Ef Picasso hefði hannað Citroën

Pablo Picasso kom hvergi nálægt hönnun Citroën Picasso. Hins vegar er til Citroën 2CV sem er nokkuð í anda listmálarans en sá er breytti þessum 2CV sótti innblástur í tvö fræg verk Picassos. Geta lesendur giskað á hvaða verk það eru?

Annað verkið nefnist Þrír tónlistarmenn (hér fyrir ofan) og þykir býsna gott dæmi um kúbisma eins og lesa má um hér. Hitt verkið er Dora Maar au Chat.


Áður en lengra er haldið er rétt að vísa í eldri grein þar sem fjallað var um Citroën Picasso og tenginguna (sambandsleysið) við listamanninn:
Ósætti innan Picasso-fjölskyldunnar
„Árið 1999 kom á markað Citroën Xsara Picasso. Sonur listamannsins mikla, Pablo Picasso, hafði gert samkomulag við bílaframleiðandann en það breytti því ekki að aðrir í fjölskyldunni voru lítt kátir. Í það minnsta var Marina Picasso alveg foxill út af þessu uppátæki frænda síns að bendla nafn og list afa hennar við bíltegund.“

Þetta kann að koma mörgum „spánskt fyrir sjónir“ og er það fullkomlega eðlilegt þar sem Picasso (1881-1973) var Spánverji. En svo kemur hinn enski Andy Saunders til sögunnar og „bjó til“ þennan stórskemmtilega bíl: Citroën Picassos eða Picasso´s Citroën.


Það er kannski óþarfi að hafa mörg orð um listfræðilegan undirtón, vangaveltur, skörun og skilin á milli kúbisma og bílahönnunar. Enda hef ég ekki hundsvit á listfræði og veit hreint ekki hvað þetta á að fyrirstilla.


Hvað sem skilningi og misskilningi líður þá er í lagi að velta fyrir sér hvernig bíll úr smiðju Picassos hefði litið út. Kannski eitthvað í líkingu við þennan?






Þessu tengt:
„Kjarval var svolítið skrýtinn“
Sum nöfn eru verri en önnur
Ekið á gargönum eftir ropvatni – Laxness og bílar
Ringo Starr og Dean Martin áttu franskan Facel
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein