Bíltúr sem aldrei gleymist
Auglýsingar Veltis á Volvo á árum áður notuðu slagorðið „Fasteign á hjólum”. Að sjálfsögðu gerðu menn smá grín að þessu og töldu þetta slagorð passa vel við því Volvoinn væri dýrari en aðrir bílar, hann væri þunglamalegur og það þyrfti að vera í lyftingum til að ráða við stýrið ef ekki væri það vökvastýri.
Ódrepandi
Volvo hefur svo sannarlega sannað gildi sitt hér á landi sem öflugur og endingargóður bíll sem uppfyllir ströngustu öryggiskröfur. Lögregluembættin á Íslandi hafa löngum valið Volvo í vinnu enda bíll sem hægt er bjóða ýmislegt sem aðrar tegundir ráða kannski síður við.
Allavega hefur reynslan á Volvo verið góð í gegnum árin hjá Löggunni.
Bertone
Einn er sá bíll af Volvo gerð sem vakti sérstaka athygli undirritaðs en það er Volvo 262C Bertone. Um er að ræða tveggja dyra kúpubak sem kynntur var til sögunnar á bílasýningunni í Genf árið 1977. Bertone bíllinn var framleiddur á árunum 1977 til 1981 og aðeins í 6622 eintökum alls.
Í bílnum var 2,7 lítra V6 OHC en einnig var hann boðinn með 2,8 lítra vél.
Hægt var að velja um beinskiptingu með yfirgír eða þriggja þrepa sjálfskiptingu. Volvo 262C var búinn vökvabremsum og diskum á öllum hjólum.
Tveir svona fákar komu til Íslands en þeir voru í eigu bræðranna Gunnars Ásgeirssonar og Ebenezer Þ. Ásgeirssonar.
Gunnar rak Velti sem hafði umboð fyrir Volvo á Íslandi en Ebenezer átti og rak Vörumarkaðinn, Ármúla 1a – þar sem nú eru rannsóknastofur í meinafræði.
Vörumarkaðurinn verslaði með matvöru, raftæki og húsgögn ásamt vefnaðarvöru.
Bíll David Bowie var ansi flottur. Hann var svartur að lit og einn af síðustu bílunum sem framleiddir voru í þessari gerð.
Það var árgerð 1981. Bíll Bowie var seldur á uppoði árið 2017 en hann var í mjög góðu ásigkomulagi og ekki ekinn nema um 53 þús. kílómetra.
Lukkudagur unglingsins
Undirritaður starfaði sem „pokadýr” hjá Vörumarkaðinum í nokkur ár en vann sig upp í lagerstarf á nokkrum misserum.
Maður góndi reyndar á þennan bíl þegar hann renndi framhjá því flottur þótti hann. Það var svo einn góðan veðurdag að ég var að vinna við að taka á móti vörum þegar forstjórinn Ebenezer ók upp að versluninni og steig út úr þessum glæsilega Volvo 262C og kallaði til mín, skólpaðu nú af bílnum fyrir mig Pétur. Þá hef ég verið 17 ára og nýkominn með bílpróf.
Ég endurtók beiðni Ebba og sagði, „viltu að ég skólpi af bílnum fyrir þig?”
Hann rétti mér lyklana og þar með var ég líklega orðinn yngsti ökumaður Volvo 262C á Íslandi á þessum tíma.
Minnti á geimskip
Man ég sérstaklega eftir græjunum sem voru að Blaupunkt gerð sem voru box sem fest var á rana sem kom upp undan mælaborðinu. Leðrið var alvöru, mjúkt og glansandi og sætin voru eins og maður sæti í fínasta sófasetti.
Ekki ók ég lengra en frá Ármúla og niður á BP (Olís) bensínstöðina við Háaleitisbraut til að „skólpa” af bílnum en það gerði ég nú bara með því að kústa bílinn á þvottaplaninu.
Þá voru menn ekkert að leggja uppúr sápu, svampi og að þurrka. Bara skólpað af og ekið í burtu. Og maður minn, nægt var aflið – þó svo að ég hafi ekki þorað fyrir mitt litla líf að fara uppfyrir 40 eða 50 kílómetra hraða þennan stutta spotta.
Enn í dag man ég eftir þessum stutta bíltúr. Því miður gat maður ekki hringt í vin, sett innlegg á Facebook eða tekið sjálfu. Bíltúr sem aldrei gleymist.
Umræður um þessa grein