Bílunum hent í hafið!
Við Gíbraltar tíðkaðist það, fyrir ekki svo löngu, að láta bíla gossa í hafið. Ef bílar voru skildir eftir á „röngum“ stað þá gat allt eins verið að einhverjir ýttu honum fram af klettunum. Af hverju? Jú, það voru of margir bílar og ýmsum fannst góð hugmynd að fækka þeim með þessum hætti.
Nú kann einhver að halda að ég sé að fíflast en svo gott er það nú ekki. Hér er einfaldlega vísað í orð lögreglustjórans Peter Guyatt sem á sínum tíma fullyrti að þannig væri málum háttað í Gíbraltar og oft færu 10 bílar á dag í sjóinn!
„Fyrir ekki svo löngu“, skrifaði undirrituð og það er alveg rétt. Á mælikvarða fertugrar manneskju er stutt síðan 1980. Þá var ég nefnilega ekki fædd. En nóg um það.
Fréttin sem um ræðir birtist í Tímanum þann 9. júlí 1980 og þar sagði:
„Það er eins gott að gæta vel að hvar skilið er við bílinn, ef verið er á ferðalagi í Gibraltar. Ef þú leggur bílnum þínum á útsýnisstað eða öðrum merktum stöðum þar sem ekki má skilja bifreiðar eftir, þá getur þú alveg verið viss um að sjá bílinn þinn ekki meir, — honum verður nefnilega hent í sjóinn! Oft fara 10 bílar í hafið á dag,“ segir í blaðinu og að sjálfsögðu er maður trúr upphaflega textanum, eins vitlaus og hann kann að vera.
„Breskur blaðamaður, sem var á ferð í Gibraltar hafði tal af Peter Guyatt lögreglustjóra og hann hafði þetta að segja: — Þetta eru eiginlega neyðarráðstafanir, því að við erum að „kafna” í bílum. Hér eru um 30.000 manns en um 8.000 farartæki. Fólk hefur góða vinnu, hér er ekkert atvinnuleysi, og allir kaupa sér bíla. Það er engu líkara en fólkið sé fótalaust, því allt er farið í bíl, en hér eru aðeins um 26 mílur af bílvegum og landamærin eru meira og minna lokuð.
Margir af þessum bílum, sem fara í sjóinn, eru eldri bílar, sem íbúarnir skilja bara eftir, því að þeir geta ekki selt þá, en auðvitað verður að kaupa nýjasta módelið,“ sagði lögreglustjórinn og maður var farinn að finna til með honum, blessuðum karlinum að þurfa að horfa upp á þessa dellu!
En þá kom þetta:
„Lögreglan tappar af þessum bílum olíu og bensíni og hífir þá svo út fyrir brúnina og í Miðjarðarhafið. Þarna með klettunum er sterkur straumur og ber hann bílhræin á mikið dýpi þarna rétt hjá,“ sagði löggimann og þar fór öll samkenndin fyrir lítið! En frétt Tímans er nú ekki alveg búin:
„Ungur maður, sem blaðamaðurinn talaði við í Gibraltar, var á nýjum bíl, en þó voru árekstraskemmdir á honum, sem og vel flestum bílum þar. Hann sagði: — Ef þú getur ekið í Gib (stytting íbúanna á Gibraltar) þá getur þú ekið hvar sem er! Nú stendur til að opna landamærin fyrir ferðamönnum, og á því að reyna, í sambandi við spænsku lögregluna, að koma einhverju skipulagi á umferðina á Gibraltar.“
Umræður um þessa grein