Hvað er við hæfi á hleðslustöðinni?
Á rafbílasíðu á Facebook vísaði einhver til kurteisisvenja á hleðslustöðvum. Það er sniðugt að skoða þessi mál aðeins, enda ómögulegt að frumskógarlögmálið ríki þegar allir eru að reyna að gera jarðarkúluna að betri stað til að búa á.
Vísað var á samantekt Rafbílasambands Íslands þar sem ýmsir góðir punktar eru um kurteisi á hleðslustöðvum en hér eru þeir í útsetningu undirritaðrar og fleiri punktar til. Gott er að hafa þetta í huga gott fólk.
Minnist ég þess þegar ég var einhverju sinni að prófa rafbíl og ætlaði að prófa hraðhleðslustöð í fyrsta skipti. Þá áttaði ég mig á að ég hefði misskilið eiithvað: Þetta snérist um að koma sér sem hraðast að stöðinni – á undan þeim sem er að bakka upp að græjunni. Nei, þetta var „rangur misskilningur“ og það var dóni sem tróð sér framfyrir mig. Það var lærdómsríkt því ekki vil ég koma svona fram sjálf.
Hleðslustæði er ekki bílastæði
Ef fólk á of marga vini og enga óvini en langar til að eignast óvini þá er ein góð leið að leggja í hleðslustæði.
Ef annar bíður
Það er ágæt þumalfingursregla að hlaða ekki meira en upp að 80% ef annar bíður.
Ef farið er frá meðan hlaðið er
Þá er sniðugt, að því er Rafbílasambandið leggur til, að vera ekki lengur en 20 mínútur í burtu. Nú ef sá gállinn er á mönnum þá er hægt að skilja eftir miða með símanúmerinu (ef fólk er ekki of „prívat“) í framrúðunni.
Ef hleðslustöðin er við verslun eða verslunarmiðstöð og farið er inn að versla á meðan hlaðið er, þá er þjóðráð að fylgjast með og gleyma sér ekki inni í því ginnungagapi sem verslanir geta verið.
Að taka annarra manna bíl úr sambandi
Hér vísar undirrituð beint í orð Rafbílasambandsins en þar segir:
„Þegar þú kemur að hleðslustöð í notkun: ef einhver er í bílnum má spyrja, hversu lengi heldur þú að þú verðir í viðbót. Ef enginn er í bílnum og hann kominn í 80% má taka úr sambandi ef hægt er (sumar stöðvar og bílar bjóða ekki upp á það) og stinga þínum í samband.“
Úff, ég veit ekki með þetta en ég á öngvan rafbíl svo það er annarra að svara því hvort þetta sé „almenna“ reglan. Endilega látið ljós ykkar skína og fræðið okkur sem ekki þekkjum til. Er þetta gert?
Í hollráðum á erlendri síðu er eitt af fimm hleðsluboðorðum að taka bíl náungans EKKI úr sambandi. Það er því ekki undarlegt að maður sé dálítið óviss!
Enn vísa ég beint í orð Rafbílasambandsins:
„Skildu eftir opið port til að hægt sé að stinga þínum í samband þegar hinn klárar.
Ef þú ert að bíða eftir að næsti bíll á undan sé búinn að hlaða ferð þú ekki langt frá bílnum. Þú ferð ekki inn í IKEA á meðan, þú þarft að fylgjast með til að geta stungið í samband þegar röðin er komin að þér. Undantekning frá þessari reglu er að skilja eftir opið hleðsluportið og semja við hinn sem er að hlaða um að stinga í samband þegar hann er búinn.“
Höfum í huga að þetta var skrifað árið 2017 og kannski hefur eitthvað breyst. Persónulega myndi ég ekki þora að fikta í annarra manna bílum án þess að fá leyfi en kannski er þetta bara nákvæmlega svona sem kaupin ganga fyrir sig á eyrinni. Og á hleðslustöðinni.
Rafbílar í forgangi
Það má sannarlega færa rök fyrir því að rafbílar ættu að hafa forgang fram yfir tengitvinnbíla á hleðslustöðvum.
Forðist að hraðhlaða kalt batterí
„Kalt batterí hraðhleður mun hægar en batterí við kjörhita, því getur verið betra að hlaða í lok ferðar heldur en í byrjun heimferðar,“ segir Rafbílasamband Íslands en hollráð við hleðslu er sömuleiðis að finna á síðu sambandsins.
Þessu tengt:
Hvað verður um rafhlöður úr rafbílum?
Hversu lengi ætti rafhlaða rafbíls að endast?
Framleiðsluspár um rafhlöður fyrir rafbíla í nánustu framtíð
Endilega komið með hugmyndir og athugasemdir á Facebooksíðu Bílabloggs við þessa grein ef þið eruð í stuði. Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein