Bílarnir 216 í Tinnabókunum
Þó svo að mörgum sýnist blaðamaðurinn Tinni hálfgerður strákhvolpur þá er alveg ljóst að sögupersónan, sem Belginn Hergé skapaði, hefur stjórnað mun fleiri tækjum og tólum en flest okkar. Hann ók mótorhjólum, fólksbílum, sportbílum, skriðdrekum, var prýðilegasta skytta, jafnflinkur í vinstri- og hægrihandarakstri, flaug flugvélum og þyrlum, sigldi skipum og fór meira að segja til tunglsins en þangað hafa víst fáir komið!
Ekki nóg með það heldur tóku Tinni og félagar þátt í geimferðakapphlaupinu og skutu bæði Bandaríkjamönnum og Sovétmönnum ref fyrir rass með tunglferð sinni í kringum 1950.

Blaðamaður, hundur, prófessor og sótölvaður skipstjóri voru þar fyrstir, samkvæmt vissum heimildum.
216 ökutæki
Tinni var mun oftar farþegi en ökumaður. Oft var hann farþegi gegn eigin vilja, jafnvel keflaður og bundinn annað hvort í aftursæti eða farangursrými. Einu sinni var hann farþegi í hjólhýsi sem hékk aftan í glæsilegum rauðum Triumph Herald sportbíl (Svaðilför í Surtsey). Það getur varla verið mjög þægilegt, sérstaklega ekki ef hjólhýsið losnar frá bílnum, rennur aftur á bak niður langa brekku og staðnæmist að lokum á gömlu eplatré, eins og í þessu tilviki.
Bílar koma sannarlega oft við sögu í Tinnabókunum og má ekki sleppa að minnast á að fantar og fúlmenni notuðu þá óspart til að aka á Tinna eða á ökutæki með blaðamanninn innanborðs.
Það er magnað að taka saman fjölda þeirra ökutækja sem koma fyrir augu lesenda en þau eru 216 talsins. Ökutækin eru frá árunum 1912 til 1976 en þetta eru ekki alveg skotheld sannindi og bið ég lesendur að festast ekki í smáatriðum og reyna að sjá í gegnum fingur sér með árgerðir þeirra bíla er hér um ræðir. Þetta er nefnilega ekki ritrýnd grein, heldur til gamans skrifuð!

Elstur í flotanum mun vera árgerð 1912 af eðalvagninum Hotchkiss. Tegundin var framleidd frá 1903-1955 í París og kom Hotchkiss fyrir augu lesenda í bókinni Skurðgoðið með skarð í eyra.

Yngsti bíllinn er Moskvitch 2140, árgerð 1976, en hann kom einmitt fyrst á markað það ár. Bókin, Tinni og Pikkarónarnir, kom út 1976 og ljóst að höfundurinn Hergé var með „puttann á púlsinum“ eins og stundum er sagt.
Hver veit þetta eiginlega…
…og af hverju?
Nú, á þessum tímapunkti, kunna lesendur að spyrja sig hvernig í veröldinni sé mögulegt að vita eitt eða annað um bíltegundir í tuttugu og þremur teiknimyndasögum sem komu út á árunum 1929-1976. Það er ekki undarleg spurning en svarið er tiltölulega einfalt:
Tinnafræðingar eru óendanlega margir í heiminum. Þeir eru sjálfmenntaðir og oftar en ekki dálítið spes. Sum okkar (flokka mig ekki sem fræðing heldur áhugamanneskju um Tinnafræði) hafa mikla þörf fyrir að halda úti vefsíðum þar sem hinum ýmsu staðreyndum úr Tinnabókum eru gerð skil. Aðrir skrifa um upplýsingarnar sem hinir hafa safnað saman. Enn aðrir lesa það sem sum okkar skrifa um vinnu hinna og allir ættu að geta skemmt sér við lesturinn eða skrifin.
Hvaða upplýsingum er haldið til haga?
Til eru heilu vefsvæðin um bíl- og flugvélategundir sem koma við sögu í Tinnabókunum. Bílasýningar eru haldnar með bílum af sömu tegundum (helst í sömu litum) og þeir sem sjást í Tinnabókum. Má þar til dæmis nefna bílasýninguna í Brussel árið 2006 og víða um Belgíu hefur í gegnum tíðina verið haldið sérstakt Tinnabílarall eins og sjá má í myndbandinu hér að neðan. Það er frá Tintin Rally sem fram fór árið 2016 og ekið var frá Cheverny til Le Mans á misjafnlega sprækum bílum!
Ekki má gleyma þeim Tinnafræðingum sem eru eins og „hagstofa“ Tinna og setja fram á vandaðan og oft skemmtilegan hátt staðreyndir á borð við:
- Hversu oft slasaðist Tobbi (hundur Tinna) í Tinnabókunum?
- Drakk Kolbeinn Kafteinn bara viskí?
- Í hvaða bók var Tinna ekki rænt?
- Skapti og Skafti; Tvíeggja einburar, eineggja tvíburar eða bara líkir vinir?
Já, svona mætti lengi telja. Höldum okkur samt við bílana!
„Nýjasta módel af eyðimerkurbíl“
Ökutækin 216 sem koma lesendum fyrir sjónir í bókunum um Tinna eru frá ýmsum löndum, eins og gera má ráð fyrir. Það ætti ekki að koma á óvart að margir eru bílarnir í þessum tilkomumikla flota franskir en breskir bílar, þýskir, amerískir og ítalskir eru einnig fyrirferðarmiklir.
Þar sem Tinni í Sovétríkjunum er ein fárra Tinnabóka sem ekki er til í safni fjölskyldunnar þá er best að segja fátt um hana en veit ég þó að þar koma m.a. við sögu Mercedes Benz og kappakstursbíll sem að öllum líkindum er hinn franski Amilcar C6. Sá bíll (C6) var framleiddur frá 1927 til 1930 og var hann með 1100cc 6 strokka vél, laufléttur og stuttur með yfirbyggingu úr áli.
Á þeim bíl ók Tinni tryllingslega þar sem hann var eltur af sovésku löggunni sem flaug flugvél rétt aftan við kappakstursbílinn. Tobbi, hundur Tinna, hvatti húsbónda sinn til að gefa allt í botn og stinga lögguna af!

Tinni í Kongó er sennilega umdeildasta Tinnabókin. Hún þykir endurspegla einfeldningslega sýn hins almenna Belga fjórða áratugarins á nýlendustefnuna en Kongó var belgísk nýlenda til ársins 1960.
Burtséð frá þeim leiðindum þá fór Tinni til Kongó og réði innfædda leiðsögumanninn Kókó til að fylgja sér um stórhættulegt svæði. Hvítur maður, væntanlega Belgi, sagði við Tinna í upphafi ferðar þeirra:
„Vantar þig bíl? Það vill svo til að ég hef nýjasta módel af eyðimerkurbíl!“ Þarna brá þýðandinn frábæri, Loftur Guðmundsson, á leik en „eyðimerkurbíllinn“ var Ford T og auðvitað var hann af nýjustu gerð! Bókin kom fyrst út árið 1931 og Ford T var framleiddur til 1927. Þá horfði sjálfur Henry Ford á fimmtán milljónasta eintakið rúlla út úr verksmiðju sinni.

Tinni og Leynivopnið
Í þessari bók, Tinni og Leynivopnið, koma fyrir augu lesenda fleiri bílar en í öðrum Tinnabókum. Þar eru líka flugvélar, bátar, þyrlur, skriðdreki og mótorhjól. Bókin kom fyrst út árið 1956 og er ekki annað að sjá en Hergé hafi verið með almennilega tækjadellu. Bílnúmerin eru vel sýnileg á bílunum sem og merki tegundanna, einkennisstafir flugfara o.s.frv.
Já já, ég játa að ég rýndi í hvern ramma sögunnar (þar sem apparöt var að sjá) með stækkunargleri… Gerum við það ekki öll? Ef svo er þá hafa flestir greinilega vit á að halda því fyrir sig! Ojæja…

Það er aðdáunarvert hversu mjög höfundur leitaðist við að hafa smáatriði hárnákvæm. Sendiráðsbílar eru sérmerktir með litlu C.D. merki og fleira í þeim dúr. Þó svo að Hergé hafi búið til lönd, Bordúríu og Syldavíu svo dæmi séu tekin, þá bjó hann ekki til bíltegundir. Króm, speglar, ljós, koppar og dekk voru greinilega ekki eitthvað sem Hergé leit á sem léttvægt. Síður en svo!
Má ég til með að minnast á háskalega eftirför sem gerð eru skil með fjölda skemmtilegra mynda með nákvæmri skírskotun til umhverfisins:
Þeir Kolbeinn, Tinni og Tobbi flugu til Genfar í Sviss í þeim tilgangi að finna vin sinn, prófessor Vandráð, sem illskeytt fúlmenni höfðu rænt.
Þegar til Genfar var komið misstu félagarnir af lest til bæjarins Nyon (25 km austan við borgina). Þá var eina ráðið að stökkva inn í næsta lausa leigubíl og var sá af gerðinni Simca Aronde, árgerð 1954.

Þegar þeir nálguðust vatn nokkurt urðu þeir þess óþægilega varir að fúlmennin eltu þá. Fúlmennin óku stórglæsilegum svörtum Citroen Traction Avant. Þegar þeir voru komnir upp að leigubílnum sagði annar skúrkurinn við ökumanninn: „Ágætt, og skástífaðu þá nú naumt, og bremsurnar í botn.“
Það gerði hann og Simca þeyttist út af veginum og beinustu leið út í vatnið. Ekki varð neinum meint af en bíllinn var þar með úr sögunni, það er að segja Simca Aronde en hinn svarti Citroen var síður en svo horfinn.

„Sástu ekki að þetta var svört Sítróna,“ sagði Kolbeinn kafteinn illur þegar bíllinn birtist enn og aftur síðar í bókinni.
Einstök nákvæmni og gott bílagrín
Á hinni stórskemmtilegu vefsíðu, www.tintin.com, er greint frá ýmsum staðreyndum. Segir þar að leiðin sem leigubíllinn ók með þá félaga til Nyon sé enn til. Hún hefur tekið nokkrum breytingum en árið 1953 leit hún út nákvæmlega eins og Hergé teiknaði hana í Leynivopninu. Í dag er þó ekki eins auðvelt og áður að aka beinustu leið út í Leman vatnið.
Einnig kemur fram að sveitasetrið sem félagarnir heimsóttu að Route de Saint-Cergue númer 57A í Nyon, hafi verið sett á sölu fyrir skemmstu og það hafi aldrei verið sprengt í loft upp eins og gerðist í bókinni!
Að bera saman ljósmyndir af setrinu eins og það er í dag og teikningar Hergé er ágæt skemmtun. Hliðið, hliðstólparnir, þaksteinarnir, gluggahlerarnir, stromparnir allir og meira að segja svalahandriðið er nákvæmlega eins!
Í Leynivopninu taldi ég um þrjátíu bíla. Tegundirnar sem mátti þekkja þar voru: Volkswagen, Simca Aronde, Citroen Traction Avant, Citroen 2CV, Rover 75, Peugeot 202 og 203, Mercedes Benz 300, Lancia Aurelia B20, Opel Rekord og Chrysler sem ég kann ekki frekari deili á. Þetta eru bílar frá 1952-55 og allir svakalega fínir. Já og svo má ekki gleyma Saurer rútu og Willys Station Wagon.

Kafteinninn skapbráði og blaðamaðurinn ungi fengu far hjá ókunnugum manni og báðu hann að elta bíl glæpamanna, eins og eflaust var algengt að biðja ókunnuga um í gamla daga. Alla vega í Tinnabókum.
Ökumaðurinn reyndist hvatvís Ítali og var hæstánægður með að sýna hversu mögnuð ítölsk ökuleikni væri. Tinni, Kolbeinn og Tobbi þrýstust lengst ofan í bólstraðan sætisbekkinn aftur í Lancia Aurelia B20 (framleiddur frá 1950 til 1958) þegar Ítalinn gaf allt í hvínandi botn. Eitt gott samtal úr sögunni í frábærri þýðingu Lofts:
Kolbeinn kafteinn: „Fari það í trilljónó truntófýló. Er það einlægur ásetningur þinn að drepó mig?“
Æsti ítalski ökuþórinn: „Afsakó…! Ma qué, ég vildi bara sýnare að bíló og bílistó Ítalíanó eru bestissimó í öllum heimó!“
Glamur og undarleg hljóð
Ítalinn: „Ma qué? … Hvað er nú? Hvaða skröltó og högg? Díavóló! Er míó bíló biló? Stimpló? Ventló?“
Kafteinninn: „Ne-e-ei! Það er e-e-ekkert! Það eru ba-ba-bara te-te-tennurnar í mér sem gla-glamra.“
Bílístó Ítalíanó: „Aha! Keyrare ég of prestó? Aha!“
Síðar, þegar löggan ætlaði að sekta þann ítalska gaf hann upp nafnið sitt: Artúró Benedettó Gíóvanní Gíúseppe Píetró Archangeló Alfredó Cartóffólí de Mílanó. Skal engan undra að hann slapp við sekt!
En aftur að bílunum þrjátíu í þessari bílvænu Tinnabók!
Einn Tinnafræðingur á veraldarvefnum segir að rútan sem um ræðir sé af gerðinni Saurer. Adolph Saurer var víst frá Sviss og framleiddi m.a. hópferðabíla á síðustu öld (undir nafninu Saurer voru aukinheldur framleiddir alls kyns hertrukkar og skriðdrekar).

Vinalegur Citroen
Af öllum þeim bráðskemmtilegu bílum sem koma fyrir augu lesenda Tinnabókanna þykir undirritaðri einn alveg sérstaklega skondinn. Hann er af gerðinni Citroen Ami. Franska orðið ami hefur snöggtum skárri merkingu en hið íslenska því það þýðir vinur. Ekkert að því!

Citroen Ami birtist lesendum í bókinni Vandræði Vaílu Veinólínó sem kom út árið 1963.
Bíllinn var framleiddur frá 1961 til 1978. Eintökin voru æði mörg og gaman væri að vita hvort lesendur viti til þess að Citroen Ami hafi ratað hingað til lands. Það er ekki svo fráleitt því alls voru framleidd um 1.840.000 stykki. Hestöflin voru alveg 28 (seinna var hann fáanlegur með 55 hestafla mótor og kallaðist þá Ami Super) og með einhverju móti tókst héraðslækninum í sveitinni þar sem Myllusetur er (herragarður Kolbeins kafteins) að komast á milli staða í þessum vinalega Citroen.

Þeysireið á heilagri kú á háannatíma í Nýju-Dehli
Kolbeinn kafteinn reyndi fremur óheppilegan fararskjóta þegar þeir Tinni voru staddir í Nýju-Dehli á leið til Katmandú. Það var í bókinni Tinni í Tíbet.
Þó svo að kýr séu heilagar á Indlandi lét Kolbeinn kafteinn það ekki stöðva sig þegar ein heilög hafði lagt sig á miðri götu og stoppað alla umferð. „Heyrið þið! Getið þið nú ekki stuggað við beljuskrukkunni. Við erum að verða allt of seinir,“ sagði kafteinninn við litla hrifningu innfæddra.
Hann sýndi þá innfæddum hvernig komast mætti framhjá skepnunni með því einfaldlega að klofa yfir hana en ekki tókst betur til en svo að hann endaði á baki kusu sem hljóp tryllt út í þunga umferð borgarinnar.
Sú þeysireið endaði þegar skepnan snarstansaði fyrir aftan kyrrstæðan leigubíl. Svo vel vildi til að þar var um að ræða blæjubíl af gerðinni Cadillac 75 – og blæjan var niðri. Inn í drossíuna flaug úttaugaður kafteinninn og komust ferðalangarnir út á flugvöll í tæka tíð.
Kannski óvenjulegur leigubíll en hvað veit maður um hvernig málum var háttað í Nýju-Dehli í fyrndinni!
Hergé og Citroen
Hergé bjó til nokkrar auglýsingar fyrir bílaframleiðandann Citroen. Auglýsingaveggspjöld og bæklingar frá Citroen með teikningum og persónum Hergé þykja mikið „raritet“ í dag og safnarar greiða margir hverjir háar upphæðir fyrir pésa í góðu standi.
Auglýsingarnar sýna m.a. illmennið Rassópúlos og félaga hans spæna eftir götu á Citroen Avant 7A. Bréfberi rétt sleppur og umslögin fljúga út um allt og félagarnir í bílnum hlæja ljótukarlalega. Sumar þessara mynda fylgdu „fílakaramellunum“ Cote d´Or sem límmiðar.
Citroen 2VC6 var auglýstur og á einu slíku veggspjaldi/auglýsingu má sjá þá Tinna og Kolbein stíga út úr bílnum og eru þeir sælir á svip. Skottið er opið og stappfullt af alls kyns útilegubúnaði. Ætli það eigi ekki að tákna: Óþrjótandi pláss í CV2 fyrir ævintýramenn og hund!
Hér má sjá nokkrar slíkar auglýsingar:




Ljóst er að margt má skrifa um bíla í Tinnabókunum enda af nógu að taka. Þó er best að láta staðar numið hér að þessu sinni!
[Greinin birtist fyrst í febrúar 2021]
Átt þú eftir að lesa þessar?
„Harry! Wir brauchen den Wagen, sofort!“ – Derrick og bílarnir
Ekið á gargönum eftir ropvatni – Laxness og bílar
Verbúðarbílarnir á Suðureyri
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein