Við könnumst flest við „jetski“ en „jetcar“ er eitthvað sem maður tengir helst við eyðimerkurakstur þotubíla sem reyna að slá hraðamet. Í þessu tilviki er þetta bíll sem þeysist eftir haffletinum. Sportbíll meira að segja.
Hrikalega hallærislegt eða sniðugt?
Dubai Water Sport Rentals er fyrirtæki sem leigir fólki hin ýmsu tæki. Þar á meðal „bíla“ sem eru eiginlega ekkert annað en bátar sem líta út eins og bílar. Hljómar hallærislega en lítur furðuvel út á ljósmyndum og í meðfylgjandi myndbandi.
Í framtíðinni segist fyrirtækið ætla að bæta við tegundum (þ.e. jetcar sem líkist tegundunum) á borð við Bugatti, Aston Martin og Bentley. Hvort sem þetta er hallærislegt eða ekki er morgunljóst að það er mun minni umferð þarna úti á hafi heldur en á götum borgarinnar.
Klukkustundarleiga á jetcar kostar 700 dollara eða tæpar 100.000 krónur. Kemst tækið upp í 100 km/klst og það er nú örugglega ekkert leiðinlegt.
Í meðfylgjandi myndbandi sést eitthvað í líkingu við Corvettu en höfundar halda að um Ferrari sé að ræða og leyfum því bara að vera þannig:
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum
Umræður um þessa grein