Já, það getur verið erfitt að bíða eftir Tesla Cybertruck, enda hefur framleiðsla dregist allnokkuð. Nú er sagt að bíllinn fari í fjöldaframleiðslu árið 2023 en það er langt þangað til.
Ég er búin að kaupa einn. Hann festist í bréfalúgunni. Það er sjaldnast góð byrjun þegar það fyrsta sem nýi bíllinn gerir er einmitt að festast. En hvað um það. Ég er ekki sú eina sem á erfitt með að bíða.
Tesla-klúbburinn í Kísildal (Silicon Valley) gat ekki hamið sig og skar út Cybertruck í grasker. En það eru nú fleiri grasker sem orðið hafa að bílum, t.d. í ævintýrum á borð við Öskubusku. Held ég.
Svo var það einhver óþolinmóður sem reyndi að „baka“ sér Cybertruck. Þeir sem eru á þeirri skoðun að bíllinn sé ljótur ættu að fagna þessum bakstri því eflaust þykir mörgum útkoman taka útliti bílsins sjálfs fram.
Börn „klæddu sig upp“ sem Cybertruck á hryllingsdeginum er hrekkkjavaka nefnist. Hvort þau hræddu marga í búningunum veit maður ekki.
Segja einhverjir, kannski beturvitar, ég veit ekki betur, að best sé að panta Cybertruck sem fyrst því nú þegar hafi 1,2 milljónir slíkra bíla verið pantaðar og verðið hafi hækkað um 4000 dollara frá áramótum.
En biðin, tjah, hún verður löng hvort sem fólk pantar núna eða fyrir löngu. Lifi maður ekki þann dag að aka Cybertruck í fullri stærð þá á ég alla vega mitt eintak sem ég losaði úr bréfalúgunni um daginn.
Ljúkum þessari grein á myndbandi manns sem bjó til sinn eigin fjarstýrða Cybertruck. Segið svo ekki að Cybertruck-fólkið nýti ekki sköpunarkraftinn á meðan beðið er!
Umræður um þessa grein