Vinur minn valti: Fyrsti bíllinn
Foreldrarnir bönnuðu honum að kaupa nýtt mótorhjól en samþykktu hins vegar hinn alræmda og valta þriggja hjóla bíl, Reliant Robin! Það var fátt „reliant“ við þann bíl nema kannski að hægt var að treysta á að hann kæmi manni á hvolf og í klandur.
Rakst ég á býsna áhugaverðan þráð þar sem fólk segir frá fyrsta bílnum. Bretinn sem segir, á þræði á vefnum PistonHeads.com, söguna af sínum áreiðanlega valta bíl, Reliant Robin, ók af stað árið 1980 og hér er sagan.
Sagan af fyrsta bíl Peters Perkins:
„Fyrsti bíllinn minn var þriggja hjóla, 850cc og 39 hestafla Reliant Robin. Betur þekktur í Bretlandi sem Plastgrís [Plastic Pig].
Jafnvel þá [1980] voru þetta sjaldgæfir bílar og eigendurnir oftar en ekki afundin eldri hjón með gjammandi kjölturakka aftur í bílnum. Í umferðinni er dæmigerður bílstjóri á svona bíl muldrandi og viðskotaillur eldri karl með sixpensara.
Já, svona náungi sem sendir hverjum þeim baneitrað augnaráð sem vogar sér að taka fram úr umferðarstíflandi ökutækinu sem ekki fer hraðar en fimmtíu.
Að fjárfesta í ökutæki sem þessu var gjörsamlega á skjön við allt sem ungur maður ætti að gera en svona seldi ég nú skrattanum sál mína og mótorhjólið seldið ég líka (Honda CX500) í skiptum fyrir frumstætt bílskrípi. Í von um að skrjóðurinn myndi halda á mér hita (og vonandi einhverri snót sem hormónarymjandi ungmennið þráði svo heitt).
Gekk ég svo langt að setja Goodmans útvarp með segulbandstæki í bílinn og keypti ég það í gegnum Kays – vörulista mömmu minnar. Spólurnar keypti maður fyrir nokkra aura og tók upp á þær hitt og þetta sem spilað var á Radio 1. Top of the Pops og fleira var á þessum spólum sem maður spilaði svo í bílnum. Og auðvitað flæktust þessar ódýru spólur þegar síst skyldi, þannig að ég var alltaf með blýant á mér til að bjarga málunum.
Núnú. Rétt eins og ungur bíleigandinn var í eðli sínu óstöðugur var bíllinn það sömuleiðis. Örsmátt framhjólið sá til þess að ökuferðirnar voru uppfullar af hasar eins og í bíómyndunum því ekki þurfti meira til en meðalbeygju eða litla ójöfnu á veginum til að bíllinn ylti um koll.
Á þessum árum þurfti ekki annað en mótorhjólapróf í Bretlandi til að aka þriggja hjóla bílum og þar sem ég var ferlega latur og værukær unglingur hafði ég ekki drattast til að ná bílprófinu. Ætli ég hafi ekki verið um 17 eða 18 ára þarna fyrir hvað, 42 árum síðan? Jemundur minn! Tíminn flýgur svo sannarlega!
Þar sem þessi dauðagildra á þremur hjólum var með bærilegustu vél og fjögurra gíra kassa undir ræfilslegri vélarhlífinni, varði ég ófáum stundum yfir olíukámugri Haynes handbókinni. Með skiptilykil af ódýrustu gerð á lofti og skrámaða hnúa, reyndi maður að klastra einhverju saman, jafnvel laga og læra í leiðinni.
Það var líka napurlegt til þess að hugsa að ekkert varði mann í bílnum, annað en plast sem var álíka sterkt og hrökkbrauð eða eitthvað þaðan af þynnra. Já, það var ekki nokkur árekstrarvörn í þessum bíl og hljóðeinangrun engin. Hávær var hann og fisléttur.
Því miður biðu hans illþefjandi og sjóðheit örlög fáeinum mánuðum síðar. En góðu mánaðanna okkar saman naut ég til fulls.
