Hér er stutt saga sem ágætt er að hafa í huga þegar ekið er í vinnuna. Einkum og sér í lagi ef maður ekur framhjá vinnufélögum sem fara á tveimur jafnfljótum til vinnu.
Á erlendum umræðuþræði um „vandræðalegheit“ rakst ég á litla bílasögu sem mér þótti ágæt. Hún kallar alla vega fram bros og það er alltaf til bóta. Hér er sagan:
„Á hverjum virkum degi, ár eftir ár, hafði móðursystir mín farið fótgangandi til vinnu. Þetta var svona tveggja kílómetra ganga og lá gangstígurinn að hluta meðfram aðalgötunni. Á hverjum degi fór það í taugarnar á frænku minni að yfirmaður hennar af skrifstofunni skyldi aka framhjá og við hlið hans, í farþegasætinu, sat einkaritarinn.
Móðursystir mín þekkti yfirmanninn svo sem ekki mikið og því kannski ekkert undarlegt að hann byði henni aldrei far. Þó svo að einkaritarinn fengi að sitja í var auðvitað ekkert sjálfgefið að það sama ætti við um starfsmann af skrifstofunni.
Svo gerðist það dag nokkurn þegar frænka var á leið til vinnu að yfirmaðurinn ók framhjá en stöðvaði bílinn rétt hjá henni. Mikið sem hún frænka mín varð glöð og þakklát. Hún flýtti sér að bílnum og hljóp hálfpartinn, opnaði dyrnar og settist aftur í. Móð og másandi náði frænka að blása út úr sér þökkum fyrir hugulsemina.
Jæja, þegar hún hafði náð andanum áttaði hún sig á að eitthvað væri nú undarlegt við þetta allt því bíllinn fór ekki af stað. Ráðvillt leit hún í kring um sig og sá þá, fullseint í minningunni alla vega, að vegna framkvæmda hafði umferðarljósum verið komið upp til bráðabirgða.
Yfirmaðurinn hafði einfaldlega stoppað á rauðu ljósi!
Ekkert þeirra þriggja (í bílnum var jú yfirmaðurinn, einkaritarinn og frænka mín) sagði aukatekið orð í bílnum. Aldrei nokkurn tíma var minnst á þetta „atvik“ á skrifstofunni. Og aldrei fékk móðursystir mín far aftur hjá yfirmanninum!
Nú eru nokkur ár liðin frá þessu „atviki“ eins og við í fjölskyldunni köllum þetta og frænka gamla fer alveg í keng ef einhver minnist á það; þegar hún fékk far í vinnuna.“
Fleira í svipuðum dúr:
Forsetar Íslands og puttalingar
Rúmeninn sem táraðist vegna Dacia
Ekki þiggja far með þessum! – Íslensk bílalög
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein