Góð aukning í sölu milli ára hjá BL
Afköst í afhendingum framleiðenda smám saman að aukast
Bílasala virðist vera að taka ágætlega við sér, ef horft er til sama tíma á síðasta ári. Þetta má sjá í þeim tölum sem BL var að senda frá sér um stöðuna þar á bæ. Salan hefur aukist og eins eru merki um betri stöðu meðal bílaframleiðenda á tímum covid og vandræðum vegna framboðs á íhlutum, svo sem tölvukubbum og hálfleiðurum.
Nýskráðir á landinu voru 1.217 fólks- og sendibílar í september, 11,5% fleiri en í sama mánuði 2020, og voru 265 af merkjum BL sem er 21,6% aukning milli ára.
Var markaðshlutdeild fyrirtækisins tæp 21,8% í mánuðinum. Frá BL voru 173 nýskráðir einstaklingum og fyrirtækjum og 92 til bílaleiga.
Hyundai var jafnframt lang söluhæsta merki fyrirtækisins í september með 142 nýskráningar.
Bíltegundir frá BL voru jafnframt fyrirferðarmestar í innkaupum bílaleiganna í nýliðnum mánuði með 43,6% hlutdeild og á meðal nýskráninga bílaleiganna voru meðal annarra 66 Hyundai og 15 Nissan.
Þess má geta að fyrir septemberlok hóf BL sölu á nýrri kynslóð Nissan Qashqai og hinum nýja og rafknúna Hyundai Ioniq 5 og voru alls 25 bílar af þeim gerðum afhentir eigendum fyrir mánaðamót.
Næst söluhæsta merki BL í september var Nissan með alls 53 bíla og BMW og Renault í þriðja sæti með nítján bíla hvort merki.
Það sem af er árinu hafa 2.334 bílar af merkjum BL verið nýskráðir og nemur aukningin 35,8% milli ára. Hjá BL gætir loks orðið nokkuð aukinna afkasta í afhendingum nýrra bíla frá framleiðendum sem BL hefur umboð fyrir samfara aukinni framleiðslugetu íhlutaframleiðenda sem hamlað hefur mjög starfsemi söluaðila nýrra bíla undanfarin misseri.
Ekki er þó búist við að full afköst náist fyrr en á næsta ári. Auk áðurnefndra frumsýninga á nýjum Qashqai og Ioniq 5 var frumsýning í þessum mánuði á nýjum bíl frá Renault; Arkana. Rafbíllinn Marvel R frá MG verður frumsýndur þann 23. október og síðast en ekki síst verður nýr rafbíll frá BMW, iX, frumsýndur þann 30. október.
Markaðshlutdeild BL það sem af er árinu nemur tæpum 22 prósentum.
Umræður um þessa grein