Allt frá ökuprófi þar sem enginn er prófdómarinn, til ökuprófs þar sem lögregluþjónar sitja aftur í bílnum og fylgjast með… Kröfurnar eru breytilegar eftir því hvar á jarðarkúlunni ökuprófið er tekið.
Oft hefur maður heyrt því fleygt að sumir ferðamenn sem leigja bílaleigubíla í sumarfríinu á Íslandi hafi nú ábyggilega „bara fengið ökuskírteinið í morgunkornspakka“. Er þetta nú ekki bara óþarfi og rakinn dónaskapur?
Tjah, það getur verið en það er kannski sannleikskorn í morgunkorninu. Hér eru nokkur dæmi um undarlegheit og sumt veit á gott en annað ekki. Hafa skal í huga að þessi samantekt er til gamans og mögulega er flest af þessu byggt á misskilningi sem kann að stafa af tungumálabrasi eða ólíkri menningu.
Hefst hér samantektin :
Kenýa: Sagt er víða á vefnum að notast sé við bílaleikteppi og leikfangabíla við ökukennsluna.
Já, reyndar hélt undirrituð að þetta væri ein af þessum hrútlélegu sögum sem margir gleypa við (þið vitið; snjóhús á þremur hæðum með lyftu á Svalbarða o.s.frv.) en mögulega er það ekki svo
Læknir frá Bandaríkjunum, Tony Trinch, var við rannsóknir á smitsjúkdómum í Kenýa fyrir nokkrum árum. Hann sótti um ökuréttindi þar og þurfti fyrst að sækja nokkrar kennslustundir í ökuskóla. Hann lýsti reynslunni í dagbókarfærslum sem hann birti á Facebook.
Trinch birti myndina (hér fyrir ofan) við eina færsluna og skrifaði: „Við þurftum í alvöru að leika með leikfangabíla, svona eins og Matcbox-bíla, til að læra hvernig á að aka, aka um hringtorg og skipta um akreinar.“
Þetta sagði hann að væri mikilvægur hluti af náminu og þegar kom að ökuprófinu sjálfu var ekkert verið að flækja málið með akstri, umferðarskiltum, reglum eða öðru í þá veru. Aðalatriðið var að nemendur settu rétta pappíra í umslög og skrifuðu undir á réttum stöðum. Svo ók Trinch sjálfur frá lögreglustöðinni (þar sem hann tók „prófið“) með ökuréttindi upp á vasann, skrifaði doktorinn.
Andorra: Ökupróf fara einungis fram á miðvikudögum. Fyrir hádegi.
Þetta er líkast til bara bölvuð vitleysa þótt þessu sé haldið fram víða á vefnum. Ekki fann ég orð um þetta hjá þar til bærum yfirvöldum en leyfi þessu þó að fylgja hér því þetta er dálítið spaugilegt!
Kazakhstan: Sagt er að tölvur séu um borð sem meta frammistöðu nemenda í hinu verklega prófi. Það sé enginn kennari með í för. Bara nemandi og tölvur. Höfum nú varann á! Líkur eru á að þetta sé einn feitur misskilningur.
Lesotho: Þar munu vegir vera nokkuð skrautlegir eða ójafnir og ætli við værum ekki nokkurn veginn á heimavelli þar. Sagt er að margir nemendur taki verklega prófið á fjórhjóladrifnum bílum. Það þykir okkur nú ekkert merkilegt en víða myndu menn nú telja það mjög sérstakt.
Líbya: Þröng gæti verið á þingi þegar verklegt ökupróf er tekið þar. Sagt er að lögregluþjónn sé með í för, auk ökukennara og líklegast öðrum nemanda sem tekur prófið þegar maður er búinn með sitt framlag.
Ekki má gleyma að gerð er krafa um 65 tíma reynslu af akstri (væntanlega með ökukennara) áður en verklegt próf er tekið.
Rúmenía: Segja vefsíður að þar í landi séu ljósmyndir teknar af nemendum í þrígang meðan þeir sitja yfir bóklega hluta prófsins. Hvers vegna? Jú, til að sýna fram á að þeir hafi í raun og veru tekið prófið.
Úganda: Sel ég þetta nú ekki dýrar en ég keypti það en sagt er að bóklega prófið samanstandi af 30 spurningum en einungis þurfi að svara 25% rétt til að ná prófinu.
Slóvenía: Um verklega ökuprófið þar í landi er sagt að vistvænir bílar séu mjög vinsælir og að nemendur þurfi að sýna fram á að þeir hafi tileinkað sér umhverfisvæna aksturstækni; þ.e. að þeir aki á þann máta sem bestur geti talist með tilliti til hagkvæmrar orkunýtingar og umhverfis.
Nú tel ég við hæfi að ljúka samantektinni á einhverju sem virðist á rökum reist.
Japan: Til að öðlast ökuréttindi í Japan þarf að vanda vel til verka og er ferlið nokkuð langt og, tjah, flókið? Jú, ef rétt reynist má segja að það sé í flóknara lagi. Segir á síðunni AutoWise.com að pappírsvinna í kringum ferlið og svo sjálft bóklega prófið geti tekið heilan dag.
Nemendur þurfa, samkvæmt síðunni, að hafa lokið 31 klukkustund í verklegri kennslu áður en hægt sé að reyna við verklega prófið á sjálfskiptum bíl en 34 stundir sé bíllinn beinskiptur.
Japanska nálgunin gangi út á að nemendur búi yfir hæfni til að stjórna bifreið á sem öruggastan máta í stað þess að einblínt sé á almennt umferðaröryggi. Því fari prófið (verklega) fram á lokuðu svæði en ekki úti í umferðinni. Gengið sé úr skugga um að nemendur geri allt rétt og samkvæmt bókinni og kunni upp á tíu.
Fleira tengt ökukennslu:
Ökukennsla: Þegar allt klikkar!
Er bóklega bílprófið alltof létt?
Einkenni lélegra bílstjóra
300 ökutímar að baki en höldum endilega áfram
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein