Haldi þessi þróun áfram gæti endað með því að Norðmenn breyti nafni höfuðborgarinnar í Tesló í stað Osló. Þannig er að árið 2021 var slegið met, því fleiri bílar hafa ekki selst á einu ári í Noregi síðan 1986. Tesla var mest seldi bíllinn 2021.
Það er kannski frekar sniðugt að brúka „norska oljepenger“ til að kaupa rafbíla. Það gera Norðmenn alla vega svo um munar.
Nú kunna einhverjir að spyrja af hverju hér sé heil grein um norskan rafbílamarkað. Heil grein sem tekur nú sitt pláss á Internetinu. Jú, fyrir því er góð og gild ástæða: Engin þjóð í heiminum hefur farið jafnhressilega yfir í rafbíla eins og einmitt sú norska.
Ekki vorum við nálægt því eins fljót að taka við okkur, þótt býsna snögg séum, svona á heimsmælikvarða.
En hvað um það! Hér er ætlunin að ræða um orkugjafa: Metan, vetni og jú, auðvitað rafmagn. Þetta er það sem málið snýst um.
Sala á rafbílum í Noregi jókst um 48% á síðasta ári og eins og áður kom fram er það Tesla sem þar er í broddi fylkingar, með 11,6% markaðshlutdeild – ekki bara í flokki rafbíla. Það er ekkert smá! Þar á eftir kemur VW með 9,4% markaðshlutdeild.
1986 og 2021
1986 var erfitt ár. Þá var ég nefnilega ekki komin með bílpróf. Það hefur að hluta til eitthvað með það að gera að ég var stóran hluta ársins fjögurra ára að verða fimm. Mjög erfitt og ekki ætla ég að koma mér aftur í sambærilega stöðu.
Það var einmitt árið 1986 sem síðast seldust svona gasalega margir nýir bílar í Noregi. Auðvitað ekki rafbílar (fjarstýrðu bílarnir teljast ekki með) en engu að síður þá var þetta magnað ár í norskri bílasölusögu. 167.352 bílar voru nýskráðir á því herrans ári. Og 2021, 176.276 bílar.
Stöldrum aðeins við þessar stórmerku staðreyndir:
1986 voru Norðmenn 4.170.000 talsins.
2021 voru Norðmenn 5.460.000 talsins.
1986 voru 167.352 bílar nýskráðir.
2021 voru 176.276 bílar nýskráðir.
Þetta 35 ára gamla met var slegið með 8.924 bílum til viðbótar (tæplega 1.300.000 Norðmanna keyptu innan við 10.000 fleiri bíla).
Nú er þörf á einhverri stúdíu sem nota mætti til að varpa fram eitursnjallri staðhæfingu um þessar tölur. Ekki verður það gert hér og nú. Hvað sem því líður er óhætt að segja að þetta eru áhugaverðar tölur og best að fara í snatri úr tölum í Teslur. En fyrst þetta:
Þeir sem vilja rýna betur í líkindin og „ólíkindin“ 1986/2021 geta skoðað þessa grein hér og æft sig í norsku í leiðinni.
Tíu mest seldu bíltegundirnar 2021:?
Tíu mest seldu gerðir tegundan 2021:?
Eins og talnaglöggir hafa sennilega áttað sig á þá er heildarfjöldi nýskráðra Tesla 2021 yfir 20.000 bílar. Eða nákvæmlega 20.325. Næst kemur Toyota RAV4 með tæpa 9.000 bíla. Það kemur blaðamanni „spánskt“ fyrir sjónir að á þessum tíu bíla lista er Suður-Kóreubíla ekki að sjá. Hvorki Hyundai né Kia eru þar en sannalrlega eru þær tegundir á listanum: Bara ekki í fyrstu 10 sætunum.
Fjórhjóladrif virðist vinsælli kostur
Á einum áratug hefur mun fleira breyst en gerðir orkugjafa í samgöngum: Í Noregi, árið 2011, voru 26.4% nýskráðra einkabíla fjórhjóladrifsbílar. Áratug síðar, var hlutfallið komið upp í 54.4%.
Á milli áranna 2020 og 2021 jókst hlutfall fjórhjóladrifinna rafbíla um 33.9%.
Margt hefur áhrif á núll-losunar breytuna (zero-emission)
Ef allir bílar á Íslandi sem knúnir eru brunahreyflum yrðu látnir hverfa „einn-tveir-og-þrír“ og í staðinn kæmu ökutæki sem eingöngu væru knúin endurnýjanlegum orkugjöfum þá er nú nokkuð ljóst að það þarf æði góðan galdrakarl til að láta heilan bílaflota hverfa. Það gerist ekki á einni nóttu.
Meðalaldur bíla sem fara til niðurrifs í Noregi um 20 ár
Meðalaldur einkabíla í Noregi er 10.5 ár. Meðalaldur bíla sem fara til niðurrifs, eða „í pressuna“ eins og það var kallað fyrir tíma almennrar umhverfisvitundar, er um 20 ár í Noregi. Sé tekið mið af þessum breytum (meðalaldri bíla í notkun, meðalaldri bíla sem fara á fund feðra sinna og svo fjölgun rafbíla í bílaflota landsmanna) þá virðast í það minnsta einhver ár uns flotinn kemur til með að samanstanda einvörðungu af núlllosandi (zero-emission) ökutækjum.
Hér eru reiknivélarnar góðu hjá Statistisk sentralbyrå.
Að mörgu er að huga og eitt og annað sem ráða má af tölunum. Líka þeim norsku.
Tengt efni:
Rafbílar og frost: Niðurstöður tilraunar VW
Hvað verður um rafhlöður úr rafbílum?
Alvöru vetrarpróf rafbíla í Noregi
Hefur þú, lesandi góður, áhuga á að leggja orð í belg? Skapa umræður, láta ljós þitt skína eða hella úr skálum reiði þinnar? Eigi það síðastnefnda við er rétt að minna á að kurteisi hefur oftast nær mælst vel fyrir.
Hér er hlekkur á Facebooksíðuna okkar sem er prýðilegur vettvangur til skoðanaskipta.
Umræður um þessa grein