Ég og Renault 5 Gt Turbo
-eltingarleikur um miðbæinn
Barn að aldri heillaðist ég af bíl. Bíl sem minnti dálítið á nestisbox – en það var nú ekki það sem heillaði mig (að hann líktist nestisboxi). Þetta var Renault 5, hinn franski ofurtöffari sem fór lítið fyrir en var algjörlega óbeisluð og rymjandi snilld í útgáfunni Gt Turbo.
Þennan bíl eignaðist ég raunar tveggja ára gömul en það var verulega smækkuð útgáfa af honum. Það er að segja leikfangabíll frá Majorette í hlutföllunum 1/53. Hann á ég enn.
Árin liðu og alltaf kipptist ég við þegar ég sá Renault 5 í umferðinni. Þeir voru nú ekki margir Gt Turbo en þegar ég sá slíkan þá gerðist eitthvað undarlegt. Ég fór bara að stama og varð eins og bjáni.
Eltihrellir á Fiat UNO ´87
Bílprófið fékk ég á heiðarlegan hátt (ekkert Kelloggspakkasvindl þar) á því herrans ári 1998 en samkvæmt nýjustu útreikningum var undirrituð einmitt 17 ára gömul þá.
Fyrsti bíllinn minn var ítalskur. Hann var aðeins yngri en ég og aðeins þyngri líka. Fiat UNO, 770 kíló, árgerð 1987. Slagrými vélar: 1116 rúmsentímetrar. Afl: NEI. Afsakið öll, hér átti að sjálfsögðu að standa 61 hestafl. Hjól: 4 en einu sinni 3 og það er nú önnur saga (af Vesturlandsvegi á blússandi fart).
Eitt drungalegt haustkvöld árið 1999 var ég á leiðinni úr Mosfellsbænum í miðbæinn á mínum lauflétta og vikulega bónaða UNO. Skyndilega birti yfir Miklubrautinni og það var sem kviknað hefði á sólinni í haustdrunganum: Þarna var hann! Perluhvítur og ljómandi. Renault 5 Gt Turbo ´86. Bíll drauma minna.
Eins og fyrr hefur komið fram varð ég alltaf undarleg þegar ég sá bíl af þessari gerð og þetta skiptið var engin undantekning. Ég ákvað að elta bílinn, ná tali af eigandanum og útskýra fyrir honum að þennan bíl yrði ég að fá að kaupa. ÞENNAN bíl. Já, þetta var sko gott plan og ekkert furðulegt við það (sannfærði ég sjálfa mig um…).
Ekki þarf að hafa mörg orð um það að ökumaðurinn varð óöruggur þegar hann fann að einhver var að elta hann. Það getur verið að ég hafi ekið dálítið nálægt honum. Jú, ætli ég hafi ekki gert það. Og reynt að ná sambandi við manninn á næstu ljósum með handapati og svoleiðis.
Í það minnsta fór bílstjórinn að gefa heldur hressilega í og skáskjóta sér hingað og þangað í von um að stinga mig af.
Það þarf ekki kjarnorkuknúna bifreið til að stinga Fiat UNO af. Varla hlaupahjól, ef út í það er farið. En einbeitti og þrjóski bílstjóri UNO-sins ímyndaði sér að hann væri á nítró-UNO.
Svona æsilegur eltingarleikur getur tekið svolítið á. Orðin trekkt og púlsinn kominn í útslátt hugsaði ég með mér að hér væri loks komið tækifæri til að eignast Renault 5 Gt Turbo og því skyldi ég ekki klúðra.
Því mætti ég ekki fyrir mitt litla líf leyfa bílstjóranum að stinga mig af. Og áfram elti ég hann.
Í illa upplýstum Þingholtunum missti ég sjónar á bílnum en eftir dálitla stund kom ég auga á hann á bílastæði við risastórt hús sem reyndist vera auglýsingastofa. Bílstjórinn var á bak og burt og því fátt annað að gera en að banka upp á og finna manninn.
Ekki til sölu
Eftir dálítinn vandræðagang fann ég rétta manninn, þ.e. ökumann og eiganda bílsins. Hann var tortrygginn á svipinn þegar honum varð ljóst að þarna væri komin manneskjan sem hafði elt hann um bæinn og því vissara að fara að öllu með gát. Ekki varð samtal okkar til að róa manninn mikið því orðin komu flest öfug út úr mér eins og sjá má:
Ég (flaumósa og dauðstressuð): „Ég er búin að elta þig um allt. Fyrirgefðu. En þú verður að selja mér bílinn þinn. Þennan Renault.“
Hann (með augun uppglennt): „Ertu búin að elta mig oft? Lengi?“
Ég: „Ha? Nei, eða jú. Bara síðan á Miklubrautinni sko. Í kvöld. Ekki í marga daga! Hahaha! Neinei, ekkert svoleiðis!“
Hann: „Bíllinn er ekki til sölu.“
Hann ætlaði að loka og skil ég það vel. Í hans sporum hefði ég lokað og hringt á lögregluna þegar í stað. „Bíddu! Ekki loka á mig. Leyfðu mér að skrifa símanúmerið mitt á blað ef þér snýst nú hugur.“
Hann glotti, tók við miðanum og sagði: „Þessi bíll er ekki og verður ekki til sölu.“ Og lokaði.
Ólétt kona bjargar málum
Þetta var ekki gott. Hreint ekki gott og ég var afar drýldin eftir þessa sneypuför. Komin á þá skoðun að þetta hefði verið heimskulegt uppátæki hjá mér og skammaðist mín.
Einhverjum vikum seinna hringdi síminn og á línunni var enginn annar en Renault-maðurinn! Hann tók það skýrt fram að hann væri ekki búinn að skipta um skoðun. Bílinn vildi hann ekki selja. En, örlagadísirnar væru mér greinilega hliðhollar því konan hans væri ólétt og neitaði að ferðast um í litlu nestisboxi. Hún heimtaði það sem hún kallaði „venjulegan“ bíl og minnti hann á furðulegu stelpuna sem hafði elt hann nokkrum vikum fyrr. Hann skyldi bara selja mér bílinn.
Við vitum nú hversu ákveðnar sumar óléttar konur geta verið og þá er nú bara eins gott að hlýða þeim. Það gerði Renault-maðurinn og ég varð himinglöð! Ekki spillti það gleðinni þegar í ljós kom að bíllinn var aðeins ekinn tæpa 80.000 kílómetra og hafði að sögn fyrri eiganda hálfpartinn „gleymst“ í einhverjum bílskúr og staðið þar óhreyfður í sex eða sjö ár. Ástæðan var víst réttindalaus embættismaður sem átti bílinn á þeim tíma.
Saman áttum við Renault góð ár og mikið svakalega var gaman að geysast um göturnar á þessum magnaða bíl.
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein