Í bíltúr í gær um Hafnarfjörðinn, kom ég auga á ljómandi fallega bíla fyrir framan RAG í Hellluhrauni. Kom í ljós að þetta eru kínverskir rafbílar af gerðinni DFSK SERES 3 og er Rafn Arnar Guðjónsson umboðsaðilinn á Íslandi.

Undirrituð sló á þráðinn til Rafns eftir að hafa ekið nokkra hringi og brotið heilann um það hvernig í ósköpunum ný bíltegund hefði getað farið framhjá mér.
Önnur pöntun klár
Þetta var ekki eins alvarleg yfirsjón af minni hálfu og ég taldi fyrst, því bílarnir komu í Hafnarfjörðinn nokkrum klukkustundum áður og í gærmorgun birti RAG myndir af bílunum á Facebook-síðu sinni.

Rafn sagði að áhuginn á nýja bílnum væri það mikill að hann hafi gengið frá annarri pöntun á SERES 3 í morgun og ljóst að landsmenn fagna viðbótinni við rafbílaúrvalið sem verður stöðugt fjölbreyttara.

Drægni SERES 3 er 420 kílómetrar og kostar bíllinn 5.900.000 krónur. Fjórhjóladrifsútgáfa er væntanleg á næsta ári.


Við gerum bílnum betur skil von bráðar hér á Bílabloggi en meðfylgjandi myndir eru birtar með leyfi RAG. Nánari upplýsingar um búnað er að finna hér og á Facebooksíðu RAG.

?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein