Meðalverð á bensínlítranum í heiminum er 175 krónur. Á Íslandi er lítrinn býsna dýr eins og flestir lesendur vita en aðeins sjö lönd í heiminum selja lítrann á hærra verði en hér. Þannig að við eigum næstum þetta vafasama heimsmet. Í Líbýu kostar lítrinn 4 krónur en er þó ekki með lægsta verðið.
Svo því sé til haga haldið þá er dýrast að kaupa bensín í Hong Kong en þar kostar lítrinn rúmlega 371 krónu.
368 króna munur
Venesúela er með lægsta verðið, eða rétt um 3 krónur. Þá kemur Líbýa með rúmar 4 krónur og Íran tæpar 7 krónur á hvern bensínlítra. Ekki dropa heldur lítra! Þetta er ótrúlegt en satt. Af hverju er þetta svona ódýrt?
Eldsneyti er svona ódýrt í Líbýu (höldum okkur við það ríki vegna þess sem á eftir kemur) vegna þess að Líbýa (og Nígería) er stærsti olíuframleiðandi Afríku og er verðið ákveðið af ríkisolíufélaginu National Oil Corporation og eitthvað í þá veru sem ég bara hef ekki vit á og segi því ekki fleira um þá pólitík.
Hættulegra gerist það ekki
Nema hvað! Sennilega er hvergi í veröldinni hættuglegra að aka en einmitt í Líbýu. Þar sem eldsneyti er ódýrara en drykkjarvatn og vegirnir hættulegri en byssurnar. Fleiri deyja í umferðarslysum í Líbýu heldur en í vopnuðum átökum og eru tölurnar alveg hryllilegar.
Á vef Jordan Times, í grein frá 2019, kemur fram að árið 2018 hafi í Líbýu verið skráð 4115 umferðaróhöpp; í þeim létu 2500 manns lífið og rúmlega 3000 slösuðust.
Í Líbýu búa um 6 milljónir manna og af hverjum 1000 íbúum eiga um 980 sinn eigin bíl. Algengasta orsök umferðaróhappa mun vera hraðakstur og ekki bætir úr skák að vegakerfið er afleitt. Víða hefur vegum ekki verið haldið við í marga áratugi, eða í allt að sextíu ár, samkvæmt greininni sem vísað var í hér að ofan.
Innflutt skrapatól
Lélegu vegirnir eru eitt, en svo eru ökutækin annað mál og hugsanlega verra. Þannig er að bílasalar í Líbýu eru stórtækir þegar að innflutningi fólksbíla kemur. Það var þannig fyrir nokkrum árum síðan að innfluttu bílarnir voru algjört drasl. Gamlir bílar án öryggisbelta og loftpúða.
Í febrúar árið 2019 voru sett lög sem banna innflutning á bílum eldri en 10 ára. Það ætti að vera til bóta en vandinn er margþættur, eins og fram hefur komið.
Virðing ungs fólks fyrir umferðarlögreglunni er nefnilega lítil sem engin þar sem sjaldnast er gripið til refsinga vegna unferðarlagabrota. En það er þó ekki hægt að skella skuldinni alfarið á bílstjórana því lítið er um umferðarskilti og umferðarljós.
Ódýrt bensín, jú, en allir innviðir morknir.
Þá er fróðleiknum um Líbýu lokið í bili og ljóst að þetta er ekki besta landið fyrir ferðamenn til að leigja sér bíl og skreppa á „rúntinn“.
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein