Snjöll lausn á festingu aukaljósa
Nett „ljósagrind“ sem festist á bak við númerplötuna að framan
Þegar þessi árstími gengur í garð, með myrkir og stundum minna skyggni í misjöfnu veðri getur verið ágætt að vera með „aukaljós“ til að lýsa upp veginn fram undan, sérstaklega þegar verið er að aka fáfarnari vegi í sveitinni.
Skrifari hefur átt nokkra jeppa á lífsleiðinni, og nokkra þeirra með allgóðum ljóskösturum að framan, jafnvel með háum og lágum geisla.
En í dag er minna um „fjallaferðir“ og aðeins spurning um aðeins meira ljósmagn við vissar aðstæður.
En sá er munurinn á mörgum jeppum í dag að „stuðarar“ eru hættir að vera eins og áður, og oft er enginn brún til að festa aukaljós á.
Margir jeppaeigendur hafa gripið til þess ráðs að setja heilmiklar „ljósagrindur“ framan á bílana, sem kallar á heilmikla smíði og tilstand.
En eftir töluverða skoðun á netinu á valkostum aukaljósa var brugðið á það ráð að heimsækja AMG Aukaraf í Kópavogi, sem ég vissi frá fyrri tíð ættu stundum ráð undir rifi hverju.
Og það reyndist svo sannarlega rétt í þetta sinn.
Stefnan hafði verið sett á lítil ljós sem myndu ekki taka mikið pláss á bílnum en veita samt nægilegt ljósmagn.
Þá hófst valið. Öll ljósin á veggnum eru tengjanleg við straum þannig að það var auðvelt að skoða ljósmagn og ljósdreifingu þarna inni í búðinni
Fyrir valinu urðu nett ljós, hvort um sig með 3 LED-perum en gáfu gott ljósmagn. 5 tommu kastarar, 2 í setti á kr 15.900.
Snjöll kastaragrind
En þá kom spurningin um það hvernig best væri að festa þessi ljós á bílinn, en starfsmenn AMG Aukaraf voru með svarið á reiðum höndum.
Þeir drógu fram mjög netta „kastaragrind“ sem er þannig gerð að bakhlið hennar fer á bak við númerplötuna á bílnum, en lítil „þverslá“ nær aðeins fram fyrir númeraplötuna og þar eru aukaljósin fest.
Þessi snjalla lausn kostaði aðeins 9.900 kr.
Ökuljósin loks með gott ljósmagn
Bíllinn var fyrir með hefðbundin ljós með halogen-perum, sem í raun og veru voru ekki að gefa mikla birtu. En þegar þetta var rætt við starfsmennina, þá sögðust þeir geta lagfært þetta líka, sett í LED-perur sem myndu gefa meira og hvítara ljósmagn.
Að aðgerðinni lokinni var farið í „prufuakstur“ á ljóslausan veg um kvöldið og þá sást áþreifanlega hversu mikil breyting var á ljósmagni aðalljósanna, meiri og breiðari birta fram á veginn.
Þegar nýju litlu LED-ljóskösturunum var bætt við var gott ljósmagn á götunni framundan.
Aukaljósin eru þannig tengd að það er hægt að kveikja á þeim með aðeins stöðuljós kveikt, sem getur verið mjög gott í snjókomu og slyddu, því sterk hvít aðalljós lýsa um of upp hvítu snjókornin og mynda hreinlega „vegg“ fyrir framan bílinn.
Það skal tekið fram að þessi grein er skrifuð fyrir Bílablogg án aðkomu AMG Aukarafs
Umræður um þessa grein