Rafmagnssmábíll Sir Clive Sinclair var stórkostlega misheppnaður, en C5 var á undan sinni samtíð
Fréttir af andláti hins merka tæknifrumkvöðuls, Sir Clive Sinclair, fengu undirritaðan til að leiða hugann að litla rafbílnum sem hann reyndi fyrir sér með löngu áður en almenningur var tilbúinn fyrir svona farartæki.
Þetta litla rafdrifna farartæki, Sinclair C5, kom fram á sjónarsviðið árið 1985 með tilheyrandi athygli sem hefði örugglega hrifið þá fjórtán ára gamlan Elon Musk, en þetta hugarfóstur eins frægasta tæknifrumkvöðuls Bretlands missti fljótlega marks eftir frumsýninguna.
Tilkynnt var um andlát hins 81 árs Sir Clive Sinclair þann 16. september 2021, en Sir Clive var hampað á níunda áratugnum fyrir vasareiknivél sína, sem og fyrir hinar byltingarkenndu tölvur, ZX81 og ZX Spectrum.
Þessi forvígismaður á tæknisviðinu hafði mikinn áhuga á rafknúnum farartækjum og stofnaði hann Sinclair Vehicles árið 1983 eftir að hafa náð stórgóðum árangri í viðskiptum.
Sinclair C5
Fyrsti og eini framleiðslubíll fyrirtækisins var Sinclair C5, nýstárlegt þríhjól með pólýprópýlen húsi sem Lotus hannaði, framleiddur í Hoover þvottavélaverksmiðjunni í Merthyr Tidfil. C5 var hleypt af stokkunum með miklum látum í janúar 1985 í London, og sjá má á mynd hér efst í greininni, – en verkefnið náði bara aldrei flugi.
C5, knúinn 12 volta blýsýru rafhlöðu, var með 32 kílómetra aksturssvið – svo sem nóg til að koma fólki til og frá vinnu – en náði aðeins 25 km/klst hraða. Aðal gallinn var skortur á hverskonar veðurhlíf, en lág bygging og lág akstursstaða C5 höfðu auðvitað áhrif á ökumenn sem að auki voru berskjaldaðir fyrir aðsteðjandi hættum í umferðinni.
Málamiðlun á milli bíls og reiðhjóls
Til að sigrast á „kvíða“ vegna drægni ökutækisins á rafmagni – hugtaki sem ekki var til á þeim tíma – kom C5 með fótstigum líkt og pedalar reiðhjóls, og stýri C5 minnti sömuleiðis á stýri reiðhjóls. Sinclair lagði til C5 sem eins konar málamiðlun milli bíls og reiðhjóls, en hugmyndin reyndist óaðlaðandi, bæði fyrir notendur reiðhjóla og bíla.
Að lokum, í stað þess að hjálpa til við að móta umhverfið í samgöngum á Bretlandi, varð C5 fyrir aðkasti í fjölmiðlum og eiginlega að brandara á landsvísu. Gagnrýnendur og öryggissamtök töldu lágan rafmagnsbíllinn vera hættulegan og hann var umtalaður vegna fjölda bilana.
Sú staðreynd að enginn var bakkgírinn í C5 þýddi að ökumaður þurfti hreinlega að fara út, lyfta framendanum upp og til hliðar ef ætlunin var að komast út úr aðstæðum sem bakkgír hefði alla jafna komið mönnum úr.
Framleiðslu hætt eftir nokkra mánuði
Þó að Sinclair hafi í bjartsýni ætlað sér að koma með fjölda rafbíla á markað, þar á meðal stærri gerð af C5 með getu til að komast allt að 130 km á hleðlsunni, var framleiðslu C5 hætt fáeinum mánuðum eftir að hún hófst. Og fyrirtækið lokaði.
Í dag eru það einkum safnarar og sagnfræðingar sem hafa mikinn áhuga á Sinclair C5, en bíllinn og framsýnn uppfinningamaður hans Sir Clive eru mikilvægur kafli í hraðri þróun rafbíla.
Sló í gegn með Sinclair Spectrum smátölvunni
Þótt rafbílaframleiðslan hafi ekki gengið vel hjá Sir Clive, þá varð hann heimsfrægur og efnaður, á því að koma fram með fyrstu alvöru „heimilistölvuna“ ZX Spectrum.
ZX Spectrum var 8 bita lítil og nett heimilistölva þróuð af Sinclair Research. Hún kom fyrst á markað í Bretlandi 23. apríl 1982 og varð í framhaldinu söluhæsta tölva Bretlands.
Meðan á þróun stóð var uppfinningin kölluð ZX81 Colour og ZX82. Tölvunni var hleypt af stokkunum sem ZX Spectrum til að leggja áherslu á litaskjá vélarinnar, samanborið við svarthvítan skjá forverans, ZX81. Spectrum kom í átta mismunandi gerðum, allt frá grunngerð með 16 KB vinnsluminni sem kom árið 1982 til ZX Spectrum +3 með 128 KB vinnsluminni og innbyggðu disklingadrifi árið 1987; alls seldust þessar tölvur í yfir 5 milljónum eininga um allan heim (að ótöldum óopinberum klónum af vélinni).
Það er þeim sem þetta skrifar minnisstætt þegar svona tölva var dregin upp úr handtöskunni eftir vinnuferð til Englands, og strákurinn minn fékk þetta undratæki í hendur. En þetta hefur eflaust haft sitt að segja því hann vinnur mest við tölvur enn þann dag í dag.
Spectrum var meðal fyrstu heimilistölva í Bretlandi sem ætluð var almennum notendum, svipað og Commodore 64 í Bandaríkjunum eða MO5 í Frakklandi.
Innleiðing ZX Spectrum leiddi til mikillar uppsveiflu hjá fyrirtækjum sem framleiddu hugbúnað og vélbúnað fyrir vélina en áhrifin sjást enn. Sumir telja það vélina sem setti af stað breskan upplýsingatækniiðnað. Framleiðsla samkvæmt leyfi og klón fylgdu í kjölfarið og var Clive Sinclair sleginn til riddara fyrir þjónustu við breskan iðnað í kjölfarið.
Umræður um þessa grein