Maður þarf auðvitað ekki að skilja allt, sem betur fer! Stundum vekur eitthvað mikla lukku úti í hinum stóra heimi og svo situr einhver hér á Íslandi og botnar ekki neitt í neinu. Dæmi um það gæti verið nýjungin sem hugbúnaðaruppfærsla 11.0 frá Tesla færir heiminum: Tesla Light Show.
Mikil kappsemi og sköpunargleði virðist ríkja meðal hinna ýmsu sérfræðinga sem starfa hjá Tesla og er algjörlega dásamlegt að fjöldi fólks fái að láta ljós sitt skína í vinnunni.
Ljósasýningin sem hér er vísað til fylgir hugbúnaðaruppfæslu rafbílaframleiðandans sem kom nú um jólin.
Í stuttu máli gengur hún út á að hver og einn getur virkjað danshöfundinn innra með sér og búið til ljósasýningu með ljósabúnaði bílsins og fylgir sýningin tónlist . Ekki er nauðsynlegt að eiga Teslu til eiga kost á þessu heldur er aðgangur að tölvu það eina sem þarf.
Það er eiginlega óskaplega bjánalegt að reyna að „lýsa“ þessu með orðum þannig að eina vitið er að birta myndbandið sem segir sína sögu.
Jæja, já, þetta er sem sagt eitthvað sem hægt er að búa til í tölvunni, gera sér svo lítið fyrir og laumast út í bíl með USB-kubb (helst þegar tekið er að skyggja) og innan skamms getur sýning hafist.
Gleðitár á hvarmi
Hvað svo sem manni kann nú að finnast um þessa viðbót þá fer ekkert á milli mála að margir eru yfir sig hrifnir og hafa skrifað kveðjur og þakkir á Twitter og í athugasemdakerfi við myndbandið á YouTube.
Eitt dæmi er athugasemd á YouTube frá manni nokkrum sem skrifar (þýðing undirritaðrar):
„Hvílík jólagjöf! Gjöfin í ár færði fjölskyldunni mikla gleði. Bíllinn okkar er blessun í víðari skilningi en ég fæ með orðum lýst, og þessi litlu ógleymanlegu atriði eru aðeins brot af þeirri miklu blessun! Þakka ykkur innilega fyrir það mikla og góða starf sem þið hafið unnið!“
Og fleiri þúsund athugasemdir eru í svipuðum dúr. Hvort sem gagnið er mikið eða lítið er ljóst að Tesla Light Show hefur glatt margan manninn.
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein