Ertu í verri málum með tjónaðan rafmagnsbíl?
Þegar við fórum af stað í sex mánaða rafmagnaða upplifun í samstarfi við Heklu heyrðum við að tjóna- og tryggingamál brunnu á mönnum.
Í þessari umfjöllun fengum við nokkra aðila sem starfa í þeim geira til að svara spurningum sem oft koma upp varðandi tjón á rafmagnsbílum.
Hér upplýsir Haraldur Björnsson hjá Autocenter okkur um þróun í viðgerðum almennt og þó aðallega á rafmagnsbílum en Autocenter er eina fyrirtækið á Íslandi sem hefur fulla vottun frá Tesla á viðgerðum bíla þeirra.
Autocenter er framsækin þjónustumiðstöð fyrir rafmagnsbíla. Það má eiginlega segja að olían sé á undanhaldi á slíkum stöðum og eins og maður sé að þvælast um á rannsóknarstofu frekar en bílaverkstæði. Autocenter hefur aflað sér vottunar til að sjá um viðgerðir á öllum hlutum Tesla bifreiða – er þá sama hvort um vél-, tölvubúnað, boddý- eða lakkviðgerðir er að ræða.
Spurningarnar í þættinum eru á þessa leið: Getið þið gert við allar tegundir rafmagnsbíla? Eru rafmagnsbílar eitthvað viðkvæmari fyrir tjóni en aðrir bílar? Hefur verið eitthvað erfitt að fá varahluti í ákveðna bíla eins og til dæmist Tesluna?
Við hittum einnig Sigurð Óla Kolbeinsson hjá Verði tryggingafélagi og inntum hann eftir hvernig rafbílabyltingin er að breyta tryggingaskilmálum og hvernig fyrirtækið hyggst svara breyttum aðstæðum á markaði.
Spurningar sem Sigurður Óli svaraði: Hvernig eru þið hjá Verði að bregðast við breyttu landslagi á tryggingamarkaði með auknum fjölda rafmagnsbíla? Verðið þið með sérstakar tryggingar sem henta rafmagnsbílum betur?
Sjóvá reið á vaðið
Að lokum heyrum við í Hjalta Þór Guðmundssyni forstöðumanni ökutækjatjóns hjá Sjóvá. Sjóvá reið á vaðið með aukna kaskótryggingu á rafbílum sem gerði að verkum að undirvagn er einnig tryggður fyrir tjóni.
Undirvagninn á rafmagnsbíl er líklega sá hluti sem inniheldur dýrasta einstaka hlut rafmagnsbíls. Það er að sjálfsögðu rafhlaðan sem situr neðst í flestum rafmagnsbílum og hætt er við að hún tjónist við hnjask undir bílnum.
Við spurðum Hjalta nokkurra spurninga og meðal annars þessara: Hvernig tryggir maður betur hjá Sjóvá? Er eitthvað öðruvísi eða dýrara að tryggja rafmagnsbíl? Er smáa letrið með einhverju óvæntu varðandi tryggingu rafmagnsbíls?
Ekki svo mikið öðruvísi
Rafhlöður í rafbílum eru uppbyggðar af mörgum smáum einingum. Ef ein eining skaddast má skipta um hana án þess að þurfa skipta um alla rafhlöðuna. Rafhlaðan hvílir oftast í níðsterkum álbakka sem ver hana fyrir höggi.
Þáttinn má sjá hér í spilaranum fyrir neðan
Umsjón: Pétur R. Pétursson.
Myndband: Dagur Jóhannsson.
Umræður um þessa grein