Úr litlum „grænum skúr“ í alvöru bílafyrirtæki á 45 árum
- Á þessu ári [2020] fagnar Bílabúð Benna 45 ára afmæli, en fyrirtækið var stofnað þann 26. maí 1975
Upphafið á langri sögu fyrirtækisins má rekja til þess að Benedikt Eyjólfsson og Margrét Beta Gunnarsdóttir, þá bæði 17 ára gömul, höfðu komið sér upp aðstöðu fyrir bíla- og mótorhjólaviðgerðir, ásamt því að gera við sláttuvélar, í óupphituðum skúr, sem oft var kallaður „græni skúrinn“ við Vagnhöfða 23, en fyrsta nafn fyrirtækisins var Vagnhjólið.
En ungu hjónin létu sér ekki nægja að gera við bíla og mótorhjól. Þau komu nálægt innflutningi á bílum og bílavarhlutum og nafn fyrirtækisins breyttist fljótlega í samræmi við það.
Var fyrirtækið raunar almennt kallað „verkstæðið hans Benna“ og var síðan í framhaldinu nefnt Bílabúð Benna.
Þessi viðskipti þróuðust fljótlega í þá átt að flytja inn bíla frá SsangYong í Suður-Kóreu, og segja má að Musso-jeppinn frá þeim hafi komið, séð og sigrað á sínum tíma, og voru algengir jafnt á vegum sem fjöllum á sínum tíma. Og enn má í umferðinni sjá þessa jeppa frá upphafsárunum. Síðan bættust við bílar frá Chevrolet, Opel og síðast en ekki síst Porsche.
Sagan með órofin tengsl við akstursíþróttir
En saga Bílabúðar Benna er samofin sögu akstursíþrótta á þessum áratugum sem fyrirtækið hefur starfað.
Benni sjálfur lét til sín taka í kvartmílu og sandspyrnu á upphafsárunum, og ekki síður ferðalögum um öræfin á snæviþöktu hálendinu að vetralagi. Hann tók þátt í sinni fyrstu torfærukeppni í Grindavík árið 1976, og í framhaldinu sigraði hann í torfærukeppninni á Hellu næstu þrjú árin á eftir.
Ekki má heldur gleyma því ævintýri þegar Bílabúð Benna í samvinnu við spilframleiðandann Warn kom jeppa á hæsta tind landsins í apríl 1991. Sú för vakti heimsathygli og í erlendum tímaritum var mikið fjallað um þetta á sínum tíma.
Bílabúð Benna hóf að flytja inn vörur frá BFGoodrich, Rancho, Dick Cepek, American Racing, Warn, MSD og ARB meðal annarra. Vegna þess urðu jeppabreytingar og aukahlutir fyrir jeppa aðalviðfangsefni fyrirtækisins og vakti fyrirtækið mikla athygli fyrir margar nýjungar í þeim efnum. Jafnframt urðu Benni og félagar varir við vaxandi þörf á þjónustu við vélabreytingar, en akstursíþróttirnar kölluðu á meira afl og snerpu.
Almennu bílaverkstæðin voru ekki tilbúin að sinna þessum þörfum akstursíþróttamannanna.
Margir þessara bíla voru með amerískar bílvélar og mörg verkstæði virtust hvorki hafa áhuga á né skilning á því að breyta þeim eða auka aflið. Þannig að á tímabili var Bílabúð Benna eiginlega vélaviðgerðarverkstæði meira en jeppabreytingaverkstæði.
Jökla- og fjallaferðir
Á ákveðnum tímapunkti var lögð sérstök áhersla á jeppabreytingar fyrir jöklaferðir hjá fyrirtækinu og það er óhætt að segja að Bílabúð Benna hafi verið ákveðinn frumkvöðull á því sviði hér á landi.
Þjónusta við jeppa og eigendur þeirra var aðalsmerki fyrirtækisins í mörg ár, og Bílabúð Benna hefur leikið stórt hlutverk í jeppamenningu landsins um langt árabil, þótt aðrar áherslur hafi komið til sögunnar á síðari árum. Þá má nefna „Jeppadag fjölskyldunnar“ sem haldinn var árið 1993, í samvinnu við ferðaklúbbinn 4X4, en þá mættu á þriðja þúsund manns á 750 jeppum í eftirminnilega jeppaferð.
Fjölbreyttur rekstur í dag
Í dag Bílabúð Benna er umboðsaðili fyrir Porsche og SsangYong. Fyrirtækið býður jafnan upp á gott úrval af bæði nýjum og notuðum bifreiðum frá þessum framleiðendum ásamt því að sinna allri þjónustu fyrir þessi vörumerki.
Bílabúð Benna flytur jafnframt inn og selur varahluti og aukahluti í allar tegundir bifreiða. Fyrirtækið rekur einnig Sixt bílaleigu og Nesdekk, sem er umboðsaðili m.a. fyrir Toyo Tires, BFGoodrich, Pirelli, Interstate og Maxxis hjólbarða.
Fyrirtækið er starfrækt í Reykjavík og Reykjanesbæ en er með umboðssölu fyrir bíla á Akureyri ásamt þjónustusamningum við verkstæði um allt land.
Spjallað um söguna og Porsche Taycan
En í tilefni af þessu afmælisári, þá fengum við Benedikt Eyjólfsson, eða Benna, eins og hann er alla jafna kallaður, til að hitta okkur á Kvartmílubrautinni á dögunum og þar mætti hann með einn nýjasta bílinn, ofurrafbílinn Porsche Taycan og við spölluðum við hann um söguna og þennan magnaða bíl.
Myndbandsupptaka og klipping: Dagur Jóhannsson.
[Greinin birtist fyrst í september 2020]
Annað tengt íslenskri bílasögu:
Athafnamaðurinn Egill Vilhjálmsson
Hlemmur in memoriam
Bílakóngurinn Steindór átti flesta bíla í einkaeigu á Íslandi
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
?
Umræður um þessa grein