„Þessum mun ég seint gleyma“: Mazda 626
Sumir bílar endast betur og lengur en aðrir. Hér segir frá Mazda 626 sem entist og entist.
Maður nokkur segir svo frá á umræðuþræði um bílaviðgerðir á síðunni Quora.com:
„Þessum mun ég seint gleyma.
Ég keypti splunkunýjan svartan Mazda 626 LX árið 1996. Tvær mílur sagði mælirinn og það var örugglega vegalengdin í skipið í Japan og úr skipinu og þaðan var bíllinn fluttur til Georgíu. Þetta var beinskiptur bíll, rétt eins og allir þeir bílar sem ég hef átt.
Á þessum trygga og góða bíl ók ég gegnum ríkin 48 sem eru samliggjandi í Bandaríkjunum og alltaf hugsaði ég vel um blessaðan bílinn. Lét smyrja hann reglulega, skipti um kerti og allt þetta helsta.
Þegar ég hafði ekið bílnum rétt rúmlega 300.000 mílur [um 485.000 km] varð olíuleka vart og ég fór með hann á verkstæði. Þetta var fyrsti bíllinn minn eftir að ég flutti að heiman og í raun og veru veit ég ekki baun um bíla! Þess vegna velti ég því aldrei fyrir mér hvort það væri eitthvað merkilegt að hafa aldrei þurft að fara með bílinn á verkstæði fyrr en þarna. Á þessum tíu árum sem ég hafði átt bílinn.
Viðbrögð bifvélavirkjans
Þegar ég kom með bílinn á verkstæðið tók bifvélavirki við bílnum en kom fljótlega inn á biðstofuna og vildi eiga við mig orð. Það sem hann sagði er eftirminnilegt: „Vissir þú að bíllinn þinn er enn með upprunalega kúplingu, hljóðkút, altenator og bensíndælu?“
Ég svaraði: „Já, er það óvenjulegt?“
Hann fór að hlæja. Svo útskýrði hann fyrir mér að kúpling og hljóðkútur endast að meðaltali um 60.000 mílur, altenator um 80.000 mílur og bensíndæla um 100.000 mílur. Og hér var ég á bíl sem kominn var yfir 300.000 mílur.
Auðvitað er þetta misjafnt en það að þessir fjórir hlutir skyldu allir vera óskemmdir, eins og reyndar flest annað í þessum bíl, það var víst frekar óvenjulegt og kom bifvélavirkjanum virkilega á óvart.
Þetta verkstæði er á sama stað og umboðið sjálft og það var einn sölumaður sem heyrði glefsur úr samtali okkar. Hann sagði að ef ég myndir einhvern tíma skipta þessum bíl út fyrir nýjan þá myndi hann sjálfur gjarnan vilja kaupa hann af mér því hann langaði að eiga þetta eintak.
Það kom að því að ég skipti bílnum út og þá var Mazdan komin upp í 374.891 mílu eða 603.330 kílómetra. Þetta skrifaði ég allt hjá mér því ég er „talnanörd“. Frá upphafi til þess dags sem ég seldi bílinn var ekki skipt um neinn fyrrnefndra hluta.
Ég hafði samband við sölumanninn og hann mundi vel eftir samtali okkar. Hann keypti bílinn en ég veit ekki hvernig bíllinn hefur enst eftir að ég seldi hann. Í spjalli við aðra 626 eigendur hef ég tekið eftir að flestir segja að þessir bílar „endist endalaust“ ef svo er hægt að komast að orði.
Vel gert Mazda. Þið búið til góða bíla,“ sagði maðurinn en ekki fylgdi sögunni hvernig bíl hann fékk sér í staðinn. Eflaust eitthvað sömu ættar.
Umræður um þessa grein