Glæsilegt nýtt húsnæði Mercedes-Benz
Öll starfsemi Öskju að Krókhálsi hefur tekið miklum breytingum
Bílaumboðið Askja hefur um árabil verið með sína starfsemi við Krókhálsinn, því að Krókhálsi 11 er sala og þjónusta Mercedes-Benz fólks- og atvinnubifreiða. Sýningarsalur, sala varahluta, fólksbílaverkstæði, sendibílaverkstæði og vöru- og hópferðabílaverkstæði.
Að Krókhálsi 13 er sala og þjónusta Kia og Honda fólksbifreiða. Sýningarsalir, fólksbílaverkstæði, hraðþjónusta, aukahlutir og loks við Krókháls 7 er sala notaðra bíla.
En þessa dagana er verið að ljúka umfangsmiklum breytingum á aðalstöðvunum við Krókháls 11, og af því tilefni var rafmögnuð stemning þar á dögunum þar sem haldin var sérstök EQ-sýning.
Þar var rafmögnuð vörulína EQ til sýnis og er sýningin hluti af opnun á nýjum og glæsilegum sýningarsal Mercedes-Benz sem hefur verið hannaður samkvæmt nýjustu stöðlum framleiðandans.
Bílarnir í sýningarsalnum voru allir í silfruðu litaþema sem tileinkað er hinum goðsagnakennda Silver Arrow kappakstursbíls, en saga litarins á rætur sínar að rekja allt til ársins 1934 sem er talið marka upphafið af vinsældum silfurlitar í bílaframleiðslu.
Umfangsmiklar breytingar
Í tilefni af þessum tímamótum var bílablaðamönnum boðið í heimsókn í Öskju í liðinni viku, þar sem fulltrúar allra söludeilda og markaðsfólk sýndi okkur húsið, og fór yfir þær helstu breytingar sem gerðar hafa verið á fyrirtækinu.
Breytingarnar eru umfangsmiklar, því segja má að allir starfsmenn fyrirtækisins hafa þurft að skipta um starfstöð á þessum fjórum árum sem breytingarnar hafa staðið yfir.
Sýningarsalir hafa verið aðlagaðir að nýjum tíma, heilu deildirnar, svo sem verkstæði hafa verið fluttar á milli húsa.
Þótt allt breytingarferlið sé ekki yfirstaðið vakti það athygli hve snyrtimennska er mikil og vinnuaðstaða allra er góð.
Enn er verið að vinna að breytingum á efri hæð hússins, þannig að þegar upp er staðið má segja að Askja hafi algerlega gengið í endurnýjun, þótt fyrirtækið sé alls ekki gamalt.
Breytingar í söluferli
Jafnframt þessum breytingum verða gerðar breytingar á söluferli bíla í sýningarsalnum. Í stað þess að hitta fyrir sölumenn við skrifborð á milli bílanna þá verður í staðinn móttökufólk í salnum sem tekur á móti viðskiptavinunum og sækir síðan viðkomandi sölumann til að aðstoða frekar.
Með þessu verður umhverfið léttara og viðskiptavinir fá betra tækifæri til að skoða bílana í ró og næði.
Eða eins og segir á heimasíðu Öskju: „Markmið fyrirtækisins er að vera í fararbroddi hvað varðar þjónustu til viðskiptavina og markaðssetningu þeirrar vöru sem fyrirtækið selur og þjónustar“.
Boðið í kynningarakstur
Að lokinni kynnisferðinni um fyrirtækið var boðið í kynningarakstur á fjórum nýjustu bílunum í framboði fyrirtækisins, glæsivagninum EQS 580 frá Mercededs Benz, Honda HRV og tveimur bílum frá Kia, hinum nýja Kia Niro og Kia Sportage.
Það var háð tilviljun í hvaða röð bílunum var ekið og þeir koma hér í þeirri röð sem ég fékk þá í hendur.
EQS 580: eins og „töfrateppi“
Þessi EQS er af nýrri kynslóð lúxus rafbíla, eða eins og stendur á heimasíðu Öskju: „Nýr EQS er einn tæknivæddasti bíll heims. Með samvinnu tækni, hönnunar, virkni og tenginga verður einstök upplifun og með framsýni á þessum sviðum mun EQS koma til með að auðvelda daglegt líf ökumanns og farþega með stuðningi gervigreindar“.
Vegna þess að fyrsti kaflinn í þessum kynningarakstri byrjað við höfuðstöðvar Öskju við Krókhálsinn, þá var fyrsti kaflinn í þéttri umferð á Vesturlandsveginum, í gegn um framkvæmdahindranir í Mosfellsbænum og það var ekki fyrr en komið var út úr þessu að það var loks hægt að finna hvernig aflið og aksturseiginleikar Benzans eru í raun og veru.
Að vísu var öryggiskerfi bílsins búið að minna á sig því það lét mig vita ef því þótti ég vera of nærgöngull við bílana á undan.
En þar sem þetta er bara kynningarakstur ætla ég ekki að fara um of inn í tæknimálin, en frekar að reyna að lýsa þeim hughrifum sem svona bíll veitir.
