Ökukennarar hljóta að hafa stáltaugar. Það kom alla vega upp í hugann eftir að ég las nokkrar sögur af síðu breskra ökukennara. Hér eru tvær þeirra og við skulum bara vona að þetta séu ekki dæmigerðar sögur úr „bransanum“!
Ungfrú Bremsa uppáklædd
Ég átti von á nýjum nemanda en það var víst vinkona einhvers sem ég var að kenna. Þegar ég var á leiðinni til hennar fékk ég skilaboð frá þessum nýja nemanda. Stúlkan spurði hvort það væri í lagi að hún mætti í ökutímann klædd „eins og eskimói“. Ég gerði mér strax grein fyrir að hún væri sennilega ekki eins og fólk er flest en ekkert hefði þó getað búið mig undir það sem í vændum var.
Sumt af því sem hún gerði var svo sturlað að ég vil helst reyna að gleyma því en hér er það helsta af því sem er birtingarhæft.
Hún kom í „eskimóamúnderingunni“ sinni og í risastórum bomsum. Sagði hún mér í óspurðum fréttum að henni þætti mjög gaman að klæða sig upp. Við skiptum um sæti og var bíllinn úti í kanti á meðan við fórum yfir hvað við ætluðum að gera í tíma dagsins. Þá skyndilega „skrúfaði“ hún niður rúðuna og hrækti á bíl sem kom akandi úr gagnstæðri átt. Hún sagðist hafa gert þetta því henni mislíkaði liturinn á bílnum.
Þegar annar nemandi í ökukennslu ók fram hjá fór hún út úr bílnum, tróð þumlunum í eyrum og rak út úr sér tunguna framan í ökukennarann því hún sagðist ekki þola aðra ökukennara.
Jæja, það var svo þegar ég spurði hana hvort hún vissi hvernig ætti að nota hemlana sem allt fór á versta veg. Hún brast einfaldlega í söng og var textinn á þessa leið: „Herra Bremsa er dásamlegur, hann verndar okkur og forðar frá slysum.“
Það var nokkuð ljóst að stúlkan ætti við andlegan krankleika að stríða og þyrfti á viðeigandi hjálp að halda. En þarna var hún, í ökutíma hjá mér. Þegar við komum aftur að húsinu sem hún bjó í beið annar ökukennari þar fyrir utan. Ég sagði eitthvað á þá leið að það væru fleiri í húsinu að læra á bíl.
„Nei,“ svaraði hún. „Þetta er hinn ökukennarinn minn. Reyndar er ég með þrjá ökukennara núna því mér finnst gaman að aka mismunandi bílum. Og ökukennararnir koma ekki aftur eftir fyrsta tímann þannig að ég þarf stöðugt að finna nýja kennara.“
Að því sögðu fór hún út úr bílnum og gekk að næstu kennslubifreið, raulandi lagið um „Herra Bremsu“. Hinn ökukennarinn var skelfingin uppmáluð og ég sárvorkenndi honum þegar ég ók á brott.
Fimmta tilraunin
Næsta saga er um ungfrú Park frá Guildford. Fimmta tilraun hennar til að ná verklega ökuprófinu fór alls ekki vel. Nei, hún ók beint út í á. Áin Wye tók á móti henni og prófdómaranum. Bíllinn sökk, ungfrú Park tókst að synda í land og prófdómarinn, sem var ósyndur, klifraði upp á bílþakið sem rétt grillti í.
Þar mátti hann dúsa blessaður og góla uns hjálp barst.
Þá spurði unga konan hvort hún hefði náð prófinu en var vinsamlegast beðin um að bíða róleg því prófdómarinn þyrfti að jafna sig eftir áfallið áður en hann gæti svarað hvort hún hefði náð eður ei!
Svona í lokin má ég til með að bæta við nokkrum setningum ökukennara sem nemendur hafa deilt á veraldarvefnum:
„Það er betra að koma örlítið of seint en vera dauður á slaginu.“
„Ef þú ferð hægar en þetta þá mun bíllinn hreinlega fara aftur á bak.“
„Jæja, við klesstum ekki á neitt í dag. Það er framför.“
„Horfðu í spegilinn. Nei, ekki á sjálfa þig.“
„Þetta væri flottur akstur hjá þér ef við værum í Frakklandi. En þar sem við erum á Englandi væri það alveg tilvalið að aka á hinum vegarhelmingnum, takk.“
?Kennari: „Sérðu þetta stóra rauða þarna í fjarska?“
Nemandi: „Strætisvagninn?“
Kennari: „Já, strætisvagninn. Viltu reyna að klessa ekki á hann.“
Fleira tengt ökukennslu:
Ökukennsla: Þegar allt klikkar!
Undarleg ökupróf
Óheppinn ökunemi endaði í lauginni
300 ökutímar að baki en höldum endilega áfram
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein