Fyrsti rafbíll Rolls-Royce mun verða Spectre coupe
Umskipti í rafbíla eru „mikilvægasta augnablikið í sögu fyrirtækisins,“ segir forstjórinn
LONDON-Rolls-Royce mun setja sinn fyrsta rafmagnsbíl á markað árið 2023 í þeirri vegferð að selja aðeins rafknúna bíla eftir 2030.
Fyrsta farartæki „ofurlúxus“-vörumerkisins verður Spectre coupe, sagði fyrirtækið, sem er í eigu BMW í yfirlýsingu á miðvikudag.
Tveggja dyra bíllinn verður smíðaður á sama álgrunni og er nú undir öllum gerðum fyrirtækisins.
Breyting Rolls-Royce yfir í rafbíla er mikilvægasta augnablikið í sögu fyrirtækisins síðan það var stofnað 1904, sagði forstjórinn Torsten Mueller-Oetvoes í tilkynningu fyrr í vikunni og fjallað var um hér.
„Rafknúinn akstur hentar bílum Rolls-Royce á einstakan hátt og fullkomlega, frekar en nokkru öðru bílamerki,“ sagði hann. „Aksturinn er hljóðlaus, fágaður og myndar tog næstum samstundis og heldur áfram að framleiða gríðarlegan kraft.”
The Spectre „verður fyrsta og fínasta ofur-lúxus vara sinnar tegundar,“ sagði Mueller-Oetvoes í yfirlýsingunni.
Kemur í stað Rolls-Royce Wraith
Myndir af dulbúinni frumgerð af Spectre sem Rolls-Royce gaf út sýna að bíllinn mun hafa hallandi bakhlið að hætti Wraith coupe sem nú er hætt að framleiða.
Hönnun bílsins bendir til þess að rafmagns Spectre komi í staðinn fyrir Wraith, sem var knúinn af BMW-afleiddri V-12 vél, líkt og öll núverandi lína Rolls-Royce.
Fylgir nafnahefð Rolls
The Spectre fylgir Rolls-Royce nafngiftarhefðinni með því að nota annað orð fyrir draug, eftir Wraith, Phantom og Ghost.
Vörumerkið segir að nafnið Spectre hafi verið valið með núlllosunarbifreið í huga. „Spectre (sem þýðir „vofa“) er samheiti yfir öflugar verur; handanheimsverur sem láta nærveru sína í ljós með hverfullri sýn,“ útskýrir framleiðandinn.
„Þetta nafn passar fullkomlega við hinn óvenjulega Rolls-Royce sem við kynnum í dag – bíl sem gerir nærveru sína ljósa áður en hann hverfur í vídd sem aðeins fáeinir útvaldir hafa innsýn í.
Sem breskt merki, notum við bresku stafsetninguna, en merking nafnsins er alþjóðleg.
Eins og með Wraith, eru hurðirnar með lömum að aftan, með handfang fyrir neðan hliðarspegilinn, og opnast því út að framan eins og algengt var á betri bílum í upphafi bílaaldar.“
Mueller-Oetvoes sagði við Automotive News Europe árið 2019 að hönnun fyrsta rafknúna ökutækis fyrirtækisins „verði ótvírætt Rolls-Royce“ en tjáði einnig að það yrði rafknúinn bíll.
Rolls-Royce afhjúpaði 102EX rafmagns Phantom frumgerðina árið 2011 en þrátt fyrir að rafmagn veitti hljóðlátan akstur, sem viðskiptavinir sækjast eftir í bílum sínum, var verkefninu hætt vegna ófullnægjandi og takmarkaðs aksturssviðs og langs hleðslutíma.
Rolls-Royce sagði í fyrra að færsla þeirra yfir í rafvæðingu væri fremur knúin af löggjöf en eftirspurn viðskiptavina. „Það er engin eftirspurn frá viðskiptavinum en við þurfum að vera í aðstöðu til að selja þeim bíl ef löggjöf bannar akstur ökutækja með brunavél inni í miðbæ borgarinnar,“ sagði talsmaður Rolls-Royce við Automotive News Europe á sínum tíma.
Afhending á Spectre mun hefjast á fjórða ársfjórðungi 2023, sagði Rolls-Royce.
Tímasetningin þýðir að fyrirtækið mun þannig verða á undan breska keppinaut sínum Bentley á markað með fyrsta rafbílinn.
Bentley hefur sagt að fyrsti rafbíllinn þeirra komi árið 2025 og gefið til kynna að framleiðandinn gæti orðið á undan Volkswagen Group , sem mun verða rafknúinn framleiðandi árið 2030. Árið 2026 mun Bentley aðeins selja tengitvinnbíla og rafbíla.
(fréttir á vef Rolls-Royce, Auto Express og Automotive News Europe)
Umræður um þessa grein