Það var skítt hvernig fór fyrir þessum eflaust ágæta Audi sem „prýðir“ meðfylgjandi myndir. Það var nefnilega enginn hægðarleikur fyrir bílstjóra trukks að afstýra árekstri þegar ökumaður nokkur kom akandi á móti umferð. „Þá fór skíturinn í viftuna“ eins og stundum er sagt á vondu máli.
Í gamla daga voru þeir stundum kallaðir „súkkulaðibílar“, bílarnir sem notaðir voru við miður geðsleg störf eins og að tæma kamra (eða kamarsfötur) bæjarbúa.
Meira um íslenska súkkulaðibíla síðar ef einhvern tíma mun aftur gefast tækifæri til að koma álíka óþverra að.
Þessi blessaði Audi
Myndum af Audi með „einhverju brúnu á“ var m.a. deilt á síðunni Reddit í gær en eins og segir hér að ofan tókst ökumanni trukks að afstýra árekstri þegar einhver and-gleðigjafinn tók upp á því að aka á móti umferð.
Trukkurinn var fullur af „skít“, svo það sé nú bara orðað rétt, en einnig má notast við annað orðalag: Að farmur trukksins hafi verið áburður, mykja eða tað. Skítt með hvaða nöfnum þetta nefnist!
Hvernig sem það er orðað er næsta víst að svona gúmmilaði kærir enginn sig um að fá yfir bílinn sinn.
Ekki nóg með að þetta hafi verið skítur heldur var þetta þungur massi sem fór illa í Audi og líka illa með hann. Svo fór þetta honum alls ekki vel. En það er auðvitað smekksatriði.
Sumir þeirra sem sökktu sér almennilega ofan í myndefnið gátu fundið nokkra jákvæða punkta í þessum hrútleiðinlegu aðstæðum sem ökumaður Audi var í:
„Hann var alla vega með lokaða gluggana“
„Sá óheppni hefði getað verið á blæjubíl“
„Það þurfti ekki að „pixla“ númeraplötuna á myndunum“
Karma og framtíðartengingin
Sem betur fer voru margir fljótir að tengja þetta leiðindaatvik við virkilega góðar sekúndur úr Back to the Future þríleiknum (trilogy) þar sem Biff nokkur Tannen fékk makleg málagjöld að mati margra.
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein