Eltu dularfullan bíl í Southampton
Það kemur fyrir að á ferðinni séu brellnir bílar eða brellnir bílstjórar sem lögregla þarf að hafa afskipti af. Það gerðist einn daginn í Southampton á Englandi árið 1964. Þar var nefnilega á ferðinni sportbíll sem var í meira lagi undarlegur.
Frá þessu var greint í Alþýðublaðinu á milli jóla og nýárs 1964. Sagði svo frá:
„Lækninum, sem sat á barnum á hótelinu, þótti allt málið mjög grunsamlegt og augljóst, að lögreglan þyrfti að fá um það að vita. Þarna sat ungur maður við hliðina á Ijóshærðri stúlku og var að segja henni frá sportbílnum sínum… bíl sem hægt var að skipta um númer á með einu handtaki og gat gefið frá sér reykský með því að þrýsta á hnapp.
Læknirinn hlustaði á þessar viðræður á hóteli í Southampton nokkur augnablik, en rauk síðan í símann og tilkynnti lögreglunni, hvað hann hefði heyrt. Lögreglan rauk upp til handa og fóta. Talstöðvarbílar voru kallaðir upp og gefin lýsing á bílnum, silfurgrár sportbíll, sennilega á leið til Nýja skógar [New Forest].
Mikið rétt, bíllinn hafði verið á þessari leið. Tveir lögreglumenn fundu hann á bílaplani við veitingahús nokkurt, og við stýrið var Mike Ashley, 25 ára gamall, og vinkona hans, Elizabeth Becherzewske, 25 ára gamall danskennari, sat við hliðina á honum. Hreyfanleg númer? Reykský? Jú, þetta var hvort tveggja á bílnum. Plús tvær vélbyssur, sem komu út úr stöðuljósunum, sími og radarskermur.
En, flýtti Ashley sér að útskýra, þetta var allt löglegt; þessi silfurgrái, 15.000 punda sportbíll hans var sá, sem notaður var í James Bond kvikmyndinni „Goldfinger“ og það átti að fara að setja hann um borð í skip í Southampton og flytja hann til Ameríku til að nota hann þar í auglýsingaskyni fyrir myndina. Ashley starfar hjá Aston Martin bílasmiðjunum, sem smíðuðu þennan gagnmerka bíl.“
Umræður um þessa grein