Það var einn fagran vordag í sveitinni í Norfolk sem við Trevor, besti vinur minn, ókum eins hratt og við komumst á Plastgrísnum. Alveg á 60 kílómetra hraða. Ég gerði út af við plastgrísinn sem valt rækilega í einni beygjunni. Ekkert við þessa bílveltu minnti á nokkuð úr heimsmeistararallinu, eða neitt í þá veru. Engir meistarataktar sem tekið var eftir.
Þetta var eins og fjarstæðukennt atriði í bíómynd, spilað allt of hægt, en tilgangsleysi hlutanna kristallast á fleygiferð fyrir hugskotssjónum manns á meðan minningarbrotin þjóta í gegnum kollinn.
Eins og sársaukafullt ferðalag þar sem maður er í sífellu minntur á hvílíkur afglapi maður sé að enda lífshlaupið svona. Rúllandi innan í Reliant Robin. Plastgrís.
Við endastungumst rólega gegnum beykilimgerði og grotnandi girðingu og stöðvuðumst loks á hvolfi á hlaði framan við snotran sveitabæ. Svona sveitabæ eða herragarð sem maður sér á fínum konfektkassa eða smákökuboxi.
Virðulegur eldri herramaður sat þarna skammt frá, framan við málaratrönur og var að mála mynd af sveitabænum í indælli sveitasælunni með rjúkandi te sem hann hafði hellt í bolla úr hitabrúsa, þegar við rúlluðum framhjá.
Þarna rúlluðum við eins og tveir rallhálfir sukkarar á leið heim af skralli og gjörsamlega rústuðum augnabliki listamannsins. Hugblærinn og andartakið fór fyrir lítið þegar við skoppuðum með látum inn í sjónsviðið.
Með marið, skælt og krambúlerað egó bröltum við út úr krömdum Plastgrísnum. Þá varð skammhlaup í brakinu og eldur blossaði upp. Ég gerði tilraun til að slökkva eldinn með innihaldinu úr kókdós sem var í bílnum, auk vatnsins sem listamaðurinn var með í glasi við trönurnar og tei mannsins skvetti ég líka á bálið.
En allt kom fyrir ekki. Á innan við fimm mínútum var bíllinn minn orðinn að dökkleitri bráðinni klessu og eiturgufur fylltu vitin í stað sveitaloftsins.
Lögreglan kom áður en langt um leið og skoðaði ökuskírteinið mitt og kannaði tryggingu bílsins. Tryggingin var einfaldasta grunntrygging sem hægt var að kaupa (ábyrgðartrygging) og brosti lögregluþjónninn ofurlítið í kampinn um leið og hann bað mig að drífa í því að safna saman brunarústum þess sem eitt sinn var Plastgrís.
Úr símaklefa hringdi ég í pabba minn og tveimur tímum síðar kom hann akandi og sýndi ekki nokkur svipbrigði. Hann tók skóflu og grófan kúst út úr bílnum og í sameiningu mokuðum því sem eftir var af fyrsta bílnum mínum í kassa sem pabbi hafði komið fyrir ofan á toppgrindinni á bílnum sínum.
Volg askan og annað sem við söfnuðum saman, fór beint á haugana og þannig fór nú fyrir fyrsta bílnum mínum. Ekki þótti mér gaman að þurfa að fara ferða minna fótgangandi eftir þetta, þannig að ég tók mig taki og tók bílprófið eins og fínn maður.
Svo eignaðist ég annan óáreiðanlegan breskan bíl sem frægur er að endemum; Hillman Imp. Það reyndist auðvitað hinn mesti óheillagripur sem ofhitnaði og sprengdi heddpakkningar og fleira óskemmtilegt.
En þeir bílar voru alla vega á fjórum hjólum. Ojæja, sú var tíðin gott fólk. Sú var tíðin.“
Fleiri sögur af fólki og bílum:
Bremsufar í brók: Fyrsti bíllinn
Ég og Renault 5 Gt Turbo
Gaf manninum Audi í þakklætisskyni
400 mílna ferðalag á 29 ára gömlum 47 hestafla bíl
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein