Árið 1900 var greint frá tæki nokkru í blaðinu Ísafold. Tækið, bifreið, var eitthvað sem þurfti að gefa nafn til að hægt væri að fjalla um það og skrifaði greinarhöfundur:
„Bifreið er bráðabirgða-nýyrði; það er vagn, sem rennur sjálfkrafa eftir venjulegum vegum, fyrir steinolíu-gangvél, sem fylgir sjálfum vagninum, – er undir honum eða áföst við hann; slík akfæri eru og stundum nefnd hestlausir vagnar, en oftast erlendis automobil eða motorvagnar.“
Já, öllu má nú nafn gefa! Ástæða þess að útskýringa var þörf á þessum tímapunkti var sú að Ítali nokkur að nafni Spera, hafði „samið bók um bifreiðir og hver not muni mega af þeim hafa í hans landi, Ítalíu“.
Spera þessi hefur án efa þótt æði „flippaður“ að skrifa heila bók um þetta efni um 1900.
Bjó Klettafjallaskáldið „bifreiðina“ til?
Ótrúlegt en satt þá hafði „bráðabirgða-nýyrðið“ bifreið verið til í heil tuttugu ár þegar þetta var skrifað! Stephan G. Stephansson, Klettafjallaskáldið sjálft, notaði orðið bifreið fyrstur manna. Það var árið 1880 í kvæði sem finna má í Andvökum I. Samkvæmt Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er þetta elsta heimild um notkun orðsins í riti.
Stephan G. Stephansson flutti til Ameríku 1873. Bílar hafa nú varla verið skoppandi um stræti svo snemma en orðið bifreið er gott, burtséð frá því hvort skáldið notaði það um „sjálfhreyfivagn“ eður ei. Bifreið var það og nú, rúmum 140 árum síðar, er orðið enn notað. Bráðabirgða-hvað?
Erindið í kvæði Klettafjallaskáldsins er svona (og fær næsta erindi að fylgja með):
Bifreið skýja í bláinn,
bera mig lét ég –
lyftist þá úr þröngsýn
Þrúðheimur ljóða. ?
?
?Mér er nú í muna
manna heim að kanna –
berðu mig, eldmóðug eimvél,
utar á jarðveg.
Furðuverk er með braki og brestum fór
Fjórum árum eftir að lýsingar á fyrirbærinu birtust í hinu merka blaði Ísafold, eða árið 1904, sást eitt slíkt, þ.e. bifreið, í Reykjavík. Ditlev Thomsen kaupmaður og konsúll tók „að aka um götur bæarins á bifreið sinni. Þirptist að múgur og margmenni til þess að sjá þetta furðuverk og þreittu götusveinar kappskeið við reiðina,“ segir í blaðinu Ingólfi í júnímánuði 1904.
Varla hefur bifreiðin farið mjög hratt, enda fóru piltar í kapp við hana! Leist mönnum misvel á farartækið, enda ekkert slíkt sést áður á landinu. Var því meira að segja líkt við farkost úr goðafræðinni! En sá var raunar dreginn af tveimur höfrum; Tanngnjósti og Tanngrisni.
Heldur frásögnin í Ísafold af furðuverkinu áfram:
„Fór hún [bifreiðin] með braki og brestum og þótti mörgum sem Ásaþór mundi þar fara í kerru sinni og ætla í austurveg að berja tröll. En varla myndi jötnum hafa mikil ógn staðið af þessari kerru,“ skrifar blaðamaðurinn.
Ljót orð og kerra sem hristist
Vestur-Íslendingar lýstu áhyggjum af þróun íslenskunnar á Íslandi. Má það glöggt greina af skrifum upp úr aldamótunum 1900, t.d. í blaðinu Heimskringlu. Ritstjórnargreinar, eða greinarkorn báru það oft með sér að ekki þótti Íslendingum, búsettum á Íslandi, treystandi fyrir eigin tungumáli! Ýmislegt er tengdist bifreiðum og akstri kom þar við sögu.
Í svari ritstjórnar við bréfi sem blaðinu barst snemma árs 1916 segir:
„Býll eða bíll er seinasta atkvæðið í gríska orðinu automobile. Landar heima hafa tekið seinasta atkvæðið úr nafni þessu til að tákna sjálfhreyfivagninn automobile. Þykir þeim það fallegt, en oss hér vestra þykir það ákaflega ljótt og aldrei heyrist það af vörum nokkurs manns. Bifreið er eiginlega kerra sem hristist. Bifreið ætti að vera sama og bílvagn. Sjaldan eða aldrei heyrast þessi orð hér.“
Þar höfum við það!
Ljótt var það og útlit fyrir að fokið væri í flest skjól á Íslandi, þar sem skjól var þó sjaldnast að finna.
Það kemur því nokkuð á óvart að í sama blaði, Heimskringlu, aðeins fimm árum síðar mátti sjá eftirfarandi:
Ojæja, þarna koma þessi hryllilegu orð bæði fyrir og vonandi varð engum meint af. Þeir Íslendingar sem bjuggu hér á landi virtust ekki láta áhyggjur fólks í Vesturheimi mikil ef nokkur áhrif hafa á orðaforðann og er greinarhöfundur, sem sjálfur er af Vestur-Íslendingum kominn, ákaflega þakklátur fyrir að bifreiðin lifi enn í tungumálinu og virðist hafa það nokkuð gott.
Megi nýyrðið og furðuverkið bifreið lifa sem lengst!
[Greinin birtist fyrst í apríl 2021]
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein