Starfsmaður stal sjö bílum á tíu dögum
Hann braut ekki rúður eða afritaði lykla þessi bílaþjófur. Nei, þessi var í vinnunni og ætlaði að „taka vinnuna með sér heim“ eða hluta af henni. Hann vann nefnilega á bílaleigunni Enterprise og hélt að enginn tæki eftir því þótt nokkur ökutæki hyrfu…
Cameron Sullivan heitir maðurinn og er 21 árs. Hann vann hjá Enterprise í Tennessee og hafði greinilega greiðan aðgang að bílum á geymslusvæði bílaleigunnar á alþjóðaflugvellinum í Memphis. Sullivan taldi sig komast upp með að láta bílana hverfa, einn af öðrum. Honum fannst greinilega nóg af bílaleigubílum á svæðinu og því vel til fundið að fækka þeim aðeins.
Samkvæmt upptökum úr öryggismyndavélum á svæðinu lét Sullivan hinn ungi fyrst til skarar skríða þann 8. ágúst síðastliðinn. Fyrst hann var að þessu á annað borð tók hann ekki bíl af ódýrustu gerð. Nei, hann tók ekki bíl úr flokki smábíla heldur byrjaði hann á ársgömlum Chevrolet Camaro.
Næst varð fyrir valinu nýr bíll og líka þar á eftir: 2022 árgerðin af Chevrolet Suburban og Audi Q5. Fínustu bílar. Svo fór hann aftur í 2021 árgerðina og tók Dodge Challenger og Chevrolet Suburban.
Sullivan virðist hafa kunnað vel við Challenger-inn því hann tók tvo slíka til viðbótar; einn nýjan en hinn frá síðasta ári. Þá var kominn 18. ágúst og ekki kemur fram hve margir dagar liðu þar til farið var að kanna málin en fáeinir dagar eru frá því fjölmiðlar vestra greindu frá nafni hins bíræfna bílaþjófs.
Í það minnsta þá var, að því er virðist, eins konar slembilukka að upp um þjófinn komst. Það er að segja slembilukka hvað bílaleiguna snertir en þannig hefur Sullivan varla litið á málin.
Það var sem sagt vörustjóri hjá fyrirtækinu sem fór að kíkja á þessar upptökur úr öryggismyndavélinni þegar hann sá starfsmanninn unga haga sér undarlega. Og jú, þetta kom allt heim og saman: Bílunum hafði fækkað um sjö kvikindi.
Hvort Cameron Sullivan hafi verið einn í þessu lítt laumulega spili er ekki gott að segja en það á eftir að koma í ljós.
Rúmt ár er síðan starfsmaður Enterprise var ákærður fyrir þjófnað á 11 bílum af geymslusvæði bílaleigunnar á flugvellinum í Louisville í Kentucky. Sá þjófur tók sér líka tíu daga í verkið en bílarnir sem fyrr segir 11 talsins. Hvort málin tengist á einhvern hátt kemur ekki fram.
Þess má til „gamans“ geta að alþjóðaflugvöllurinn í Louisville er kenndur við sjálfan Muhammad Ali. Louisville er stærsta borgin í Kentucky og eru íbúar tæplega 800.000 talsins. Þannig er nefnilega að hnefaleikamaðurinn Muhammad Ali (eða Cassius Clay) var fæddur í Louisville. Borgin er einnig þekkt fyrir annað sem ef til vill stendur Íslendingum nær og það er KFC eða Kentucky Fried Chicken. En þetta var nú fróðleikur alveg ótengdur bílum. Eða svo gott sem ótengdur.
Umræður um þessa grein