Fyrir viku síðan ók undirrituð 1981 árgerð af DeLorean á Norður-Írlandi. Stoppaði ásamt syni við hliðið á upprunalegu DeLorean verksmiðjunni í Dunmurry. Í gær birtist svo æði merkileg frétt um þessa merkilegu tegund sem DeLorean er. Tveir slíkir hafa verið í áratugi þar sem tíminn hefur staðið í stað.

Það er sannarlega ætlunin að fjalla nánar um ferð okkar ljósmyndarans (sem er einmitt sonur minn) á slóðir DeLorean á DeLorean. En sú umfjöllun bíður aðeins. Enda er allt í kringum DeLorean tengt tímanum; hvort sem hann stendur í stað, líður eða bíður.

Í gær rambaði undirrituð á frétt nokkra á vefnum Motorious sem hefur einmitt með þessa DeLorean að gera en tímasetningin á fréttinni vefst aðeins fyrir mér. Þar segir nefnilega frá tveimur DeLorean sem framleiddir voru í marsmánuði á því herrans ári 1981. Þeir komu af færibandinu í röð. Endastafir VIN-númers þess fyrri eru 0663 og hins 0664.

Þessir tveir munu, samkvæmt fréttinni, vera falir á markaðstorgi Facebook (og segir ekkert um á hvaða síðu Facebook). Þeir fundust í því sem gjarnan er kallað „barn find“ og hafa bílarnir staðið óhreyfðir í 39 ár. Verið í tímatómi öll þessi ár. Einhvers staðar í Kaliforníu.

Á akstursmæli annars segir að honum hafi verið ekið 1.623 mílur og hinum 14 mílur. Þetta er auðvitað stórmerkilegt en það er frekar truflandi að hugsa til þess að í febrúarmánuði árið 2021 voru þessir tveir á uppboði hjá Hemmings og seldust þeir saman fyrir 57.750 dollara.

Það er harla ólíklegt að nú séu einmitt þessir tveir til sölu á ónefndri Facebook-síðu, aksturinn enn sá sami (þ.e. og þegar bílarnir voru á uppboði í febrúar 2021) og verðið sé lægra en þeir seldust á eða 50.000 dollarar.
Hvernig sem þessu er nú háttað þá er en engu að síður ákaflega merkilegt að tveir slíkir bílar hafi verið í geymslu í 39 ár og ekkert notaðir frá því árið 1981.

Fyrir utan þá staðreynd að þeir hafi verið seldir saman á ekki hærra verði en tæplega 58.000 dollara. Það eru rétt innan við 8 milljónir króna sem er svipað verðinu á nýjum jepplingi á hinum evrópska markaði.

Höfum ekki fleiri orð að sinni um þessa tímalausu snilldarbíla sem skjóta upp kollinum í tíma og ótíma.
Ljósmyndir: Uppboðsvefur Hemmings.
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein