Stundum er gaman að rifja upp þá bíla sem hafa verið í eigu manns yfir ævina. Fyrsti bíllinn var breskur Morris, sem reyndist ágætlega þar til að ryðið át undirvagninn og hann fór yfir móðuna miklu! En næsti bíll á eftir honum var ekki síður eftirminnilegur; Škoda 1201 árgerð 1959 – í 3ja dyra stationútgáfu.
Þessir bílar fengu heitið „blöðru-skódar“ vegna útlitsins á sjálfberandi yfirbyggingunni, sem var „rúnnuð“ í meira lagi, ekki mjög flott hönnun, en virkaði bara vel.
Eitt var hagkvæmt við hönnun bílsins: Hann var bara með eina hliðarhurð á þeirri hlið sem sneri út í umferðina, en tvær á þeirri hlið sem sneri að gagnstéttinni – en í átt að umferðinni þar sem ekið var hægra megin á vegunum. Þegar ég átti bílinn var enn vinstri umferð þannig að þessi „lausn“ virkaði ekki eins vel hér á landi.
Framleiddur 1954 til 1961
Škoda 1201 var fjölskyldubíll, framleiddur af AZNP í verksmiðju þeirra í Mladá Boleslav í Tékkóslóvakíu – eins og landið hét þá. Boðið var upp á hefðbundna fólksbílsútgáfu og stationgerð auk sendibíls. Bíllinn kom fyrst á markað árið 1954 sem arftaki Škoda 1200. Hann erfði sjálfberandi yfirbyggingu forvera síns úr stáli.
Var hægt að koma honum í 90 km hraða
Bíllinn var með fjögurra strokka 1221 cc vatnskældri vél með yfirliggjandi ventlum sem skilaði hámarksafli 33 kW eða 45 hestöflum við 4.200 snúninga á mínútu. Fjögurra gíra gírkassinn var með efstu þrjá gírana samhæfða, en í fyrsta gír þurfti að tvíkúpla – eða vera á mjög hægum hraða þegar sett var í gír.
Afl var svo flutt til afturhjólanna með drifskafti með hjörulið í miðju. Afturdrifið sjálft var boltað upp í botninn á bílnum, en öxlarnir voru síðan á liðamótum út til afturhjólanna, þannig að óhlaðinn voru afturdekkin svolítið „innskeif“í gegnum liðamótað stoðskaft. Þetta fyrirkomulag var svolítið óhagkvæmt fyrir íslenska vegakerfið á þessum árum, því vondir vegir áttu það til að brjóta festingarnar fyrir drifhúsið, sem var skrúfað með fjórum boltum, ásamt þverfjöðrinni að aftan, í botninn á bílnum. Það kom því nokkrum sinnum fyrir að það þurfti að rafsjóða eyrun á drifhúsið eftir ferð út á land!
Og ekki var blessaður „blöðruskódinn“ hátt gíraður, því það var ekki hægt að aka honum mjög hratt. Hámarkshraði samkvæmt framleiðanda var tilgreindur á bilinu 90 km/klst til 105 km/klst. En það var nú helst niður góðar brekkur sem hægt var að „toga“ hámarkshraðann úr bílnum. 70 km voru nær lagi sem hinn „raunverulegi“ hámarkshraði!
Eitt til viðbótar var sérstætt við þennan bíl. Á þessum tíma var algengt að ýta þyrfti á hnapp til að „starta“ bílum í gang, en hér var dregið í hnúð í mælaborðinu sem tengdur var við barka. Þegar togað var í hann var tannhjólið á startaranum dregið aftur, og samtímis kom straumur á startarann til að snúa mótornum. Um leið og bíllinn fór í gang var hnúðnum sleppt og startarinn aftengdist.
Ágætur ferðabíll
En skódinn hentað mér ágætlega þann tíma sem ég átti hann, fyrir utan fyrrnefndan „drifgalla“ var þetta ágætur ferðabíll, sæmilega „háfættur“ og hentaði mér ágætlega vegna þess að það var fínt að sofa í honum þegar aftursætið var lagt niður.
Man eftir því að það rigndi svo vel eina hvítasunnuna á Vormóti Hraunbúa í Krýsuvík, að ég sleppti því einfaldlega að tjalda og svaf bara í bílnum.
Vinsæll sem fjölskyldubíll og hjá iðnaðarmönnum
Vegna vöruskiptasamninga á þessum árum kom þó nokkur fjöldi af Škoda 1201 hingað til lands. Stationgerðin var vinsælli, jafnt hjá fjölskyldum og iðnaðarmönnum, því farangursrýmið var dágott og vel aðgengilegt.
Framleiðslu lauk árið 1961, sem var einnig árið sem framleiðsla hófst á arftakanum, Skoda 1202. Hann var víða fluttur út til vestrænna þjóða; flestir bílar sem eftir voru í Tékkóslóvakíu fóru í opinbera notkun eða gegndu hlutverki leigubíla, en mjög takmarkaður fjöldi var seldur einstaklingum til einkanota.
(byggt á vef Škoda, Wikipedia og minningum höfundar)
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein