eða „Harry! Sæktu bílinn“.
Þetta er setning sem margir tengja við Derrick. Derrick að skipa hinum húsbóndaholla aðstoðarmanni, Harry Klein, fyrir verkum. Maður sér Harry fyrir sér, lafmóðan, með bringuhárin ólgandi, skyrtuna gapandi og rauðbrúnan flauelsjakkann flaksandi þar sem hann hleypur eftir skuggalegri þröngri götu til að sækja bílinn. Maður nánast heyrir hvína í börðunum sem spæna upp malbikið og á næsta götuhorni stendur okkar maður í klæðskerasaumuðum jakkafötum og ljósum frakka, með rjúkandi Walter PPK 7.65 á lofti, hárið óaðfinnanlega greitt aftur og þrjátíu ára bauga undir augum. Rosabauga.
Það kemur því á óvart að víða á alnetinu er fullyrt að setningin „Harry! Wir brauchen den Wagen sofort!“ eða „Harry, sæktu bílinn“ hafi aldrei verið sögð í Derrick-þætti. Auðvitað getur þetta verið misskilningur af minni hálfu.
Ekki í einum einasta þætti af þessum 281 sem framleiddir voru, segir meðal annars á hinni óáreiðanlegu Wikipediu en þessi myndstubbur hér er úr þætti númer 91, Eine Falle für Derrick, frá árinu 1982 heyrist Derrick nú samt segja þetta:
Mörg hundruð ökutæki
Til er æðislegur upplýsingagrunnur sem nefnist IMCDB. Stendur það fyrir Internet Movie Cars Database og þar má finna ótal mergjaðar staðreyndir. Á þeirri góðu síðu, imcdb.org slær meður einfaldlega inn Derrick og upp koma þeir bílar sem notaðir voru í þáttunum. Tæplega 300 þættir sinnum voða margir bílar gefa okkur útkomuna: ofboðslega margir bílar sem tekur langan tíma að telja.
Með öðrum orðum þá taldi ég ekki.
Til að gera langa sögu (hátt í 300 klukkustundir af sjónvarpsefni) stutta þá voru þeir Derrick og Klein á BMW 520 [E12] ´73 í um þrjátíu þáttum. Þá var BMW 525 árg. ´74 til ´80 aðalbíllinn. 1980 kom 728i [E23] til skjalanna.
1982 árgerðin af 520i [E28] var með í nokkrum þáttum sem bíll Harrys Kleins en Derrick sást lítið í þeim þáttum því hann var víst á sjúkrahúsi. Þá var Klein sá sem hélt uppi stuðinu sem og lögum og reglum.
Fimmurnar urðu ekki fleiri því sjöurnar tóku við og voru þær nokkrar notaðar næsta áratuginn, eða bara þar til ballið var búið og þættirnir urðu ekki fleiri. Þetta voru E23, E32 og E38 og allir voðalega fallegir.
Af BMW sem ekki voru beinlínis í „aðalhlutverki“ má nefna allt frá 1952 árgerðinni af 501, hinum bráðskemmtilega bíl sem Isetta var (´57), og ´69 2800 CS [E9] til ´76 árgerðar af 633 CSi [E24] og hins ægifagra E34 frá því herrans ári 1993. Já, ég varð að hafa þann síðastnefnda með því hann er eins og minn! Það væri stílbrot að hafa hann ekki með.
Audi 100 ´85 var töluvert á ferðinni en þeir Derrick og Klein notuðu hann um það bil frá þætti 128 til 165. Þó ekki í hverjum þætti.
Fleiri Audi sjást innan um aðra bíla og einhverjir skúrkar notuðu ´87 Audi 80 quattro til miður fallegra verka í einum þætti.
Alfa Romeo, Mercedes Benz, traktorar, mótorhjól, vespur, Fiat, allar mögulegar útgáfur af Citroen, Opel, Renault og Porsche og nánast allt sem mögulega er á hjólum og gengur fyrir vélarafli mátti sjá í þessum gríðarlega fjölda þátta.
Það væri óðs manns æði að ætla að telja allar tegundirnar upp hér og því mæli ég eindregið með því að áhugasamir skoði listann yfir bílana hér og leyfi ég mér að fullyrða að það er ekki leiðinlegt að gleyma sér í því grúski!
[Greinin birtist fyrst í apríl 2021]
Fleira bíótengt efni eftir greinarhöfund:
Bílarnir í myndinni The Birds eftir Hitchcock
Besta bílaatriði íslenskrar kvikmyndasögu?
Svona eru áhættuökumenn þjálfaðir
??Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein