Bílaskúlptúrar: Listaverk eða skemmdarverk?
Flest höfum við heyrt um Stonehenge, hið forna mannvirki á Englandi. En svo er það Carhenge. Kannast einhver við það? Eða Cadillac búgarðinn? Trans Am tótemsúluna? Þetta eru bílaskúlptúrar sem mismikla gleði vekja.
Auðvitað eru skiptar skoðanir á listrænu gildi bílaskúlptúra og ekkert annað en gott um það að segja. Annars væri umræðan einsleit og ekki um neitt að karpa.
Hér eru nokkrir skúlptúrar og gaman væri að vita hvort lesendur hafa séð einhverja þeirra og hvort þeir hafi skoðanir á þessu öllu saman!
Berwyn bílaspjótið (Berwyn í Illinois)
Þetta var fimmtán metra hátt spjót og á því voru átta bílar. Spjótið, atgeirinn eða hvað við viljum nú kalla þetta var á bílastæðinu við Cermak Plaza verslunamiðstöðina í Berwin í Illinois. Þar fékk það að vera í tæp tuttugu ár, eða frá 1989 til 2008.
Glöggir lesendur kannast ef til vill við skúlptúrinn úr myndinni Wayne´s World en þar brá honum fyrir í mýflugumynd (framan á bók).
Á spjótinu voru: VW bjalla (1967), BMW 2002 (1976), Ford Escort (1981), Mercury Capri (1973/1974), Ford Mustang (1978), Pontiac Grand Prix (1981), Ford LTD (1979/1980) og Mercury Grand Marquis (1979/1981).
Hér má lesa um skúlptúrinn.
Cadillac Ranch (Amarillo í Texas)
Þessi skúlptúr samanstendur af tíu bílum af gerðinni Cadillac og eru þeir frá árunum 1949 til 1963. Hópur listamanna sem nefndist Ant Farm bjó þetta til árið 1974 og hér má fræðast um hópinn.
Forsíðumyndin er líka frá Cadillac Ranch og er hún tekin 2008: Wikimedia/Richie Diesterheft
Carhenge (Alliance í Nebraska)
Þetta þykir mér nú alveg stórskemmtilegt! Carhenge er eftirlíking af hinu magnaða forna mannvirki sem Stonhenge er. Það er á Englandi en Carhenge er í Nebraska.
Carhenge varð fyrst til í kolli manns að nafni Jim Reinders þegar hann bjó á Englandi. Á sumarsólstöðum 1987 var verkið vígt í Nebraska og hafa fleiri bílalistaverk litið dagsins ljós á svæðinu sem nú er þekkt sem Car Art Reserve.
Nánar um Carhenge hér.
International Car Forest Of The Last Church (í Nebraska)
Þeir Mark Rippie og Chad Sorg eru karlarnir á bak við þennan listgjörning. Ekki veit ég hvað á að segja um þetta en myndirnar eru litríkar.
Meira um bílafrumskóginn hér.
Trans Am tótemsúlan (Vancouver í Kanada)
Listaverkið er tíu metra hátt og rúmlega 11 tonna þungt. Bílarnir sex hvíla á sedrusviðarbút úr 150 ára gömlu tré. Bílarnir eru Pontiac Trans Am, BMW 7 (E38), Honda Civic (fimmta kynslóðin), Volkswagen Golf Mk1 Cabriolet og síðast en ekki síst styttur Mercedes-Benz W201 sem er með grill framan af Volkswagen Golf Mk3.
Verkið er frá árinu 2015 en í fyrra (2021) var það tekið í sundur og það þrifið hátt og lágt en fuglar hafa víst einstaka unun af því að drita á Trans Am tótemsúluna.
Meira um listaverkið hér.
Umræður um þessa grein