Og það er á hreinu að hér hefur ekkert verið sparað í gæðum. Vegna þess að rafbúnaðurinn tekur minna pláss þá er hér komin frábær hönnun á innanrými, miklu meira pláss en ég hefði ímyndað mér. Miðjustokkurinn er að vísu hærri og breiðari en ég hefði átt von á, en hann hýsir líka heilmikið geymslupláss.
Mælaborð og miðjuskjár er mikið listaverk, og í þessum stutta akstri tókst mér rétt að ná toppnum á ísjakanaum, ef svo má að orði komast, en það tæki lengri tíma að ná þessu öllu.
Sætin eru mjög góð og þá sérstaklega aftursætið sem ég rétt náði að tylla mér í til að fá tilfinninguna – sem var góð.
Aðeins um aflið: Það er hreinlega næstum of mikið! Allt að 523 hestöfl og það sýndi sig fljótt að það mátti rétt snerta inngjöfina til þess að láta bílinn þjóta af stað, og ég var fljótur að uppgötva líka að hemlarnir virka vel!
Og hér hefur Mercedes Benz tekist vel upp með að nýta rafmagnið vel því drægnin er sögð allt að tæpir 740 kílómetrar
Aðeins um hönnunina að utan: Hún er ein samfelld bogadregin formlína. Framendinn með sérstætt grillið í stað hefðbundnu loftrásanna setur líka sinn svip á bílinn.
Þessi stutti akstur minnti mig á sögurnar af Alladín og töfrateppinu hans, aksturinn frá Reykjavík upp að Hvalfjarðargönum var „eins og á töfrateppi“!
Honda HRV: Góðir aksturseiginleikar
Og HR-V stóð vel fyrir sínu, og það voru sérstaklega aksturseiginleikarnir í þjóðvegaakstri sem komu á óvart. Vissulega þarf að ýta aðeins þétt á inngjöfina til að fá rösklega svörun í venjulegri stillingu, en Sport-stillingin svaraði vel.
Í venjulegum akstri velja eflaust flestir sparnaðarstillinguna, og hún dugar greinilega vel við allar venjulegar aðstæður.
Aflið er líka alveg í lagi – 131 hestafl og togið skilar bílnum vel áfram, enda nær það 253 Nm.
Hönnun innarýmis er snotur, mælaborðið sjálft er með hefðbundnu yfirbragði og ágætur miðjuskjár, sem ég kannaði að vísu ekki mikið, einbeitti mér meira að akstrinum. Honda Sensing öryggiskerfið lét mig líka vita þegar farið var yfir veglínur. Ökumaðurinn situr hátt g hefur góða yfirsýn yfir allt sem er framundan.
Niðurstaðan eftir þennan stutta kynningarakstur: Góð viðbót í framboð Honda, og fínn fjölskyldubíll.
Kia Niro: Kemur á óvart og venst vel
En það má segja að ég hafi bæði orðið fyrir vonbrigðum en um leið spenntur þegar ég settist inn í bílinn. Almennt séð hafði þessi nýi Niro fengið góða dóma með hástemmdum lýsingum hjá mörgum, enda núna 100% rafmagnaður með allt að 460 km drægni.
Aðstaða ökumanns og innanrýmið í heild í nýjum Niro hefur verið búið þannig að það tryggir ánægjulegan akstur.
Hann er hlaðinn tæknibúnaði sem auðveldar ökumanni aksturinn og býður upp á heilmikil þægindi fyrir alla í bílnum.
En það er engin launung að hér þarf aðeins að stíga fastar á inngjöfina til að fá góða svörun, en aksturseiginleikarnir eru góðir, mikil rásfesta og ég væri alveg til í það að fara lengri leið á þessum bíl!
Kia Sportage PHEV: Sportlegur og vel búinn
Aðstaða ökumanns er ágæt, mælaborð og miðjuskjár mynda eina langa heild, en ég játa hér að ég skoðaði ekki mikið hvað hliðarskjárinn var að bjóða upp á, meira að mælaborðinu sjálfu, enda var ég fyrst og fremst að prófa aksturseiginleikana, sem var auðvelt, því sá hluti leiðarinnar sem ég hafði þennan bíl til umráða var fyrir Hvalfjarðarbotninn og áleiðis aftur í bæinn, en einmitt á þeim kafla er nóg af beygjum og krókum, mishæðum og sléttum köflum sem reyna ágætlega á aksturshæfni bílsins, sem stóðst þetta með ágætum.
Hér í gamla daga þegar ég var að reynsluaka bílum í meira mæli en í dag, var alltaf farið með aflmeiri bílana á þennan vegarkafla og sannreyna aksturshæfni þeirra þarna.
Gírskiptingar eru með snúningsrofa á miðjustokkinum, og þar er einnig hægt að velja drifstillingu eftir aðstæðum, venjulegan akstur eða „terrain“ eða misjafnari aðstæður.
En þetta er bíll sem ég hefði vel getað óskað mér að fara í lengri akstur!
Umræður um þessa grein