Ekki alltaf auðvelt að vera sonur bílabraskarans
„Fyrir bílana var oft greitt með ýmsu öðru en reiðufé: Fiðurfé, kirkjuorgel og flugvél af gerðinni Cessna eru á meðal þess sem pabbi tók fúslega við sem greiðslu,“ segir maður að nafni Terry Friesen sem rifjar upp æskuna. Pabbi hans var bílabraskari af „guðs náð“ og gat heimilislífið verið æði skrautlegt.
Terry sagði sögu sína fyrir nokkrum mánuðum og hér er dálitlu snarað yfir á íslensku en krækjur eru fyrir neðan greinina.
Byrjum á sögu frá því Terry var 16 ára gamall og nýbyrjaður í menntaskóla í Bresku Kólumbíu í suðvesturhluta Kanada. Þá sagði bílabraskarinn faðir hans honum að Terry ætti að fara út á flugvöll og finna flug til Toronto. Þar beið hans nefnilega bíll og flutningabíll sem faðir hans hafði keypt og þeim þurfti að koma til Bresku Kólumbíu.
Þetta er nú svo gott sem, nei, þetta ER þvert yfir Kanada, eins og sjá má á myndinni fyrir neðan.
Vegalengdin er rétt innan við 4.500 kílómetrar eftir vegum nútímans en hvernig þetta var á þeim tíma sem um ræðir er ekki gott að segja.
Gefum braskarasyninum orðið:
„Ég fékk 200 dollara og kreditkort. Þessu fylgdi hraðkúrs í því hvernig á að aka flutningabíl með fimm gíra skiptingu og tveggja þrepa millikassa og svo bara bless,“ segir Terry um fyrsta ferðalagið þvert yfir Kanada. Aftur í flutningabílnum var Oldsmobile Vista Cruiser stationbíll og drengurinn ók herlegheitunum alla þessa leið.
Skammir fyrir að læra ekki heima
Einn daginn var hann skammaður fyrir að hafa ekki lært heima. Terry var þá 17 ára gamall og jú, í menntaskóla. Þegar Terry útskýrði af hverju hann hafði ekki lokið heimanáminu trúði kennarinn ekki orði af því sem hann sagði.
Daginn áður hafði hann sem sagt, eftir skóla, ekið F100 pallbíl frá bílasölu föðurins í Abbotsford og skilað bílnum af sér í Kamloops (tæplega 300 kílómetra vegalengd). Frá Kamloops fór Terry á öðrum pallbíl til Penticton (250 kílómetra leið) og þar skipti hann aftur um bíl.
Þar beið hans nefnilega þessi líka snotri Ford Galaxie sem hann ók svo til Abbotsford á bílasöluna. Terry var kominn heim í morgunsárið.
Pabbi, bílabraskarinn mikli
Bílasöluna hafði faðirinn, Henry Friesen, keypt árið 1959. Sem fyrr segir var hann bílabraskari af lífi og sál. Á heimilinu voru fimm drengir og allir unnu þeir á bílasölu Henry Friesen.
Einhverju sinni keypti bílaleiga í Terrace (750 kílómetrum frá Abbotsford) 30 nýja bíla og einhverjir strákanna þurftu að koma bílunum norður eftir. Svona var þetta: Aldrei lognmolla!
Og að sjálfsögðu voru alltaf einhverjir spennandi bílar til að aka. Fjórtán ára gamall ók Terry Calypso Coral 1970 Mustang Boss 429 og Dennis bróðir hans ók 1970 árgerðinni af Mercury Montego 428 í kappaksti yfir Sumas Prairie.
„Á verkstæði bílasölunnar fengum við bræðurnir líka að vinna í okkar eigin bílum, eins og 1965 Mustang með Windsor vél, Mustang Boss 351, 1956 Ford F100 pallbíl, Lotus Cortina og Mustang Mach 1,“ rifjar Terry upp.
Var alltaf að selja
Þeir lærðu margt, synirnir fimm, af föðurnum. Allir lærðu þeir að aka með því að æfa sig á stóru auðu bílaplani hinum megin við bílasöluna og fengu til þess notaða bíla hjá pabba gamla. Jú, og þeir lærðu líka að selja bíla!
„Pabbi var alltaf að selja eitthvað,“ segir Terry en hann býr sjálfur í Abbotsford í dag og á stórgott safn af hinum ýmsu fornbílum; pallbílasafn og fólksbíla.
Einhverju sinni, árið 1974, var faðir hans á leiðinni frá Ontario á 1972 árgerðinni af Mercury Marquis þegar hann kom auga á bilaðan 1966 Mercury skammt frá Brooks í Alberta.
„Hann stoppaði til að hjálpa bílstjóranum og þar sem hann var að skutla bíllausum manninum var pabbi skyndilega búinn að selja honum ´72 árgerðina af Mercury og hafði tekið bilaða bílinn upp í söluna. Ég þurfti að fljúga til Calgary, þaðan ók ég Bronco sem pabbi hafði keypt í Saskatoon til þess að hægt væri að draga bilaða Mercury-inn með dráttarbeisli til baka,“ segir Terry.
Öðru sinni fór Henry, faðir Terry, út til að rabba við mann sem var að húkka sér far skammt frá bílasölunni. „Pabbi skipti við manninn á gítar sem sá síðarnefndi hafði meðferðis og ódýrum Zephyr Zodiac sem hann átti einhvers staðar á planinu aftan við bílasöluna. Pabbi var til í að taka eitt og annað upp í bílaviðskiptin,“ segir sonur bílabraskarans.
Fengu ekkert upp í hendurnar
Áður en Henry Friesen keypti bílasöluna í Abbotsford árið 1959 hafði hann rekið aðra bílasölu sem seldi eingöngu notaða bíla. Þá keypti hann mótel (vegahótel) í Penticton en skipti svo á því og bílasölunni í Abbotsford og hana rak Henry til ársins 1985.
Terry vann fyrir föður sinn í sex ár eftir að hann lauk námi og það sama gerðu bræður hans fjórir.
„Við fengum alveg að aka sumum af nýju bílunum en ef við vildum eignast bíl þurftum við að vinna okkur inn fyrir honum,“ segir þessi ágæti maður og bætir við að fyrsti bíllinn hans hafi verið fremur óálitlegur og haugryðgaður Ford 300 sedan frá árinu 1958 og kostaði sá 53 dollara og 50 sent.
Hér lýkur samantekt minni af æskuminningum Terry Friesen, bílabraskara og syni bílabraskara en áhugasamir geta skoðað ljósmyndir sem tengjast greininni og lesið viðtöl við Terry bæði hér og hér.
Sögur af öðrum bílabröskurum:
Á líkbíl í skólann og buggy-bíl heim
Algjör skúrkur: Sagan af Darren og Dave
Fann gommu af seðlum þegar hann lagaði bílinn
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein