Bölvað vesen að vinna bíl
Það hljómar vel að „vinna bíl“ og tilhugsunin er góð. Flest okkar „vinna fyrir bíl“ enda hverfandi líkur á að hreppa hnossið í bílahappdrætti.
Ég rakst á áhugaverðan þráð á vefnum Quora.com þar sem umræðuefnið var nákvæmlega þetta: Að vinna bíl.
Einn deildi reynslusögu og hér kemur hún:
Ég tók þátt í Wheel Of Fortune [spurningaþáttur vestra] árið 2012. Þar komst ég í úrslit og svaraði svo bónusspurningunni rétt og vann Mazda Miata sportbíl.
Þremur mánuðum eftir að þátturinn var á dagskrá hafði manneskja hjá bílaumboði, Star Mazda í Kaliforníu, samband. Fjölmargt þurfti að gera og græja áður en ég fengi bílinn afhentan. Fyrst fékk ég sendan bunka af skráningarpappírum og dundaði ég mér við að fylla allt út til að fá bílinn skráðan á mitt nafn.
Það kom í minn hlut að greiða skatt, umsýslugjöld og skráningargjald fyrir bíl sem ég átti tæknilega séð ekki neitt í.
Að því loknu þurfti að senda undirrituðu skjölin til baka auk afrits af skráningarskírteininu. Ég gerði það og viku síðar hafði umboðsaðilinn í Kaliforníu, Star Mazda, samband og gaf mér upp dagsetningar sem kæmu til greina hvað afhendingu snerti. Það tæki svo þrjá daga að koma bílnum til mín.
Þetta var um miðjan júlí, um fimm mánuðum eftir að þátturinn var sýndur í sjónvarpi og þá voru liðnir um átta mánuðir frá upptöku þáttarins.
Tveimur vikum síðar kom bílaflutningabíll með nokkra bíla á pallinum. Hann stoppaði fyrir utan húsið og út kom maður sem talaði litla sem enga ensku. Hann var snöggur að losa bílinn og áður en ég vissi af var vinningsbíllinn kominn á sinn stað í bílastæði, ég búinn að kvitta fyrir móttöku og bílaflutningabíllinn á bak og burt.
Við hjónin byrjuðum á því að taka myndir af bílnum því það þurfti auðvitað að festa þennan merkisviðburð „á filmu“. Auðvitað vildi ég prófa bílinn og skrapp einn rúnt um hverfið.
Bílinn þoldi ég bara hreint ekki. Ég er tæplega tveggja metra rumur og með einstaklega langa fótleggi. Það var ekki hægt að færa sætið nógu aftarlega og fór ekki vel um mig. Auk þess sem ég rak höfuðið uppundir í hvert sinn sem ég settist inn í bílinn. Konan mín prófaði bílinn einhverju sinni og ekki líkaði henni heldur við hann.
Á svipuðum tíma kom í ljós að von var á öðru barni okkar hjóna. Við ókum bílnum samtals 99 mílur þessa fyrstu viku sem hann var í okkar eigu. Kvöld eitt ókum við bílnum á bílasölu í nágrenninu og fórum þaðan á splunkunýjum Town and Country Mini Van. Bein skipti og ekkert vesen.
Það koma alveg dagar þar sem ég óska að ég hefði ekki selt bílinn. En þar sem við búum í Nebraska þá er ég nú oftast sáttur við að hafa selt hann.
Luma lesendur á sögu um vinningsbíl eða bílahappdrættissögu? Ef svo er þá má senda á netfangið malin@bilablogg.is.
Umræður um þessa grein