Átta gata tryllitæki er alla jafna spennandi. En hvað segið þið um átta gata tryllitæki sem er bæði limmósína og blæjubíll?
Já, þetta er nú til og bíllinn sem um ræðir er Chrysler Town & Country Convertible frá árinu 1948. Þetta er afar sjaldgæfur bíll, segir á síðu uppboðshaldarans ACC Auctions, þar sem menn eru í þessum töluðu og rituðu orðum iðandi í skinninu og eflaust búnir að finna til uppboðshamarinn:
Nú er nefnilega tæpur sólarhringur eftir af uppboðstímanum á Chrysler Town & Country Convertible glæsivagni sem virðist í toppstandi.
Bíllinn er í Saint Louis í Missouri en uppboðið sjálft fer fram á veraldarvefnum. Þegar þetta er skrifað er hæsta boð í bílinn voðalega margir dollarar, eða 76.000. Það eru um 10 milljónir króna og nokkuð langt frá lágmarksprís. Það eiga kannski eftir að bætast við einhver núll á næstu 22 klukkustundum en hér má fylgjast með uppboðinu.
Innan við 9.000 eintök voru smíðuð af þessari tilteknu gerð bílsins á árunum 1946-1949, segir í umfjöllun á síðunni Topspeed en hversu margir eru eftir af þeim er ekki gott að segja. Margar kvikmyndastjörnur fortíðar voru stoltir eigendur Chrysler Town & Country Convertible og má þar til dæmis nefna Clark Gable og Bob Hope.
Sagan segir að Clark Gable hafi átt tvo: Einn fyrir „Town“ og annan fyrir „Country“! Hvort það sé rétt skiptir ekki öllu en sagan er góð!
Þvílík og önnur eins drossía!
Þegar maður skoðar myndirnar á síðu uppboðsins er ekki laust við að hugrenningatengsl við skemmtiferðaskip, rjómatertur og hugmyndabíl skapist í kolli manns. Bíllinn er svo svakalegur fleki að í raun minnir hann á eitthvað allt annað en bíl. Ekki eldhúsinnréttingu þó, en viðarklæðning á bílum minnir mann oft á eitthvað slíkt.
Já, svona „timbraðir“ bílar geta verið voðalega lummó að mati undirritaðrar. En hér er eitthvað öðruvísi á ferðinni!
Þetta timburverk er ekkert slor: Útskorinn mahóníviður rammaður inn í hvítan ask er eitthvað fínerí sem maður skellir ekki í gegnum bílaþvottastöðina!
Myndirnar sem skoða má hér og meðfylgjandi myndband segja meira en þúsund orð og gjörið svo vel: Chrysler Town & Country Convertible!
Umræður um þessa grein