Bee Gees: Ekki platínuplata heldur platínubíll
Þegar plata Bee Gees, Saturday Night Fever, hafði selst í milljónum eintaka í Bandaríkjunum árið 1978, fengu þeir ekki platínuplötu. Þeir fengu Cadillac Fleetwood Brougham. Sá bíll virðist reyndar hafa gufað upp…
„Þegar stór plata hefur selzt í einni milljón eintaka í Bandaríkjunum eru flytjendurnir sæmdir platínuplötu að launum. Útgefandi Saturday Night Fever hefði þurft að punga út tíu plötum handa Bee Gees, þegar platan náði tíu milljón eintaka markinu. Hann gat ómögulega staðið í slíkum plötuaustri en sæmdi þá í staðinn Cadillac bifreið — úr platínu að sjálfsögðu,“ sagði í Dagblaðinu þann 29. apríl 1978.
Bee Gees voru á hátindi lukkunnar og plöturnar þeirra seldust í bíl- og flugvélaförmum árin 1977 og 1978. Þá kom að þessu óumflýjanlega: Þeir áttu að fá platínuplötu. Hvort þeir fengu slíka plötu eður ei þá er nú kjarni málsins sá að útgefandi þeirra, Robert Stigwood, gaf þeim fyrrnefndan Cadillac.
Bíllinn var í platínu-silfruðum lit (já, platinum silver, segir á útlensku og litakóðinn er 15 segir hér) en innréttingin ku hafa verið rauðbrún eða dumbrauð.
Auðvitað kemur sú spurning fyrst upp í kollinn hvar téður bíll sé nú niðurkominn. Það er býsna góð spurning. Svo góð að við henni er ekkert svar, eftir því sem undirrituð kemst næst. Enginn „Gibbanna“ mun hafa haldið bílnum.
Nú, ef svo ólíklega vill til að einhver hér á landi lumi á upplýsingum um „platínubílinn“ þá væri það nú aldeilis gaman en kannski var þetta bara platbíll. Hvað veit maður?
Umræður um þessa grein