Af nógu er að taka hvað misheppnuð aprílgöbb snertir. Meira að segja bílatengd göbb geta algjörlega misheppnast. Lítum á nokkur vandræðalega vond frá síðustu árum.
Í dag er dagurinn sem maður þarf því miður að vantreysta öllum. Fólkinu sem manni þykir vænst um og auðvitað fólkinu sem manni er ekkert allt of vel við og öllum sem rúmast þar á milli. Verstir eru fjölmiðlar því ef þeir ná að gabba mann gæti maður endað í imbakassanum og allir hlegið að manni fyrir að hafa látið gabbast.
Árið 2019 var voða mikið gabbað, það er að segja þann 1. apríl. Þá var gabbað meira en aðra daga.
Toyota í Ástralíu kynnti „nýjan“ Toyota HiAce blæjubíl með „pie-ofni“ (pie = baka).
Með bökuofninum var sagt að útgáfan yrði kölluð PieAce…
Toyota í Norður-Ameríku boðaði komu pallbílsútgáfu af Yaris; Yaris Adventure. Sá bíll væri „kjörinn fyrir þá sem vildu geta sagt vinum sínum að þeir ættu pallbíl en færu aldrei út fyrir malbikaða vegi“ sagði í platinu.
Fréttatilkynningin sem var send út á sínum tíma var nokkuð löng en henni fylgdi þó aðeins ein mynd. Það er sannarlega torkennilegt.
Það besta er að fjöldi fólks óskaði þess að bíllinn væri í raun og veru að koma á markað og lýstu margir því yfir að þeir myndu kaupa svona bíl ef hann væri til í raun og veru!
Svo var það Formúla 1 gabbið sem er svo arfaslakt að maður fær bjánahroll við að minnast á það.
„Hraðari, grimmari og loðnari“ var yfirskrift nýrrar keppnisgreinar innan F1 þar sem keppendur „voru“ hundar. Æj, þetta er svo hræðilega vont að myndband þarf til að skýra málið:
Lamborghini tók þátt í sprellinu sama ár og auglýsti lúxus-hjólhýsi sem á myndinni virðist býsna stórt í samanburði við Huracán sem lítur út fyrir að draga hýsið.
Ekki er laust við að meint hjólhýsi líkist bílnum Lamborghini Urus.
Rétt eins og í tilviki Yaris pallbílsins þá sögðust nokkrir gjarnan vilja eignast slíkt tæki.
Árið 2020 var nú eins og það var og skautum framhjá því en 2021 var alveg með í vondum bílatengdum aprílgöbbum.
Alfa Romeo kynnti „rúðufilterana“ Nuova Luce sem sagðir voru innblásnir af Instagram filterum.
Í afþreyingarkerfi Alfa Romeo Stelvio áttu að vera filterar fyrir hliðarrúður farþega sem myndu láta þeim líða eins og þeir væru staddir á Ítalíu; Mílanó, Róm, Tórínó, við Como vatnið eða ströndina á Amalfi. Þannig mætti sjá útsýnið „í nýju ljósi“!
Og eitt svona í lokin:
Farið varlega lesendur góðir og munið að í dag er dagur ólíkindatólanna.
Fleira tengt plati og alvöru:
Munið þið eftir Mihitzu 200 gabbinu?
Hvað er plat og hvað ekki í bílasenum?
Gaurinn sem keypti sportbíl í kassa
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein