Marilyn Monroe var ekki ein þeirra sem gortaði af stórum bílaflota. Nei, hún keypti aðeins einn bíl á ævinni og það var enginn smá kaggi; Ford Thunderbird ´56.

Undirrituð hefur stundum fjallað um bílaflota fólks sem á nóg af seðlum og hefur áhuga á bílum. Leikkonan Marilyn Monroe (1926-1962) valdi þennan hrafnsvarta eðalvagn sem sést á meðfylgjandi myndum og átti hann í sex ár. Ekki bílaflota heldur bíl.

Nú er það svo að Monroe sást aka hinum ýmsu bílum á ferlinum en það er ekki þar með sagt að hún hafi átt þá bíla.

Þessi bíll, Thunderbird ´56, er eini bíllinn sem þessi mikla stjarna var skráð fyrir. Stjarnan sem aðeins lifði í 36 ár.
Erfitt upphaf
Marilyn Monroe (fædd Norma Jeane Mortenson) fæddist ekki inn í ríkidæmi. Þvert á móti var líf hennar barningur og æskan virðist hafa verið full af áföllum og sorg. Án þess að farið sé nánar út í lífshlaup leikkonunnar þá er rétt að taka fram fáein atriði:

16 ára gömul giftist hún James Dougherty til að flýja ömurlegar aðstæður en þau skildu eftir fjögurra ára hjónaband. Þá var leiklistarferill hinnar tvítugu Monroe hafinn og hún komin með samning við Twentieth Century-Fox og Columbia Pictures.

Til að flækja hlutina ekki um of með því að fjalla um eitthvað sem maður hefur ekki hundsvit á er best að hafa sem fæst orð um einkalíf Monroe.
Hún giftist hafnaboltaleikmanninum Joe DiMaggio árið 1954 og skildu þau níu mánuðum síðar.

Nú erum við að koma að því sem tengir okkur við Monroe og það er að sjálfsögðu bíllinn. Þegar hún giftist í þriðja og síðasta sinn þá kom hún akandi í eigið brúðkaup á þessum fína Thunderbird. Já og maðurinn sem hún giftist hét Arthur Miller og gengu þau (þó hún hafi nú komið akandi) í hjónaband í júní 1956.

Hin ameríska Gróa á leiti
Þó svo að Gróa á leiti sé nú ein frægasta söguhetja Jóns Thoroddsens, skálds og sýslumanns þá er hægt að segja að Gróa sé holdgervingur hins mannlega eðlis sem og mannlegs breyskleika og það á alþjóðavísu.

Gróa í Vesturheimi kom til dæmis þeirri sögu af stað að bílinn hafi Monroe eignast eftir skilnaðinn við eiginmann númer tvö; Joe DiMaggio (hafnaboltakarlinn). Hún hafi keypt bílinn sér til huggunar, rétt eins og sumir gúffa og graðga í sig súkkulaði og öðru slikkeríi í sjálfsvorkunn þegar lífið er erfitt.

Önnur saga komin úr sögusarpi Gróu var á þá leið að Thunderbird-inn hafi verið jólagjöf til Monroe frá ljósmyndaranum og viðskiptafélaga hennar Milton Greene.
Þetta eru prýðilegustu sögur en eitt eyðileggur þær alveg. Það er sú staðreynd að bíllinn var keyptur hjá Westport Motors í Westport, Connecticut af fyrirtæki leikkonunnar. Þann 20. desember 1955 keypti Marilyn Monroe Productions þennan bíl.

Hvort félagi hennar hafi greitt fyrir gjöfina með peningum hennar sjálfrar eður ei er eitthvað sem við leyfum öðrum að velta sér upp úr. Það virðist ekki skipta miklu máli í hinu stóra samhengi.

Hvað varð um bílinn?
Vorið 1962, fáeinum mánuðum áður en Monroe hvarf úr þessari jarðvist, gaf hún ungum manni bílinn sinn. John Strasberg var sonur leiklistarkennara Monroe, Lee Strasberg, og rétt fyrir átján ára afmæli stráksa gaf hún honum þennan fína Thunderbird.

Hann átti bílinn til 1970 en fátt er vitað um hver eða hverjir áttu bílinn á milli 1970 og 2018 en haustið 2018 var bíllinn seldur á uppboði. Sá sem keypti bílinn hefur kosið að halda sig utan sviðsljóssins en eitt er víst og það er að bíllinn sem Marlyn Monroe átti eitt sinn með réttu er enn til.

Fleiri greinar í svipuðum dúr (eða moll):
Elvis keypti 32 bíla og gaf þá sama dag
John Lennon var afleitur bílstjóri
Alveg Gaga bílasafnari
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein