Það eru engar ýkjur að hægt sé að kaupa ótrúlegustu hluti á vefnum Alibaba. Þar er mikið úrval farartækja en þó ekki þar með sagt að um sé að ræða gripi sem eru löglegir á götunum hér á landi. Mörg þessara farartækja eru flott á myndunum og önnur sprenghlægileg!
Ég rakst á grein á vefnum Electrek þar sem blaðamaður fjallar um nýjan bíl sem lítur út eins og bílar gerðu í kringum 1920 og jú, það er rétt að á myndunum er hann nokkuð flottur og minnir á eitthvað úr fjarlægri fortíð! Bílinn má kaupa á vefnum Alibaba og er ökutækið framleitt í Kína.
?
Reyndar hefur blaðamaðurinn, sem skrifaði um bílinn sem hér er til umfjöllunar, sjálfur keypt rafbíl gegnum vefinn Alibaba og það var nú aldeilis skrautlegt ferli og útkoman úr því sprenghlægileg. Auk þess sem vel smurðist ofan á kaupverðið en blaðamaðurinn er búsettur í Bandaríkjunum og var ekki ókeypis að fá bílinn þangað og heim að húsi. Það kostaði nokkur þúsund dollara og auðvitað hin ýmsu gjöld og skattar sem hlóðust upp.
Þrátt fyrir allt sem klikkaði í þeim viðskiptum hefur hann enn mikinn áhuga á ökutækjunum sem hægt er að kaupa á Alibaba og skrifar um þau í hverri viku. En hann virðist láta það alveg eiga sig að kaupa það sem hann finnur. Kannski er hann að safna sér fyrir næsta ævintýri.
Fínn í Laugardalinn?
Tíu þúsund dollara kostar þessi drossía en það er nú eitt sem gerir þennan rafbíl að vonlausu farartæki (ef rétt reynist): Hann kemst ekki hraðar en 30. Þrjátíu km/klst er ekki alveg nógu hressandi nema kannski innanhúss… Nei, þetta gæti verið misskilningur þ.e. að upplýsingar framleiðanda hafi ekki skilað sér.
Átta klukkustundir tekur að hlaða bílinn að fullu og þá kemst hann alveg 80 kílómetra… Nei, þetta er glatað! Hann er flottur en vitavonlaus til almenns brúks. Væri flottur í sparirúnt um Laugardalsgarðinn eða eitthvað alveg sérstakt. Er það kannski hugmynd?
Umræður um þessa grein