Kjarnorkubílar
Árið 1957 kynntu Ford-verksmiðjurnar hugmyndabílinn Nucleon, sem átti að ganga fyrir kjarnorku. Fyrir aftan tveggja manna farþegarými var pallur með kjarnakljúfi, en í miðju hans var hleðsluhólf fyrir úraníumstöng og átti bíllinn að geta keyrt 8000 km á hverri hleðslu. Lofað var fullkomnu afli og að akstrinum fylgdi enginn hávaði né mengandi útblástur.
Vandamálið við bílinn var hins vegar gríðarlegur geislaskjöldur sem þurfti að vera umhverfis kjarnakljúfinn, en efnisþykkt hans og þyngd hefði orðið bílnum ofviða. Auk þess þótti hugmyndin um keyrandi kjarnorkusprengju ekki beint álitleg á tímum kalda stríðsins. Nucleon-bíllinn varð því á endanum einungis spennandi hugmynd og huggulegt líkan af bíl sem varðveitt er á ljósmyndum.
Fyrir nokkrum árum endurvakti bandaríski uppfinningamaðurinn Charles Stevens hugmyndina um kjarnorkubílinn þegar hann varpaði fram hugmynd um bíl með kjarnakljúfi sem framleitt gæti nægilegan hita til að sjóða vatn. Við það framkallaðist gufa undir háþrýstingi sem knúið gæti túrbínu til framleiðslu á rafmagni sem síðan yrði notað til knýja bílinn.
Hitinn yrði til við hæga sundrun þungmálmsins þóríum, sem er margfalt minna geislavirkur en úraníum.
Efnahvörfin eru svo hæg og undir svo góðri stjórn að engin hætta er á sprengingu eða bráðnum og einföld álfilma er næg vörn gegn geisluninni. Að grunni til er hugsunin sú sama og í Ford Nucleon og í raun sú sama og á sér stað í kjarnorkuverum.
Þóríumvélin getur framleitt 250 kílówött og er einungis 225 kg að þyngd og hentar því vel í bíla.
Eitt gramm af þóríum getur framleitt álíka mikla orku og 28.000 lítrar af bensíni. Ef vélin væri afhent með átta grömmum af þóríum er ólíklegt að það þyrfti nokkurn tímann að fylla á hana aftur. Hitagjafinn, sem er einskonar leisergeisli, endist í u.þ.b. 5000 klukkustundir, eða um 500.000 km á þjóðvegahraða.
Þó að álfilma sé í rauninni nægjanleg vörn gegn geislun er kjarnakljúfur þóríumvélarinnar einangraður með sjö sentimetra plötu úr ryðfríu stáli og sem slíkur hefur hann verið höggprófaður og á að þola harðan árekstur.
Enn er hönnun þessarar vélar ekki að fullu lokið þar sem ekki hefur tekist að samhæfa kjarnakljúfinn og túrbínuna.
Verkefnið kallar á umtalsvert fjármagn, sem því miður hefur ekki legið á lausu, þannig að hönnuðurinn Stevens telur að enn séu nokkur ár eða áratugir í að kjarnorkuvélin hans verði fjöldaframleidd fyrir bíla. Hafi Nucleon-bíllinn frá Ford valdið samtíðarmönnum sínum martröðum, gæti þóríum-bíllinn hans Stevens verið bjartur framtíðardraumur nútímamannsins.
Hugmyndin að Nucleon-bílnum var sett fram af verkfræðingum Ford árið 1957. Hönnuðir fyrirtækisins fengu það hlutverk að búa til fallega umgjörð um verkefnið og það tókst þeim með miklum ágætum. Með nýja úraníumstöng í kjarnakljúfnum gat Nucleon keyrt 8000 km fram að næstu hleðslu.
Afturhluti Nucleon-bílsins er einskonar pallur þar sem kjarnakljúfurinn er geymdur. Sökum þess hversu geislavirkt úraníum er hefði bíllinn þurft gríðarlega þykkan hlífðarskjöld utan um kjarnakljúfinn og sennilega hefði þyngd hans orðið bílnum ofviða.
Þóríum-bíll Charles Stevens hleypti lífi í gömlu Nucleon-hugmyndina á 21. öld, en í stað hins afar geislavirka úraníums notar nýi bíllinn þóríum, sem er nær skaðlaust. Orkugetan er engu að síður gríðarleg, en á þessum bíl má keyra í 5000 klukkustundir á einni hleðslu, en það samsvarar til 500.000 km aksturs. Ef þóríum-bíllinn verður að veruleika má hæglega líta á hann sem einskonar eilífðarvél, enda ekki margir sem geta keyrt sama bílinn yfir hálfa milljón kílómetra.
Umræður um þessa grein