Nítján ára piltur í Flórída mun hafa kortlagt flugferðir einkaþotu Elon Musk, stofnanda og forstjóra Tesla. Upplýsingarnar, sem eru í sjálfu sér opinberar, hefur pilturinn m.a. deilt á Twitter og nú er svo komið að Musk hefur að sögn piltsins boðið honum fúlgur fjár fyrir að hætta þessu.
Hinn 19 ára gamli Jack Sweeney er virkilega áhugasamur um allt sem viðkemur flugi, Tesla og geimferðum. Hann fylgist með hverri hreyfingu einkaþotunnar, og þar með forstjórans, birtir og uppfærir stöðugt á Twitter.
Segir á vefnum Protocol.com að Musk sé farinn að óttast um eigið öryggi.
Margir notendur Twitter hafa lýst yfir andúð á athöfnum Sweeney, taka undir með Musk (að því gefnu að rétt sé eftir honum haft) og segja að þetta nái nú langt út fyrir öll velsæmismörk og að drengurinn hafi jafnvel enga sómakennd.
Þó svo að upplýsingarnar um flugferðirnar séu ekki leynilegar þá er málum þannig háttað að í sumum tilvikum þarf að hafa nokkuð fyrir því að fylgjast nákvæmlega með sumu sem flýgur þarna uppi. Og stráksi kann á þetta.
Elon Musk virðist ekki skemmt og hefur hann boðið drengnum, að sögn Sweeney sjálfs, þúsundir dollara fyrir að hætta að „elta“ sig. Segir í fréttum hér og þar, sem og á síðu Jack Sweeney að Musk hafi boðið honum 5.000 dollara (663.000 kr) gegn því að hann eyddi Twitterdraslinu um ferðir hans en Sweeney fannst það greinilega svínslega lágt boð frá ríkasta manni heims.
Sweeney gerði honum „gagntilboð“ upp á 50.000 dollara (6.6 milljónir króna) og að segir hann að Musk sé að hugsa málið.
Nokkuð margir virðast hvetja piltinn til að halda áfram sinni iðju eins og sjá má af fáeinum skjáskotum sem hér fá að fylgja
Stoltur af uppátækinu
Fyrir nokkrum klukkustundum hvatti Sweeney alla til að fylgjast með kvöldfréttatíma Fox í Orlando þar sem hann sagði að málið yrði tekið fyrir.
Annars er það helst af Musk að frétta að hann hefur verið á rúntinum á Cybertruck að undanförnu og er hreint ekki ósáttur við sköpunarverkið
Umræður um þessa grein