Bílar ársins í Evrópu 1971-1980
1970 Citroen GS
Þetta var framdrifsbíll í fjögurra og fimm dyra útgáfum. Fimm manna fjölskyldubíll framleiddur á árunum 1970 til 1979 sem hlaðbakur og stallbakur og síðar sem skutbíll og var þá Citroen GSA Club.
Citroen GS var framleiddur í 2.5 milljónum eintaka þar til yfir lauk.

Fjöðrunin þótti með eindæmum góð í bílnum og mýktin í akstrinum gat verið svæfandi. Hins vegar var bíllinn frekar vélarvana og þótti ekki nógu sparneytinn. Hönnun þessa bíls var endingargóð í meira lagi og var bíllinn í sölu fram undir 1985.
.jpg)
Það var Glóbus í Lágmúla sem var umboðsaðili Citroen á árum áður. Undirritaður man glöggt eftir slíkum bíl á baklóð Glóbus. Bíllinn sá var nokkuð heillegur en hafði staðið þar í alllangan tíma.
Við strákarnir vorum nú eitthvað að fikta í þessum bíl og man ég sérstaklega eftir framúrstefnulegu mælaborðinu.
1972 Fiat 127
Fiat 127 var talsvert vinsæll á Íslandi. Lítill, sparneytinn og nettur í útliti. Bíllinn var framleiddur af ítalska bílaframleiðandanum Fiat frá árinu 1971 til 1983. Fiat 127 var kynntur til leiks sem arftaki litla Fiat 850 bílsins sem náði miklum vinsældum í Evrópu.
Það var síðan hinn gríðarvinsæli Uno sem tók við af Fiat 127 árið 1983 en 127 var framleiddur eitthvað áfram í Brasilíu.

Það var Davíð Sigurðsson í Síðumúla 35 sem var umboðsmaður Fiat á Íslandi og man ég vel þegar ég fór ungur að aldri með bróður mínum að sækja einn splunkunýjan slíkan á baklóð Síðumúla 35 árið 1972.
Man alltaf eftir rauðu plussinu í sætismiðju og svörtum vínyl á köntunum.
1973 Audi 80
Audi 80 var framleiddur frá 1966-1996 en Audi er hluti af VW samsteypunni.
Bíllinn deildi undirvagni með VW Passat frá 1973 til 1986.
Hann var framleiddur sem stallbakur og skutbíll en Audi markaðssetti skutbílinn sem Avant.

Audi 80 þótti laglegur bíll, hagkvæmur og vélin hentaði honum frábærlega. Hann var léttur og framdrifinn. Vél bílsins lagði grunninn að velgengni véla innan VW samsteypunnar alveg fram á 21. öldina. 1.6 lítra GTE vél bílsins er sögð grunnur VW Golf Gti vélarinnar.
Hins vegar ryðgaði Audi 80 árgerð 1973 talsvert og fyrir bílasafnara og þá sem vilja gera slíka bíla upp eru varahlutir í þessa bíla nær ófáanlegir.
1.1 milljón eintaka af Audi 80 gerðinni voru framleidd í heildina. Hekla var og er með umboðið fyrir Audi bifreiðar.
.jpg)
1974 Mercedes 450 SE
Ég býst við að margir muni eftir þessu útliti Mercedes Benz enda nokkrir til á Íslandi. Bíllinn þótti mjög rúmgóður, efnisval og öll hönnun flott, þótt ákveðinnar íhaldssemi hafi gætt eins og gengur og gerist hjá Mercedes.
Grunntýpurnar þóttu hins vegar frekar hráar og þurftu kaupendur að bæta slatta við af seðlum til að fá bílinn eftir sínu höfði.
Nágranni minn í Mosfellsbænum átti einn 450 SEL í góðu standi árið 2004. Ræsir var með umboð fyrir Mercedes-Benz á Íslandi í áratugi. Umboðið var staðsett á Skúlagötu 59 en húsið hefur verið rifið í dag.
_sedan_(2015-07-09)_01.jpg)
1975 Citroen CX
Þetta þóttu flottir bílar. Svífandi sófasett og mjúkur eins og biðukolla á sólríkum sumardegi. Citroen CX var stór, framhjóladrifinn lúxusbíll og í framleiðslu á árunum 1974 til 1991.
Bílarnir voru framleiddir í fjögurra dyra fastback útgáfu og skutbílagerð.
Einkennin eru langt bil á milli fram- og afturöxuls, vökvadrifna fjöðrunin frá Citroen og lágur loftflæðistuðull. Enda er gerðarheitið dregið af tákninu fyrir loftflæðistuðulinn Cx.
.jpg)

Í reynsluakstri frá árinu 1974 kemur fram að bíllinn sé afskaplega þægilegur í akstri, fallegur, skeri sig úr frá öðrum bílum og mjög rúmgóður. Gallarnir eru ryð og aftur ryð, lélegt stöff í mælaborði og erfitt að gera við nema að kaupa nýtt.
Endingin væri í samræmi við viðhaldið en gæti verið góð ef eigendur héldu bílnum sérlega vel við.
1976 Simca 1307-1308
Þetta voru hræðilegar druslur. Ég man eftir þessum fákum – þeir biluðu margir bara á leiðinni heim frá umboðinu. Þóttu samt flottir og innréttingarnar mjög huggulegar.

Simca var talsvert stór fjölskyldubíll þess tíma. Framleiddur af Chrysler Europe og síðan PSA Peugeot Citroen frá 1975 til 1986. Þróun bílsins fór fram í Bretlandi af Roy Axe og teymi hans hjá Whitley en lokahönnun fór fram hjá Simca í Frakklandi.
Framhjóladrifið og nútímalegt útlit bílsins gerði hann eftirtektarverðan ásamt VW Passat sem varð Evrópubíll ársins 1976.
Það var bílaumboðið Vökull í Ármúla sem flutti inn Simca bíla á þessum tíma. Jafnframt voru seldir Dodge og Plymouth bílar þar.
1977 Rover 3500
Bretar hafa svo sem aldrei verið neitt sérstakir í hönnun bíla og framleiðslu þeirra. Oftar en ekki hafa mestu druslurnar komið frá Bretlandseyjum. Samt sem áður hefur Bretinn alltaf litið stórt á sig í þessum efnum og ávallt haft dýrustu gerðir sínar með konunglegu ívafi.
Margar hugmyndir Bretanna hafa leitt til goðsagnakenndustu bílategunda sögunnar eins og til dæmis Land Rover, Range Rover, Aston Martin og Rolls Royce.

Rover 3500 var valinn bíll ársins árið 1977. Það var Rover Triumph og Austin Rover deildin sem kom bílnum á laggirnar og var hann framleiddur frá 1976 til 1986. Roverinn varð Evrópubíll ársins árið 1977.

Í reynsluakstri frá 1977 segir að kostirnir séu útlit, geta, einn af betri V8 knúnum bílum þess tíma, gott pláss og mikið fyrir peninginn að fá. Gallarnir voru hins vegar bilanatíðni, léleg samsetning og sex strokka vélar sem komu illa út.
1978 Porsche 928
Porsche 928 var hugsaður sem lúxus grand tourer (hannaður með þægindi til langferða í huga) af Porsche AG í Þýskalandi og framleiddur árin 1978 til 1995. Einn fallegasti Porsche-inn að mínu mati.

Porsche 928 var sérstakur að mörgu leyti. Upphaflega átti þessi bíll að taka við af flaggskipinu Porsche 911. Bíllinn átti að sameina sportlega aksturseiginleika og þægindi lúxusbíls. Pælingin var að bíllinn myndi höfða til fleiri viðskiptavina en 911 sportarinn.
Porsche 928 var fyrsti bíll Porsche með V8 vél og eini kúpubakurinn með vélina fram í.


1979 Simca Chrysler Horizon
Chrysler Horizon var smábíll sem hannaður var af Chrysler Europe og framleiddur ár árunum 1978 til 1987. Bíllinn var seldur undir gerðarheitinu Simca og Talbot.
Bíllinn er arftaki Simca 1100 og Hillman Avenger. Framhjóaldrifinn bíll með vélina þversum framm í.

Ómar Ragnarsson segir í reynsluakstursgrein í Vísi 18.12.1978 að miðstöðin sé kraftmeiri og einnig sé mun minna veghljóð í bílnum en 1508 Simcunni sem var bíll ársins í Evrpóu árið 1976 og við fjölluðum um að ofan.
Samt sem áður segir í samantektinni í lokin hjá Ómari að hávaði sé í meira lagi á grófri möl, stýri of dobblað og bíllinn full þungur miðað við stærðarflokk.
Hins vegar eru plúsarnir hjá Ómari mjúk og góð fjöðrun, snjöll útfærsla á farangursrými og öruggir aksturseiginleikar svo eitthvað sé nefnt. Þess má geta að Ómar keppti meðal annars í Vísisrallinu með bróður sínum Jóni árið 1975 á Simca 1100, R 2344.
1980 Lancia Delta
Lancia Delta – man einhver eftir henni? Fjölskyldubíllinn Lancia Delta var frameiddur af ítalska bílaframleiðandanum Lancia þegar fyrirtækið hafði lifað í gegnum þrjár kynslóðir. Fyrsta kynslóð Lancia Delta er frá 1979-1994, önnur á milli áranna 1993 og 1999 og sú þriðja frá 2008 til 2014.
Lancia er einn elsti bílaframleiðandi í heimi. Lancia Delta stóð sig vel í ralli í lok áttunda áratugarins og í byrjun þess níunda.

Í grein úr Morgunblaðinu frá 1986 segir Gísli Sigurðsson um kostina: framúrskarandi aksturseiginleikar, kraftmikil og sparneytin vél, gott stýri og hemlar, rúmgóður og ágætur frágangur.
Um gallana segir Gísli: stýri skyggir á hraðamæli nema að það sé stillt hátt og sverir afturpóstar hindra útsýni lítið eitt.

Myndir: Wikipedia og ýmsir bílavefir.
Umræður um þessa grein