Civic Type R: Þarna var hann þá!
Stundum birti ég umfjöllun um áhugaverða og skemmtilega bíla sem eru til sölu á Íslandi og þá einna helst sportbíla. Þar hefur ekki verið eftir miklu að slægjast, eða hvað? Oftar en ekki hef ég bölvað því í hljóði hve lítið framboð sé af sportbílum hér á landi en nú er eitthvað að breytast.
Ástæðan er ekki sú að ég eigi bílakjallara sem þarf að fylla af sportbílum. Nei, það er ekki svo gott, heldur er gaman að sjá fallega bíla í umferðinni og jú, svo vantar mann alltaf einhvern til að spyrna við á gamla Land Róvernum. Þetta síðasta var nú bara grín. Á þeim bíl er aðalsportið eitthvað annað en spyrna.
Honda Civic Type R: Tekinn í sátt
Í gær birtist hér á Bílabloggi grein um að nýr Honda Civic Type R kæmi brátt á markað. Þetta fékk mann til að hugleiða hvernig útlitið á bílnum hefur verið frá því hann trillaði fram á sjónarsviðið árið 1997. Ekki hefur undirrituð verið sátt við útlitsþróunina frá 2001, eins og fram kom í greininni, en það eru rúm 20 ár af leiðindum.

Nema hvað! 2023 Type R lofar góðu og er þessi súperútgáfa af Honda Civic nú formlega tekin í sátt. Það var þá sem ég fór að skoða hvort ég hefði nokkuð misst af einhverju og jú! Það er Honda Civic Type R til sölu, ónotaður með öllu en nýskráður 6/2021, og hann hlýtur að vera nokkuð sprækur.
Nei, afsakið: Hann hlýtur að vera hrikalega sprækur

?Helstu tölur:
Beinskiptur (6 gírar)
Framhjóladrif
4 strokkar
1996 cc.
320 hö.
1495 kíló

Búið að slá rúma milljón af verði
Bílinn hef ég ekki prófað þar sem hann er ekki á Vestfjörðum heldur á Krókhálsi. Hér á Vestfjörðum, þar sem undirrituð heldur nú til, er sennilega eðlilegra að prófa báta eða dráttarvélar. Nóg af svoleiðis sko en eitthvað minna um sportbíla. Þess vegna er bara hægt að vísa í hvað aðrir hafa skrifað um bílinn og virðist þetta vera lipurt og gott tryllitæki með hröðun á við loftstein á leið til jarðar.

Reyndar kemur fram að hann sé 5.15 sekúndur frá 0 upp í 100 km/klst og kvartmíluna skjótist hann á 13.2 sekúndum. Þannig að þetta með loftsteininn er kannski ekki alveg rétt. En samt er Civic Type R sprækur bíll.

Sem fyrr segir er þetta bíll sem var nýskráður fyrir ári og er ónotaður, en þrátt fyrir það er verulegur afsláttur af upphaflegu verði. Hann kostaði 9.490.000 krónur en er nú 1.200.000 krónum ódýrari, eða 8.290.000 krónur.

Myndirnar af bílnum bláa eru birtar með leyfi Öskju og jú, þó mér þyki 2023 bíllinn, sem kynntur var í fyrradag, fallegri þá er þessi alveg ágætlega frískandi að sjá. Reyndar er frekar fyndið hvernig blaðamaður Car and Driver lýsti bílnum: „The Civic Type R looks like something the devil himself spat on the asphalt, and it goes like a bat out of hell, too.“
Þetta ætla ég ekki að þýða því þetta er betra svona. Mæli með þessari reynsluakstursgrein því hún er skemmtilega skrifuð.

Nánari upplýsingar um bílinn eru hér á síðu Öskju.

Náskylt efni:
Ó, þú öskrandi ofurbíll!
Einn svalasti sportari landsins til sölu
Verður Honda Civic Type R aftur töff?
Bílarnir sem ég hefði viljað eiga 1998
GTI-bílarnir sem héldu fyrir manni vöku
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein