Frétt dagsins fyrir 25 árum
Af því tilefni að núna styttist óðum að þeim tímapunkti að það eru að verða komin 50 ár frá því að sá sem þetta skrifar byrjaði fyrst að skrifa um bíla, þá leitar hugurinn stundum að því hvað ég var að skrifa fyrir tilteknum árafjölda og hvað hefði verið merkilegt á þeim tíma.
Af þessu tilefni ætlum við öðru hvoru að hoppa til baka í tíma hér á vefnum og birta eina frétt sem skrifuð þá og þótti merkileg.
Í dag förum við 25 ár aftur í tímann og duttum þá niður á frétt um nýjung sem þá var að koma fram í dagsljósið, sem var leiðsögubúnaður í bílum, en í dag þykir þetta sjálfsagður búnaður, jafnt á skjánum í bílnum eða í farsímanum, líkt og sést hér á myndinni efst í þessari grein.
Leiðsögukerfi orðin algeng í bílum í Japan: „Beygja til hægri eftir 200 metra”
Tækniþróun í bílaiðnaði hefur verið hröð á síðustu árum og austur í Japan hefur nýrri tækni fleygt hraðar fram en í öðrum heimshlutum, en það er fullkomin leiðsögutækni fyrir bíla.
Þetta mátti einnig glöggt sjá á bílasýningunni i Tokyo á dögunum en þar var fjöldi sýningarbása þar sem fyrirtæki sýndu leiðsögubúnað í bíla, stafræn kort og upplýsingabanka.
Það fyrirtæki sem komið er hvað lengst i þróun stafræns staðsetningarbúnaðar fyrir bíla er Zenrin í Japan sem hefur meðal annars þróað mjög fullkomið staðsetningar- og kortakerfi í samvinnu við Toyota, en kerfið var tekið í notkun í Japan fyrr á þessu ári.
GPS-tækni
í raun og veru var það GPS-tæknin, sem er vel þekkt hér á landi, sem lagði grunninn að nýju staðsetningartækninni fyrir bíla.
Kerfin notfæra sér boðin frá gervihnöttunum til að staðsetja bílinn nákvæmlega og færa þessar upplýsingar inn á kort og yfir í hljóðrænt kerfi sem „talar“ við ökumanninn. Þessi kerfi eru óðum að ná fótfestu í Japan og þeir voru auðþekktir á götunum í Tokyo, bilarnir með þessa nýju staðsetningartækni, því þeir voru festir með tvöföld aukaloftnet til að ná GPS-sendingunum vel inn á milli skýjakljúfanna í Tokyo.
Kerfið frá Zenrin býður upp á fjölda lausna og upplýsinga. Ökumaðurinn getur kallað fram texta, kort og jafnvel myndir auk þess sem hann fær töluð skilaboð.
„Beygja til hægri eftir 200 metra“ gætu verið dæmigerð skilaboð sem ökumaðurinn myndi fá í tæka tíð áður en komið væri að því að beygja og síðan ítrekun rétt áður en hann þarf að breyta um stefnu.
Svipuð kerfi eru þegar komin í notkun I Evrópu og umsjónarmaður DV-bíla reyndi slíkt kerfi í nýjum Passat í reynsluakstri fyrir um ári i Þýskalandi og hafði bæði gagn og gaman af, en það kerfi byggist ekki á kortum en töluðum og skrifuðum skilaboðum á skjá auk þess sem ökustefnan var sýnd með örvum.
Zenrin hóf starfsemi á árinu 1986 og var meðal stofnenda þróunarstofnunar leiðsögukerfa í Japan.
Zenrin hefur þróað sitt kerfi þannig að hægt er að nota kerfið, sem þeir nefna NaviSoft, í öllum þeim leiðsögukerfum sem nota geisladiska og tölvubúnað sem þróaður hefur verið í samræmi við staðal þróunarstofnunar leiðsögukerfa í Japan.
Zenrin hefur komið sér upp mjög öflugum banka korta og upplýsinga og eru kerfi þeirra í miklum mæli notuð í neyðarþjónustubílum sjúkraliðs og slökkviliðs í Japan til að tryggja að ökutæki þeirra komist á sem fljótastan hátt á leiðarenda.
Svo mörg voru þau orð, fyrir 25 árum!
Þessi tækni þróaðist hratt
Það má geta þess að þótt þetta hafi verið „ný tækni“ árið 1997 þá þróaðist hún mjög hratt, og aðeins stuttu seinna var ég kominn í reynsluakstur á nýjum Opel Astra í Þýskalandi, sem var þá strax kominn með svona leiðsögutæki í mælaborðið og ljúf kvenmannsrödd sagði mér að beygja til hægri eða vinstri og vara mig við því sem væri fram undan.
Tregðuleiðsögukerfi eru byggð á frekar einfaldri meginreglu: ef þú veist hvar þú byrjaðir, veistu hversu langt þú fórst og ef þú veist í hvaða átt þú fórst, þá ætti ekki að vera erfitt að vita hvar þú ert.
Notaðu það hugtak stöðugt og þú hefur virkni grunnleiðsögukerfis.
Árið 1987 komu fram nýjungar í bílaheiminum sem voru ekki svo mjög þekktar utan Japan, en voru mikilvægar framfarir í leiðsögutækni. Toyota Crown Royal Saloon G, sem eingöngu var þá á Japansmarkaði, var sá fyrsti með kort á geisladiski og var fyrsti bíllinn með litaskjá.
Ekki gleyma Garmin
Áður en leiðsögukerfin voru orðin algeng í bílum hér hjá okkur var Garmin búið að leysa þetta snilldarlega með sínum handhægu leiðsögutækjum sem margir smelltu í framrúðuna og létu tækið síðan vísa sér leiðina
Og eins og sagði í upphafi greinarinnar er þetta sjálfsagður búnaður í dag, hvert sem eru sjálfstæð leiðsögutæki eins og frá Garmin, eða á skjánum í mælaborðinu á bílnum.
Umræður um þessa grein