Það var búið að tilkynna íbúum við Huntley Street í Darlington með góðum fyrirvara að þann 10. maí yrði gatan malbikuð og voru skilti hér og þar með þeim upplýsingum. Íbúar áttu að færa bílana sína til að framkvæmdir gætu hafist. Og það gerðu íbúar. Allir nema einn. Einn BMW var ekki færður og hvað þá?
Það sem maður hefði giskað á væri að bíllinn yrði dreginn í burtu eða eitthvað í þá veru en nei, ekki í þessu tilviki. Það var einfaldlega mabikað í kringum bílinn. Að því er fram kemur í breskum fjölmiðlum (sem kjamsað hafa vel og jórtrað á málinu eins og klaufdýrum er tamt) þá var ítrekað reynt að hafa uppi á eiganda bílsins. Meira að segja var auglýst eftir honum á samfélagsmiðlum. En allt kom fyrir ekki.
Þessi snotri BMW hafði verið á sama stað í tvær vikur áður en til framkvæmda kom og að því gefnu að eigandinn sé ekki á ferðalagi, spítala eða hreinlega hrokkinn upp af standinum hefði hann vissulega átt að bregðast við. Það er þó sannarlega öllu erfiðara ef hann er „farinn í aðra vist“ eins og einhvers staðar segir.
Hvernig er það annars þarna í Bretaveldi; er engin ökutækjaskrá sem hægt er að fletta upp í?
Reiðir Bretar eru ekki skemmtilegir
Mikil reiði er í mörgum, jafnvel fólki sem býr alls ekkert við þessa götu. Ekki einu sinni í sama landshluta. Ummæli á borð við: „Hah! Það hefði nú verið mátulegt á kauða ef malbikað hefði verið yfir bílinn hans.“ Hvernig það hefði átt að fara fram fylgir ekki en svona getur reitt fólk skort allt umburðarlyndi, rökhugsun og kímnigáfu. Svo ekki sé minnst á hvað það er nú déskoti leiðinlegt!
Enn aðrir hafa bent á að téður bíleigandi muni með tómlæti sínu kosta skattgreiðendur fleiri skildinga en ella því „auðvitað þarf að malbika þetta aftur,“ skrifaði einn á umræðuþráð sem hið götu- og sorptunnuspyrta vefrit Mirror vísar í.
Það besta
Ástæða þess að bíllinn var ekki dreginn burt er einfaldlega sú að ekki var heimild til þess þar sem þessi bílastæði eru hvorki í einkaeigu né gjaldskyld, segir í öðrum mistækum breskum vefmiðli.
Það góða í þessu öllu saman, og raunar það besta, er að BMW-inn virðist hafa sloppið vel. Ekki er að sjá malbiksklessur á honum og fyrir hönd BMW-fólks segi ég: „Það er nú fyrir öllu.“
Fleira sem fólk hefur miklar skoðanir á en veit kannski minna um:
Skrapp á bílnum í skólann og allt varð vitlaust
Engin viðbrögð? Bíll rennur út í á
Bölvað bras að setja bensín á Tesluna
??Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein